Skoðun

Á kross­götum í At­lants­hafi

Gunnar Pálsson skrifar

Misklíðin sem magnast hefur upp á undanförnum mánuðum í röðum bandalagsríkja út af Úkraínu er líkleg til að setja mark sitt á Atlantshafssamstarfið í framtíðinni. Hún skerpir einnig þá kosti sem íslensk stjórnvöld standa andspænis í öryggis- og varnarmálum.

Togstreita í Atlantshafssamstarfinu er ekki ný af nálinni. Bandaríkin hafa lengi borið sig illa yfir ójöfnum byrðum Evrópu og þeirra sjálfra af sameiginlegum vörnum Evrópu. Þau líta einnig svo á að Evrópa hafi hagnast óeðlilega af viðskiptum yfir hafið á kostnað Bandaríkjanna. Álfan sé orðin byrði á Bandaríkjunum sem tímabært sé að þau létti af sér. Engu að síður er því ekki að neita að ágreiningurinn hefur nýlega tekið á sig alvarlegri mynd en þátttökuríki í samstarfinu hafa hingað til átt að venjast.

Ekki er launungarmál að bandarísk stjórnvöld hafa frá því snemma á þessu ári freistað þess að binda endi á átökin í Úkraínu. Ástæðan er ekki flókin. Úkraínumenn, studdir bandamönnum sínum í vestri, hafa beðið lægri hlut í vopnaviðskiptunum, en Rússar sótt í sig veðrið. Væri þessu öfugt farið, væru engar viðræður stríðsaðila á döfinni. Markmið Bandaríkjanna, undir þessum kringumstæðum, hafa því fyrst og fremst verið að takmarka skaðann og koma í veg fyrir að Úkraína, sem þegar er komin að fótum fram, þyrfti að sætta sig við verri kosti síðar. Ef marka má nýja þjóðaröryggisstefnu, vilja Bandaríkin jafnframt koma samskiptum sínum og Rússlands aftur á réttan kjöl. Frá sjónarhóli Bandaríkjanna þjónar hvort tveggja þeim tilgangi að tryggja stöðugleika og frið á meginlandi Evrópu til lengri tíma.

Þær óformlegu hugmyndir sem Bandaríkin hafa sett fram um grunn að hugsanlegu samkomulagi hafa á hinn bóginn reynst óaðgengilegar fyrir bæði Úkraínu og Evrópuríkin. Tækjust samningar á milli Bandaríkjanna og Rússlands, sem Úkraínumönnum yrði gert að lúta, óttast Evrópuríkin að það auðveldi Bandaríkjunum að fækka í herliði sínu í Evrópu með þeim afleiðingum að þeim yrði eftirlátið einum síns liðs að glíma við rússneska björninn. Féllust Evrópuríkin á hugmyndir Bandaríkjanna, m.a. um eftirgjöf landsvæða og hlutleysi Úkraínu, mætti ennfremur túlka það sem fortakslausa uppgjöf gagnvart Rússum í átökunum. Eftir margítrekaðar yfirlýsingar þess efnis að Evrópa stæði með Úkraínu uns sigur ynnist, er vandséð að valdhafar í helstu Evrópuríkjum gætu útskýrt slíkan viðsnúning á sannfærandi hátt, en kannanir sýna að nokkrir þeirra standa þegar höllum fæti gagnvart kjósendum sínum vegna efnahagslegs fórnarkostnaðar, svo sem hríðhækkandi orkuverðs, sem rekja má beint til Úkraínustríðsins.

Þetta klandur Evrópuríkjanna er meginskýringin á því að þau hafa lagst á árar gegn mögulegu samkomulagi Bandaríkjanna og Rússlands um endalok stríðsins í Úkraínu. Endurteknar tilraunir framkvæmdastjórnar ESB til að leggja hald sitt á frystar eignir Rússa hjá belgíska vörsluaðilanum Euroclear, í fullvissu þess að friðarsamkomulag yrði óhugsandi fengju Rússar ekki innistæðurnar greiddar, eru einungis síðasta dæmið.

Andróður Evrópuríkjanna gegn viðleitni Bandaríkjanna til að binda endi á Úkraínustríðið virðist hins vegar hvorki rökréttur né siðferðilega réttlætanlegur. Hafi stuðningur Evrópuríkjanna við Úkraínu ekki skilað tilætluðum árangri með Bandaríkin í forystu, er það borin von að hann geri það eftir að þau hafa hellst úr lestinni, en til að bæta upp brottfall Bandaríkjanna skortir Evrópu bæði efnahagslega og hernaðarlega burði. Þá er ekki laust við að lúsarögn af hræsni sé í því fólgin að láta líta svo út sem baráttan um Úkraínu snúist að öðrum þræði um öryggi og varnir Evrópu en ætla Úkraínumönnum einum að senda hermenn sína í ginið á rússnesku mulningsvélinni.

Með því að leggjast gegn tilraunum Bandaríkjamanna til að enda stríðið í Úkraínu hafa Evrópuríkin, burtséð frá öllum málefnarökum, gengið þvert gegn mikilvægum áherslum forysturíkis Atlantshafssamstarfsins í öryggis- og varnarmálum. Ögrun af því tagi þarf ekki að hafa það í för með sér að upp úr slitni í varnarsamstarfinu, enda munu Bandaríkin áfram vilja hafa fótfestu í Evrópu. Fari fram sem horfir, mun þó fátt geta komið í veg fyrir vaxandi tortryggni í samstarfinu, sem veikt gæti bandalagið og rýrt það traust sem nauðsynlegt er að aðildarríkin beri áfram til hinna gagnkvæmu skuldbindinga sinna. Hversu lengi Atlantshafssamstarfið mun þola þá áraun, getur framtíðin ein skorið úr um.

Íslenska þjóðin á það að miklu leyti Atlantshafssamstarfinu að þakka að hafa ekki þurft að velja milli bandamanna sinna fyrir austan haf og vestan á lýðveldistímanum. Á þeim krossgötum sem samstarfið virðist nú statt, ættu íslensk stjórnvöld að hyggja vel að því hvar í sveit þau vilja skipa sér áður en lengra er haldið.

Höfundur er fyrrverandi sendiherra Íslands hjá NATO og ESB.




Skoðun

Sjá meira


×