Innlent

„Þau eru mjög æst í stærð­fræði!“

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Íris E. Gísladóttir og Sigurður Gunnar Magnússon, tveir af stofnendum Evolytes.
Íris E. Gísladóttir og Sigurður Gunnar Magnússon, tveir af stofnendum Evolytes. vísir/sigurjón

Stóra stærðfræðikeppnin hefur farið mun betur af stað en forsvarsmenn framtaksins þorðu að vona. Krakkar um allt land hafa svarað tugi þúsunda stærðfræðidæma. Fréttastofa kíkti í heimsókn í Ísaksskóla þar sem það var svo sannarlega leikur að læra. 

Keppnin hófst í dag og fer þannig fram að  krakkar efla stærðfræðikunnáttu sína með því að keppa í tölvuleik, svo virðist sem leikurinn hafi slegið í gegn en búið er að leysa hátt í 60 þúsund dæmi það sem af er degi. 

Í leiknum safna spilendur sérstökum dýrum sem stökkbreytast og keppa með stærðfræðina að vopni.vísir/sigurjón

Keppnin er á vegum Evolytes og Andvara farsældarhraðalls og stendur yfir næstu 40 daga. Um níu þúsund nemendur úr 149 skólum taka þátt í keppninni. Þrír bestu skólarnir frá verðlaun þegar keppninni lýkur loks. Eins og leikar standa leiðir Hvassaleitisskóli listann en þar hefur að meðaltali hver nemandi svarað 90 dæmum á fyrsta degi keppninnar.

Í Ísaksskóla voru krakkar límdir við skjáinn en samtal við þau og stofnendur Evolyte er hægt að sjá hér fyrir neðan.

„Evolytes er bara leikur sem gerir mann geðveikt frábæran í stærðfræði. Við leggjum af stað í alls konar skemmtileg ævintýri sem ein af fjórum sögupersónum sem við getum valið okkar að spila og kynnumst alls konar margslungnum og skemmtilegum dýrum. Þau elska að keppa í stærðfræði og ef við gefum þeim nóg að borða og leikum við þau þá stökkbreytast þau líka,“ sagði Sigurður Gunnar Magnússon, einn stofnenda Evolytes.

„Þau eru mjög æst í stærðfræði og við teljum þetta vera mjög jákvætt. Meira að segja erum við búin að sýna fram á það að þau sem hafa mjög neikvætt viðhorf fá áhuga á sex til tíu vikum,“ sagði Íris E. Gísladóttir, einn stofnenda Evolytes. 

Nemendur í Ísaksskóla hæstánægðir.vísir/sigurjón

Framtakið hefur farið mun betur af stað en forsvarsmenn leiksins þorðu að vona.

„Þetta fór algjörlega fram úr okkar björtustu vonum. Þau eru búin að ná í fyrstu sameiginlegu verðlaunin sem að krakkar geta safnað fyrir og við héldum í fyrsta lagi að það gæti gerst á morgun. Það var pínu svona óðagot uppi á skrifstofu að reyna að bæta við. Við þurfum greinilega að hafa fleiri verðlaun fyrir þau, greinilega,“ sagði Íris.

Er leikur að læra?

„Svo sannarlega!“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×