Innlent

Við­gerð á Seyðisfjarðarlínunni muni taka tíma

Lovísa Arnardóttir skrifar
Seyðisfjarðarlína bilaði vegna ísingar.
Seyðisfjarðarlína bilaði vegna ísingar. Ragnar Bjarni

Landsnet vinnur nú að viðgerð á Seyðisfjarðarlínu en rafmagnslaust varð á Seyðisfirði í nótt. Í tilkynningu segir að viðgerðin geti tekið tíma. Þegar þeirri viðgerð er lokið verður hafist handa við Neskaupstaðarlínu sem einnig bilaði í gærkvöldi. Í tilkynningu er einnig greint frá viðgerð á Breiðdalslínu á Vestfjörðum.

Í tilkynningu segir að Seyðisfjarðarlína 1 hafi bilað þar sem hún liggur yfir Fjarðarheiði vegna mikillar ísingar. Rafmagn hafi farið af Seyðisfirði og nágrenni í nótt, en undir morgun hafi rafmagni verið komið á með vatnsaflsvirkjun á svæðinu og varaaflsstöð í Seyðisfirði.

Við yfirferð á línunni í nótt fundust brotnar stæður á Fjarðarheiði. Okkar fólk fyrir austan er nú í morgunsárið að taka saman viðgerðarefni og verður farið í viðgerð á línunni í kjölfarið en aðstæður eru þannig að það mun taka einhvern tíma að klára hana,“ segir í tilkynningu Landsnets.

Í tilkynningu frá HS Orku um sama mál kemur fram að rafmagn hafi verið komið á um sexleytið þegar Fjarðarárvirkjanir HS Orku voru settar í eyjarekstur.

„Reksturinn gengur vel og er stöðugur,“ segir í tilkynningunni. Rafmagn hafi farið af vegna ísingar en vont veður tefji bilanaleit og viðgerðir.

Í tilkynningu HS Orku segir að þetta sé í fyrsta sinn sem reyni á eyjarekstur Fjarðarárvirkjana þegar bilun hefur orðið í flutningskerfinu. HS Orka hafi ráðist í umtalsverðar endurbætur og uppfærslu á stjórnbúnaði á virkjununum snemma árs 2024 svo mögulegt yrði að reka Seyðisfjörð sem eyju. Við þær aðgerðir hafi raforkuöryggi Seyðfirðinga aukist til mikilla muna. 

Fjarðárvirkjanir. Baldur Kristjánsson

Í tilkynningu Landsnets er einnig fjallað um Neskaupstaðarlínu sem einnig fór út í gærkvöldi en olli ekki rafmagnsleysi. Í tilkynningunni segir að öllum líkindum sé þar líka um ísingarálag að ræða, línan verði skoðuð um leið og viðgerð á Seyðisfjarðarlínu er lokið.

Þá segir að Breiðadalslína 1 hafi einnig leyst út í gær og rafmagn farið tímabundið af norðanverðum Vestfjörðum. Varaafl í Bolungarvík tók strax við og tryggði rafmagn til allra forgangsnotenda. Við bilanaleit í gær fundust nokkrir brotnir staurar og þverslár á Flatsfjalli, milli Borgarfjarðar og Dýrafjarðar. Í tilkynningu segir að gul viðvörun sé í gildi á Vestfjörðum sem gæti haft áhrif á viðgerðartíma. Ef aðstæður leyfa verði stefnt að því að taka línuna í rekstur á föstudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×