Atvinnulíf

„Klárum þetta með góðu partíi heima hjá mér í kvöld“

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Haraldur Bjarnason, framkvæmdastjóri Auðkennis, færði sig frá því að starfa í Kísildalnum fræga yfir í fang ríkisins. Margt er augljóslega framundan í auðkennismálum: Er þetta viðtal kannski gervigreindarfulltrúi blaðamanns að tala við gervigreindarfulltrúa Halla?
Haraldur Bjarnason, framkvæmdastjóri Auðkennis, færði sig frá því að starfa í Kísildalnum fræga yfir í fang ríkisins. Margt er augljóslega framundan í auðkennismálum: Er þetta viðtal kannski gervigreindarfulltrúi blaðamanns að tala við gervigreindarfulltrúa Halla? Vísir/Anton Brink

Jeminn hugsa örugglega margir. Við tilhugsunina um að mögulega geti gervigreindin séð um að taka fundi fyrir okkur á meðan við skellum okkur í golf.

 Eða einfaldlega að gervigreindin sjái um að taka viðtal við framkvæmdastjóra Auðkennis, Harald Agnar Bjarnason, á meðan hann er staddur í New York og blaðamaðurinn jafnvel sjálfur á Tene.

Tveir gervigreindarfulltrúar – þjarkar – að tala saman en hvorug manneskjan á staðnum.

Þetta er ekki ólíkleg framtíð.

Spurningin er bara:

Hvers konar auðkenni munum við nota til að tryggja að okkar persónulegu gervigreindarfulltrúar – þjarkar sem munu sjá um verkefnin fyrir okkur á meðan við skellum okkur í golf eða til útlanda – séu örugglega þeir sem þeir segjast vera eða að gera það sem þeir mega gera og segja?

Við munum þurfa að auðkenna þessa fulltrúa – eða þjarka – með rafrænum skilríkjum eða einhverjum öruggum auðkennisleiðum. 

Það er eina leiðin til að skapa traust í þeirri veröld sem blasir við að verður innan fárra ára,“ 

segir Haraldur Agnar.

Maðurinn sem hefur verið framkvæmdastjóri Auðkennis frá árinu 2011 en starfaði um aldamótin í Kísildalnum í Bandaríkjunum. Þegar svo til allt var að gerast þar.

Í helgarviðtali Atvinnulífsins í dag kynnumst við Frískamínsstráknum Halla.

Hvert einasta mannsbarn á Íslandi þekkti Halla þegar hann var lítill. Enda andlit Frískamínsins sem allir krakkar þekktu. Halli var líka Þróttari með meiru, rosa töff hipp hoppari, pikkalóstrákur og glasabarn á Rósenbergkjallaranum.

Netföng jafn dýrmæt og þorskkvóti

Nýverið fagnaði Auðkenni 25 ára afmæli sínu, en Auðkenni var upphaflega stofnað af bönkunum en hefur frá árinu 2022 verið alfarið í eigu íslenska ríkisins.

Fyrirtækið þekkja svo sem fáir en ætli flestir tengi það ekki fyrst við auðkennislyklana forðum daga. Sem við fórum fyrst að nota árið 2006 en með tilkomu þeirra, hættum við að logga okkur inn í netbankana aðeins með notendanafni og lykilorði.

Í dag ætlum við svo sem ekki að fókusera á tækniþróunina. Heldur frekar að kynnast Haraldi, alltaf kallaður Halli. Og vefja tækniþróunina inn í söguna hans.

Til dæmis tíðarandanum þá og nú. Því þegar Halli var nýútskrifaður stúdent úr MS var hann þá þegar kominn í bissness með fjölskyldunni, sem stofnaði tæknifyrirtækið Miðheima árið 1993, ásamt fleiri einstaklingum.

„Fólk hringdi inn á netið í gegnum módem og við hjá Miðheimum buðum upp á mörg módem og vorum alltaf að fjölga þeim. Því eftir því sem fólk og fyrirtæki fór að nota internetið meir, því oftar gerðist það að allar línur voru uppteknar,“ rifjar Halli upp.

Í árdaga Internetsins vissu fáir hvað Internetið væri eða gæti gert eða myndi gera. Halli var þó einn þeirra sem var á undan sinni samtíð, sigraði meira að segja gjaldkerakosningar í MS út á kosningaloforð um að rafvæða bókhaldið. Fyrirsagnir úr blöðunum segja líka sitt um tíðarandann.

