Erlent

Mislingafaraldurinn í Banda­ríkjunum breiðir úr sér

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Drengur í Texas bólusettur gegn mislingum.
Drengur í Texas bólusettur gegn mislingum. Getty/Jan Sonnenmair

Mislingafaraldur sem hófst í samfélagi mennóníta í Texas og dreifðist til Oklahoma og Nýju Mexíkó, hefur nú verið tengdur við hópsmit í Utah og Arizona. Mislingar hafa greinst í alls 43 ríkjum.Þrír hafa látist af völdum mislinga á árinu.

Fyrsta smitið greindist í janúar í fyrra og ef yfirvöldum tekst ekki að ná faraldrinum niður fyrir árslok, það er að segja á innan við tólf mánuðum, glata Bandaríkin stöðu sinni sem ríki þar sem mislingum hefur verið útrýmt, samkvæmt viðmiðum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar.

Kanada tapaði þessari stöðu í síðustu viku, í fyrsta sinn á 27 árum. Breytingin mun líklega ekki hafa í för með sér neinar „áþreifanlegar“ afleiðingar, líkt og ferðabann, en sérfræðingar segja hana vandræðalega fyrir jafn þróuð og efnuð ríki.

Alls hafa 1.723 einstaklingar í Bandaríkjunum greinst með mislinga það sem af er ári, samkvæmt gögnum frá 13. nóvember síðastliðnum. Af þeim voru 92 prósent annað hvort óbólusettir eða ekki vitað um bólusetningastöðu þeirra.

66 prósent smitaðra voru 19 ára eða yngri og 26 prósent yngri en fimm ára.

Afstaða mennóníta til bólusetninga er mismunandi eftir samfélögum en þátttaka þeirra í Texas hefur sögulega verið dræm. Bólusetningum fjölgaði nokkuð eftir að faraldurinn hófst í upphafi árs en dregið hefur úr þátttöku eftir því sem liðið hefur á árið.

New York Times fjallar ítarlega um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×