Erlent

Evrópu­ríki ná saman um veru­lega út­þynnt lofts­lags­mark­mið

Kjartan Kjartansson skrifar
Lars Aagaard, umhverfisráðherrra Danmerkur, stýrði fundi evrópusku umhverfisráðherrann í Brussel en Danir fara nú með formennsku í ráðherraráði Evrópusambandsins.
Lars Aagaard, umhverfisráðherrra Danmerkur, stýrði fundi evrópusku umhverfisráðherrann í Brussel en Danir fara nú með formennsku í ráðherraráði Evrópusambandsins. Vísir/EPA

Bráðabirgðasamkomulag sem umhverfisráðherrar Evrópusambandsríkja náðu í morgun um loftslagsmarkmið sambandsins til ársins 2040 útvatnar verulega tillögu framkvæmdastjórnar þess. Það felur í sér að ríkin þyrftu aðeins að ná 85 prósent samdrætti í losun í stað 90 prósenta með möguleika á að kröfurnar verði á endanum jafnvel enn vægari.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lagði til að stefnt yrði að níutíu prósent samdrætti gróðurhúsalofttegunda borið saman við losun árið 1990 fyrir lok næsta áratugar. 

Til þess að friðþægja ákveðin ríki fól tillaga hennar í sér að ríkin gætu í fyrsta skipti útvistað þremur prósentum af samdrætti í losun til ríkja utan Evrópu með kaupum á alþjóðlegum kolefniseiningum.

Umhverfisráðherra aðildarríkja ESB komu saman til fundar í Brussel í gær til þess að ná bráðabirgðasamkomulagi um nýja markmiðið. Þeir voru undir tímapressu þar sem sambandið vildi ekki mæta tómhent á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem hefst í Brasilíu í næstu viku.

Eftir átján klukkustunda langar samningaviðræður samþykktu ráðherrarnir samkomulagsdrög sem ganga umtalsvert skemur en stefnt var að.

Málamiðlanir í allar áttir

Í stað þeirra þriggja prósenta samdráttar sem framkvæmdastjórnin lagði til að sambandið gæti náð með kaupum á kolefniseiningum samþykktu ráðherrarnir að fimm prósentum gæti verið náð með þeim hætti. Þannig þyrfti Evrópa í reynd að draga úr losun sinni um 85 prósent.

Framkvæmdastjórnin féllst einnig á að skoða þann möguleika að heimila ríkjunum að ná allt að fimm prósentum til viðbótar með útvistun til þriðju ríkja utan álfunnar, að því er kemur fram í frétt Reuters.

Óháð ráðgjafarnefnd ESB í loftslagsmálum mótmælti á sínum tíma tillögunni um að notkunar alþjóðlegra kolefniseininga yrði leyfð til að ná markmiðinu fyrir 2040. Þannig yrði fjárfestingu í evrópskum iðnaði, sem mikil þörf væri á, meðal annars beint annað.

Veikja útfösun sprengihreyfilsvéla og fresta nýju losunarkerfi

Þetta voru ekki einu tilslakanirnar til ríkja sem voru gagnrýnin á metnarfyllri tillögu framkvæmdastjórnarinnar, þar á meðal Póllands, Tékklands, Frakklands, Portúgals og Ítalíu.

Þannig var samþykkt að fresta nýju losunarkerfi sem átti að taka gildi árið 2027 sem legði gjald á losun vegna vegasamgangna og húshitunar um eitt ár. Pólverjar gagnrýndu að það ætti eftir að hækka eldsneytisverð.

Að kröfu Ítala verður stefna ESB um jarðefnaeldsneytisknúnar bifreiðar verði fasaðar út frá og með 2035 veikt umtalsvert, að því er kemur fram í frétt Politico. Nú geri hún ráð fyrir að bifreiðar sem brenna eldsneyti sem er annað hvort kolefnishlutlaust eða losar hlutfallslega lítið magn gróðurhúsalofttegunda verði áfram hluti af bílaflota álfunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×