Miðheimar sáu reyndar líka um vefsíðugerð sem þótti afar merkileg nýjung og aðeins þeir sem voru komnir hvað lengst í að vera framúrstefnulegir nýttu sér í upphafi. Til dæmis Icelandair.

Halli hafði reyndar byrjað að tala fyrir nýtingu upplýsingatækninnar áður en hann útskrifaðist úr MS. Því þar sigraði hann kosningar sem gjaldkeri nemendafélagsins, meðal annars vegna þess að hann vildi rafvæða bókhaldið.

„Ég hafði þá þegar verið að færa bókhald í kerfinu hjá mömmu fyrir lítil fyrirtæki, meðal annars leigubílinn hans Halla afa,“ segir Halli og vísar þar í afann sem hann er skírður í höfuðið á.

Foreldrar Haraldar eru Hanna Dóra Haraldsdóttir og Bjarni Jón Agnarsson. Bróðir Haraldar er Róbert Viðar Bjarnason.

„Mamma var meira í upplýsingatækni, tölvumiðstöðinni og bókhaldi, en pabbi er rafeindavirki og var því meira í búnaðinum sjálfum. Róbert bróðir hefur síðan verið mjög framarlega í frumkvöðla- og tækniumhverfinu, einn af Oz-urunum þegar það var og hét,“ segir Haraldur og vísar þar til þess hversu mikil verðmæti þekking mannauðsins úr OZ hefur síðar reynst skapa í nýsköpun og tækni.

Til að setja hlutina í samhengi þótti Internetið svo frumstætt fyrirbæri á þessum tíma að í sjálfu tækniblaði DV í janúar árið 1995 sagði sérfræðingur hjá Nýherja að netföng væru jafn dýrmæt og þorskkvóti. Og að Internetið væri tækni til að lækka kostnað samskipta.

Lengi voru þetta því helst algjörir nördar sem skildu þennan tækniheim. Enda má hér sjá skemmtilega frétt frá Vísi árið 2012, þar sem Róbert bróðir Halla er annar af tveimur Nördum ársins. Saga Miðheima og fleiri fyrirtækja er stuttlega rakin þar.

Frískamínstrákurinn fer út í heim

Halli er fæddur 1975, ólst upp í Laugardalnum, var Þróttari og meira að segja svolítið frægur því hann var á umbúðum Frískamín sem þótti víst afar nauðsynlegt vítamín fyrir krakka í þá daga.

Halli var líka í tónlist. Gerðist DJ um tíma og var voða töff hipp hoppari í Langholtsskóla.

„Ég var í körfuboltaskóm með svona pumpu í tungunni, algjör spaði í neon gulri hettupeysu. Krökkunum fannst svo töff að pumpa mig að á endanum sprakk skó-tungan af ofnotkun,“ segir Halli.

Fyrsta starfið mitt var sem pikkaló hjá Holiday Inn þegar ég var 12 ára. 

Fékk þjórfé frá útlendingum og þurfti því að stofna gjaldeyrisreikning í banka til að leggja inn dollara.“

Fleiri virðulegir starfstitlar fylgdu.

„Ég var til dæmis glasabarn í Rósenbergkjallaranum um tíma, veit ekki hvort sá starfstitill er notaður enn,“ segir hann hugsi.

Almennt lýsir hann sjálfum sér sem áhyggjulausum og flottum ungum manni. Sem langaði fyrst og fremst að ferðast um heiminn eftir stúdent.

„Ég keypti one way ticket. Byrjaði í Kaupmannahöfn og vann við að selja dönskum fyrirtækjum þá hugmynd að tengjast internetinu,“ segir Halli og vísar þar til fyrirtækisins centrum.dk sem Róbert bróðir hans stofnaði í Kaupmannahöfn og var annað af tveimur netþjónustufyrirtækjum landsins um tíma.

„Ég fór síðan til Þýskalands og vann á hestabúgarði um tíma. Eftir það fór ég til Portúgal, þar sem okkur fannst ekkert mál að fara á djammið í Algarve og gista síðan í tjaldi.“

Næst lá leiðin til London þar sem Halli fór að búa með þremur vinkonum sínum. „Þar fór ég að vinna í tískuverslun á Oxford, selja gallabuxur og svona.“

Á endanum hélt Haraldur þó heim og skellti sér í viðskiptafræði í Háskóla Íslands.

