Innlent

325 milljónir í næsta á­fanga LED-ljósavæðingar í Reykja­vík

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Unnið er að því að snjallvæða gatnalýsingu í Reykjavík.
Unnið er að því að snjallvæða gatnalýsingu í Reykjavík. Vísir/Vilhelm

Borgarráð Reykjavíkur samþykkti í gær beiðni umhverfis- og skipulagssviðs borgarinnar um að heimila útboð í framkvæmdir vegna LED-ljósavæðingar og endurnýjunar gatnalýsingar fyrir næsta ár. Áætlaður kostnaður vegna framkvæmdanna er 325 milljónir króna. Gert er ráð fyrir að framkvæmdin muni borga sig upp á nokkrum árum þar sem nýtt ljósakerfi verði ódýrara í rekstri.

Um er að ræða næsta skref við heildarendurnýjun götuljósa sem hefur snjallvæðingu að leiðarljósi sem hófst fyrir nokkrum árum, en markmið borgarinnar er að útrýma öllum kvikasilfurlömpum á árinu 2026. Kortið hér að neðan sýnir þau svæði þar sem lömpum hefur þegar verið skipt út, og þau svæði sem áformað er að ráðast í næst.

Framgangur við útskiptingu lampa götuljósa í Reykjavík.Reykjavíkurborg

Áætlaður kostnaður nemur annars vegar 250 milljónum króna vegna LED-ljósavæðingar, og hins vegar 75 milljónum vegna endurnýjunar gatnalýsingar. „Framkvæmdin felur í sér að endurnýja 7210 lampa og stýrikerfi gatnalýsingar. Þeir staðir sem um ræðir eru í Grafarvogi, Þingholtum, Árbæ, Hlíðum, Laugardal, Kjalarnesi og gangbrautarlampar,“ segir í bréfi umhverfis- og skipulagsráðs um málið.

Nýverið greindi Vísir frá kvörtunum íbúa vegna myrkurs í hverfi sínu, en samkvæmt upplýsingum frá borginni skýrðist myrkrið einkum af töfum við framkvæmdir LED-væðingarinnar. 

Í bókun borgarfulltrúa meirihlutans segir að LED-væðingin sé bæði jákvætt og þýðingarmikið skref til að bæta lýsingu í Reykjavík.

„Það skiptir máli upp á að draga úr orkunotkun sem er umhverfislega mikilvægt skref og það skiptir máli upp á að að gera rekstur borgarinnar hagkvæmari, en einnig til að bæta lýsingu í borginni. Sú LED-væðing sem hér er til umræðu er áætluð 250 m.kr. og endurnýjun gatnalýsingar er áætluð 75 m.kr. á árinu 2026. Þessi fjárfesting er talin muni borga sig upp á 4-5 árum vegna lægri kostnaðar við rekstur,” segir í bókun borgarfulltrúa Samfylkingar, Pírata, VG, Sósíalista og Flokks fólksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×