Erlent

Spjótin beinast að syni Reiners

Samúel Karl Ólason skrifar
Rob og Nick Reiner árið 2016.
Rob og Nick Reiner árið 2016. Getty/Rommel Demano

Rob Reiner og eiginkona hans, Michele eru sögð hafa verið myrt af syni þeirra sem þau voru að rífast við. Ein af dætrum þeirra hjóna er sögð hafa komið að líkunum í gær og sagt lögreglunni að þau hafi verið myrt af bróður hennar, sem heitir Nick Reiner og er 32 ára gamall.

Hann er sagður hafa verið yfirheyrður af lögreglunni en mun ekki hafa verið handtekinn enn, þó hann sé í haldi.

Fregnirnar hafa ekki verið staðfestar af lögreglunni en þetta er meðal þess sem blaðamenn People og TMZ hafa eftir heimildarmönnum sínum vestanhafs.

TMZ segir að hjónin hafi verið skorin á háls.

Reiner, sem var 78 ára, var þekktur leikstjóri og gerði fjölda þekktra mynda eins og This Is Spinal Tap, The Princess Bride, When Harry Met Sally, Misery og A Few Good Men. Hann og Michele, sem var 68 ára, giftust árið 1989 og áttu þrjú börn.

Sjá einnig: Talið að Rob Reiner og eiginkona hans hafi verið myrt

Lögreglunni barst tilkynning um líkfund klukkan 15:30 að staðartíma í gær. Þá mun ein dóttir þeirra hafa komið að þeim látnum á heimili þeirra í Los Angeles.

Í viðtali við People árið 2016 lýsti Nick Reiner því hvernig hann hafði lengi átt í miklum vandræðum með fíkn. Frá því hann hafi verið unglingur hafi hann ítrekað farið í meðferð og fallið svo aftur. Í gegnum árin fjarlægðist hann foreldra sína og hafði hann ítrekað verið heimilislaus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×