Það var auðvitað ástin sem á endanum dró Halla til Íslands, til viðbótar við það mögulega að netbólan sprakk. Halli lýsir ævintýrinu í Kísildalnum þó sem mjög dæmigerðu fyrir frumkvöðla: Þar sem menn voru fimm mínútum frá því að verða milljónamæringar. Vísir/Antron Brink

Kísildalur og stóra ástin

Haraldur hélt til Bandaríkjanna sem Erasmus stúdent í Middlesbrough og kláraði því síðasta árið sitt í viðskiptafræðinni þar. Ritgerðina skrifaði hann í San Fransisco þar sem Róbert bróðir hans bjó, en það var í San Fransisco sem hugmyndin kom upp að búa til tölvuleiki.

„Við stofnuðum tölvuleikjafyrirtæki. Ekkert ósvipað CCP og það var í tölvuleikjabransanum sem ég bjó í Kísildal. Árið var 1999 og við höfðum ótrúlega mikla trú á þessu. Hittum meira að segja stóra og ríka menn í Hollywood til að sannfæra þá um að tölvuleikjaiðnaðurinn ætti eftir að verða risastór.“

Sem stórkarlar trúðu nú ekkert endilega á þessum tíma. Enda sprakk bólan fljótlega upp úr aldamótum.

„Við vorum korteri frá að meika það, náðum því ekki ólíkt CCP sem náði að halda velli. Annars hefðum við orðið milljónamæringar,“ segir Haraldur og hlær.

„En maður lærði svo mikið af þessum tíma. Til dæmis að dæma fólk ekki. Í Kísildal var allt að gerast. Google að byrja og allt það. Þú gast hitt einhvern pönkara með hring í andliti og eyrum. Síðan kom í ljós að þessi pönkari var milljarðamæringur. Fjölbreytileikinn var svo mikill og þegar maður er svona ungur er maður óhræddur og trúir því hiklaust að maður eigi eftir að sigra heiminn.“

Í samtalinu fleygir Haraldur fram bæði nöfnum og skemmtilegum atvikum:

Fundi með Ólafi Jóhanni Ólafssyni því þá var hann ein skærasta stjarna Time Warner fjölmiðlasamsteypunnar sem hann veitti forstöðu. Kermit froskur í partíi. Fundur í Los Angeles að selja hugmynd um raunveruleikasjónvarp í formi tölvuleiks.

En hvað ætli hafi þá gerst?

Nú ekki annað en það að Halli varð ástfanginn: Kynntist Hönnu Signý Guðmundsdóttur eiginkonu sinni á línuskautum í Reykjavík.

„Hún í hvítum gallabuxum og rosa sæt,“ segir Halli og ástarglampinn skín.

Halli kolféll fyrir eiginkonunni á línuskautum en hann og Hanna Signý Guðmundsdóttir eiga þrjú börn: Kolbrúnu Söru, Guðmund Ágúst og síðan er Jón Helgi yngstur. Síðast en ekki síst tilheyrir hundurinn Brúnó auðvitað fjölskyldunni.

Lyklakippa Íslands

Ástfanginn, byrjaður að búa og barn á leiðinni þýddi að lífið tók fljótt aðra stefnu hjá Halla. Sem um tíma flakkaði aðeins á milli Bandaríkjanna og Íslands.

„Síðan sprakk netbólan og við sprungum með.“

Litlu mátti þó muna að ævintýrið hefði gengið upp og orðið risastórt.

„Will Smith og fleiri stórir aðilar voru alvarlega að hugleiða að fjárfesta í okkur. En eflaust er sagan okkar mjög dæmigerð fyrir sögu frumkvöðla og nýsköpunar. Því við vorum fimm mínútur frá að verða milljónamæringar.“

Árið 2005 réði Haraldur sig til Fjársýslu ríkisins.

Þar var ég þá komin með fastar tekjur og margir litu svo á að þarna væri ég að fullorðnast. 

Því þótt heimur frumkvöðla og nýsköpunar feli í sér mjög mikla vinnu, litu sumir á að maður hefði bara verið að leika sér.“

Frá Kísildalnum í fang ríkisins: Halli réði sig á upplýsingatæknisvið Fjársýslu ríkisins árið 2005 en hefur verið framkvæmdastjóri Auðkennis frá árinu 2011. Auðkenni fagnar nú 25 ára afmæli sínu en á hópmynd má sjá starfsfólk Auðkennis.

Tímasetningin heima fyrir var þó nokkuð góð. Því aldamótaárið 2000 höfðu bankarnir stofnað Auðkenni, ásamt Kögun og sparisjóðum.

