Skoðun

Að­gerðar­leysi er það sem kostar ungt fólk

Jóhannes Óli Sveinsson skrifar

Nýkynnt samgönguáætlun er sigur fyrir ungt fólk og framtíðarkynslóðir því aðgerðarleysi í innviðafjárfestingu kostar okkur. Í byrjun árs kynntu Samtök iðnaðarins og Félag ráðgjafarverkfræðinga skýrslu um ástand íslenskra innviða. Þar var uppsöfnuð viðhaldsþörf í vegakerfinu metin á 265-290 milljarða króna en hafði í sömu úttekt fjórum árum fyrr verið metin á 160-180 milljarða króna. Þetta er ekki nema annað form skuldasöfnunar af hálfu ríkisins þar sem nauðsynlegu viðhaldi er velt á komandi kynslóðir, sem birtist svo ekki í formi aukinnar lántöku heldur í lægra þjónustustigi og óöruggari vegum. Fólk finnur fyrir þessu á hverjum degi, á mörgum stöðum um landið keyrir fólk reglulega um hættulega vegi. Sjálfur fæ ég áminninguna þegar ég keyri yfir Skjálfandabrú í Kinn þar sem skilti minnir mann á að þungir bílar þurfi að finna sér aðra leið því brúin þoli þá ekki.

Þetta gerist ekki í tómarúmi, það var síðustu ríkisstjórn mikið keppikefli að ráðast í ófjármagnaðar skattalækkanir fyrir tekjuhæstu hópa samfélagsins og viðhalda þeim skattaglufum sem fyrir voru. Þá þurfti eitthvað undan að láta, það kostar peninga að reka samfélag og ef tekjur ríkissjóðs minnka þá munu opinberir innviðir líða fyrir það. Það var það sem gerðist, í stað þess að greiða fyrir skattalækkanir með því að sækja tekjur annars staðar var leitað allra leiða til að sleppa við að taka ákvörðun. Það var ákveðið að fresta nýframkvæmdum, draga sumsstaðar saman í viðhaldi og láta annað standa í stað því það þótti þægilegra en að eiga hreinskilið samtal við þjóðina.

Nú stendur þetta sama fólk í ræðustól Alþingis og gagnrýnir núverandi ríkisstjórn fyrir að gera það sem þau ekki þorðu, að sækja fjármagnið sem til þarf til að viðhalda vegakerfinu og sækja fram í samgöngum og innviðafjárfestingum. Í nýkynntri samgönguáætlun eru fjárframlög til viðhalds og þjónustu á vegum aukin um 7 milljarða, trúverðug jarðgangnaáætlun sett fram og innviðafélag stofnað til að flýta fyrir stærri samgönguframkvæmdum. Biðin eftir nýrri Skjálfandabrú í Kinninni mun meira að segja styttast! Það mikilvægasta er svo að hún er fjármögnuð upp á punkt og prik. Það er nefnilega lítið mál að segja hvað þú vilt gera en málið flækist þegar á að borga fyrir það. Það er eðlilegt að fólk hafi sterkar skoðanir á samgönguáætlun, hún skiptir fólk í dreifðari byggðum öllu máli og það þarf að eiga sér stað gott samtal. Ég vona samt að þingheimur sameinist um að klára þinglega meðferð sem fyrst því aðgerðarleysið er dýrt og verkefnið verður stærra með hverju árinu.

Höfundur er forseti Ungs jafnaðarfólks.




Skoðun

Sjá meira


×