Innlent

Játaði hóp­nauðgun og vildi komast í frí til heima­landsins

Árni Sæberg skrifar
Landsréttur þyngdi dóm yfir Ásgeiri Þór Önnusyni sem braust inn á heimili í Hafnarfirði á aðfangadag 2023 og skaut úr skammbyssu.
Landsréttur þyngdi dóm yfir Ásgeiri Þór Önnusyni sem braust inn á heimili í Hafnarfirði á aðfangadag 2023 og skaut úr skammbyssu. Vísir/Viktor Freyr

Maður sem sætir ákæru fyrir, og hefur játað, að hafa nauðgað ólögráða stúlku í félagi við annan mann, sætir áframhaldandi farbanni til byrjunar febrúar. Geðlæknar hafa metið hann sem svo að refsing sé ekki líkleg til að bera árangur.

Þetta kemur fram í úrskurði Landsréttar, sem staðfesti í gær úrskurð Héraðsdóms Reykjaness frá því daginn áður, um að maðurinn skildi sæta farbanni til 2. febrúar næstkomandi. Hann hefur þegar sætt farbanni frá 25. október í fyrra.

Meint atvik málsins munu hafa átt sér stað að nóttu til í ágústmánuði í fyrra. Fréttastofa hefur ákæru málsins undir höndum, en mörg atriði hennar hafa verið afmáð.

Úbjuggu myndskeið af nauðguninni

Mönnunum tveimur er gefið að sök að hafa nauðgað stúlkunni með því að notfæra sér ölvunarástand hennar þar sem hún hafi ekki getað spornað við verknaðinum vegna ölvunar og svefndrunga.

Í ákærunni segir að báðir þeirra hafi haft við hana samræði og annar þeirra einnig haft við hana önnur kynferðismök.

Þá eru mennirnir sagðir hafa í sama skipti útbúið myndskeið af þessari meintu nauðgun án samþykkis og vitneskju stúlkunnar.

Sakhæfur en ekki líklegt að refsing beri árangur

Í úrskurðinum segir að við þingfestinu málsins hafi maðurinn óskað eftir fresti til þess að taka afstöðu til sakargifta þar sem til stæði að dómkveðja matsmann til þess að meta sakhæfi og geðrænt heilbrigði hans. 

Í kjölfar þess að undirmat lá fyrir hafi þess verið beiðst af hálfu Héraðssaksóknara að fram færi yfirmat. Samkvæmt niðurstöðu yfirmats sem framkvæmt var af tveimur geðlæknum sé það talið ólíklegt að refsing muni bera árangur í máli mannsins.

Í almennum hegningarlögum segir að hafi maður sem vinnur refsivert verk verið andlega miður sín, svo sem vegna vanþroska, hrörnunar, kynferðilegs misþroska eða annarrar truflunar, en þetta ástand hans sé ekki á svo háu stigi að hann sé ósakhæfur í skilningi laganna, skuli honum þá refsað fyrir brotið, ef ætla megi eftir atvikum og eftir að læknisumsagnar hefur verið leitað, að refsing geti borið árangur.

Játaði skýlaust

Mál mannsins hafi verið tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjaness í lok október þar sem hann tók afstöðu til sakargifta, en hann hafi skýlaust játað þá háttsemi sem honum er gefið að sök samkvæmt ákæru. 

Þó liggi fyrir að ágreiningur er uppi í málinu um hvort að maðurinn skuli sæta refsingu vegna brota sinna og þar af leiðandi muni fara fram aðalmeðferð í byrjun desember.

Ætlaði að dvelja lengi í upprunalandinu

Í greinargerð Héraðssaksóknara með kröfu um farbann yfir manninum segir að hann sé af erlendum uppruna og hafi hugað á ferðalag af landi brott í desember síðastliðnum. 

Þar hafi hann hugast dvelja í langan tíma ásamt fjölskyldu sinni í upprunalandi þeirra. Með vísan til alvarleika málsins telji Héraðssaksóknari hættu á að maðurinn muni reyna að komast úr landi eða leynast, ellegar koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar gangi hann laus meðan mál hans er til meðferðar hjá dómstólum.

Í staðfestum úrskurði héraðsdóms segir að að mati dómsins verði fallist á það með Héraðssaksóknara að brýnt sé að tryggja nærveru mannsins meðan máli hans er ólokið, enda hætt við að hann muni, í ljósi erlendra fjölskyldutengsla, reyna að komast úr landi eða leynast ellegar koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar, verði ekki gerðar ráðstafanir í því skyni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×