Innlent

Tæp tvö ár fyrir smygl á tæpum tveimur kílóum af kókaíni

Atli Ísleifsson skrifar
Konan kom til landsins með flugi frá Sviss í september síðastliðinn. Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki beint.
Konan kom til landsins með flugi frá Sviss í september síðastliðinn. Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt konu í 21 mánaðar fangelsi fyrir smygl á tæplega tveimur kílóum af kókaíni til landsins. Konan hafði samþykkt að flytja efnin til landsins gegn greiðslu.

Konan kom til landsins með flugi til Keflavíkurflugvallar frá Zürich í Sviss þann 4. september síðastliðinn. Hún var með efnin falin í farangurstösku.

Hún var ákærð fyrir stórfellt fíkniefnabrot en efnin voru með styrkleika 74 til 75 prósent og er talið að þau hafi verið ætluð til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni.

Konan játaði sök við þingfestingu og af gögnum var ekki ráðið að konan hafi verið eigandi efnanna eða tekið þátt í skipulagningu á kaupum og innflutningi að öðru leyti en að hafa samþykkt að flytja þau til landsins gegn greiðslu.

Dómari í málinu mat hæfilega refsingu vera 21 mánaðar fangelsi en til frádráttar kom gæsluvarðhald sem konan hafði sætt frá komunni til landsins. Konan var jafnframt dæmd til að greiða 1,6 milljón króna í sakarkostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×