Innlent

Ekkert vesen á hrjótandi gesti í Sjóminjasafninu

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Guðbrandur segir manninn hafa hegðað sér vel.
Guðbrandur segir manninn hafa hegðað sér vel.

Viðbragðsáætlun Sjóminjasafnsins var virkjuð þegar hrjótandi heimilislaus maður fannst í hengirúmi á safninu í gær á opnunartíma safnsins. Safnstjóri segir manninn hafa verið kurteisan og hegðað sér vel, um verkferla hafi verið að ræða.

Fram kom í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu að lögreglan hefði meðal annars verið kölluð til í gær vegna einstaklings sem svaf í hengirúmi á safni í miðborginni. Guðbrandur Benediktsson safnstjóri Borgarsögusafnsins sem rekur meðal annars Sjóminjasafnið staðfestir í samtali við Vísi að maðurinn hafi fengið sér blund á Sjóminjasafninu, þó ekki að miðri nóttu líkt og halda mætti við lestur lögregludagbókarinnar.

„Það var ekkert vesen á manninum. Hann kom þarna inn og kom sér fyrir í einu hengirúmi á sýningarsvæði og sofnaði og hraut. Svo er bara viðbragðsáætlun sem við virkjum svo að starfsfólk lendi ekki í neinum hremmingum og lögreglan fengin til aðstoðar. Hann var bara drukkinn en kurteis og það var allt í góðu.“

Guðbrandur segir þúsundir gesta mæta á safnið og þeir geti stundum verið í misjöfnu ástandi. „Það er ýmislegt sem getur komið upp á, þó svona lagað sé kannski meira bundið við miðbæinn og sjaldgæfara hjá okkur hér í Árbæjasafni. Þetta er bara hluti af miðbænum.“

Hann segir sannkallaða vertíð Borgarsafnsins framundan. „Það styttist í jólin og þá er alltaf líf og fjör á Árbæjarsafni. Það er alltaf stemning á söfnunum okkar á þessum árstíma og við hlökkum til.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×