Innlent

Vill leiða Sjálf­stæðis­flokkinn í Reykja­nes­bæ

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Unnar Stefán býður sig fram til oddvita flokksins í Reykjanesbæ. 
Unnar Stefán býður sig fram til oddvita flokksins í Reykjanesbæ.  Sjálfstæðisflokkurinn

Unnar Stefán Sigurðsson, skólastjóri í Háaleitisskóla í Reykjanesbæ, vill leiða lista Sjálfstæðisflokksins í sveitarstjórnarkosningunum í maí. Hann greinir frá þessu í samfélagsmiðlafærslu. 

„Ég býð fram krafta mína, reynslu og skýra framtíðarsýn fyrir bæinn okkar. Markmið mitt er að leiða öflugt teymi innan Sjálfstæðisflokksins sem vinnur af heiðarleika, gagnsæi og ábyrgð, með skýra áherslu á þjónustu við íbúa, sterkt atvinnulíf og traustan rekstur bæjarins – teymis sem hefur ástríðu fyrir því samfélagi sem við búum í,“ skrifar Unnar Stefán á Facebook

Tæpur mánuður er síðan Margrét Sanders, núverandi oddviti flokksins í Reykjanesbæ, greindi frá því að hún hygðist ekki sækjast eftir oddvitasætinu á ný. 

Sjálfstæðisflokkurinn er í minnihluta í bæjarstjórn í Reykjanesbæ. Meirihlutann skipa Framsóknarflokkurinn, Samfylkingin og Bein leið.

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, hefur legið undir feldi og sagst íhuga alvarlega að gefa kost á sér í oddvitasætið fyrir kosningarnar í vor. 

Unnar hefur starfað sem skólastjóri Háaleitisskóla í rúmt ár en starfaði fyrir það sem aðstoðarskólastjóri í Holtaskóla. Hann er menntaður smiður, rafvirki, lögreglumaður og er með BA-gráðu í guð- og miðaldafræði. Þá tók hann kennsluréttindin árið 2008 og lauk meistaragráðu í mannauðsstjórnun árið 2023.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×