„Hugmyndin var að dreifa rafrænum skilríkjum á kortum og upplifunin var svolítið þannig að við værum að missa af lestinni á Íslandi, svo hröð væri tækniþróunin.“

Þegar netbólan sprakk kom auðvitað í ljós að Ísland var ekkert að missa af neinni lest frekar en aðrir.

„Árið 2005 fóru Samtök banka og verðbréfafyrirtækja (innskot: nú SFF) og fjármálaráðuneytið í það samstarf að þróa auðkennislausn fyrir íslenskan almenning. Ég var því kominn í fang ríkisins en enn í nýsköpun,“ segir Halli og útskýrir líka þörfina:

„Því peningarnir voru að flæða úr netbönkum til Austur-Evrópu. 

Þetta voru netglæpir sem þurfti að stoppa og auðkennislykillinn náði að gera það þegar fólk fór að nota hann um og upp úr árinu 2006. 

Enda hin fínasta lyklakippa.“

Enn átti þó eftir að finna einfaldari lausn.

„Sú hugmynd kom upp að fólk myndi auðkenna sig með debetkortum því bankarnir voru á þessum tíma að skipta þeim út fyrir nýjum þar sem örgjörvi var á nýju kortunum.“

Halli segir brekkuna í verkefninu hafi verið þó nokkra. Enda hægði á öllu í kjölfar þess að Geir H. Haarde blessaði Ísland 6. október 2008 og gömlu bankarnir fóru í þrot.

Á endanum tókst þó að endurnýja öll debetkort landans, með örgjörum sem þýddi að allir voru komnir með rafræn skilríki.

„Ábatinn af lausninni sem og flækjustigið af því að nota kort höfðu hins vegar þau áhrif að það sló ekki alveg í gegn eins og við vonuðumst eftir.“

Árið 2013 hófst síðan útgáfa rafrænna skilríka í síma og um átta árum síðar kom Auðkennisappið sem Haraldur segir í raun framtíðar meginleiðina.

„Auðkennisappinu var meðal annars ætlað að svara kalli Íslendinga erlendis, til dæmis námsmönnum, sem ekki voru með íslensk símanúmer og gátu því ekki verið með rafræn skilríki á SIM-kortum.“

Ekki er ólíklegt að Evrópubúar muni innan skamms fá evrópsk veski sem auðkennisleið. Í þessu veski verða þá alls kyns upplýsingar sem gilda á alþjóðavísu. Í slíku veski myndi íslenska rafræna ökuskírteinið til dæmis gilda annars staðar, ólíkt því sem nú er.Vísir/Anton Brink

Fá allir evrópskt veski?

Árið 2011 tók Haraldur við sem framkvæmdastjóri Auðkennis, en fyrir þann tíma hafði hann setið í stjórn félagsins.

Og það er auðheyrt að enn eru mörg spennandi verkefnin fram undan. Mögulega til dæmis það verkefni að Íslendingar – eins og aðrir Evrópubúar – fái evrópskt veski sem auðkennisleið.

„Þetta evrópska veski myndi þá innifela allar mögulegar upplýsingar sem fólk þarf. Ekki aðeins sem rafræn skilríki til að auðkenna sig, heldur líka ef þú þarft til dæmis að sýna upplýsingar úr heilbrigðiskerfinu, einhvers konar vottanir frá stjórnvöldum og fleira,“ segir Haraldur og bætir við:

„Til að setja þetta í samhengi má nefna íslenska rafræna ökuskírteinið sem hefur ekki nýst neins staðar nema á Íslandi. Þess lags skírteini og öll önnur persónuleg gögn yrðu hins vegar í þessu evrópska veski sem væri alþjóðlegt og því tekið gilt hjá öllum Evrópubúum alls staðar.“

Margar af þeim hugmyndum sem nú er hins vegar verið að tala um, eru ekki nýjar af nálinni.

„Ég man eftir því að hafa lagt til einhvers konar sambærilega lausn á ráðstefnu sem ég sótti erlendis fyrir fjármálaráðuneytið árið 2005. Allir voru með heyrnartól og ég bjóst við að eftir að ég skýrði út hugmyndina, myndi ég einfaldlega fá lófaklapp úr salnum,“ segir Haraldur og hlær.

Því auðvitað klappaði enginn.

Fjölskyldan skellti sér reyndar til New York þessa helgi þar sem vetrarfrí er í skólum. Fyrir utan Kolbrúnu Söru, sem er á fjórða ári í læknanámi og Halli segir framlag þeirra hjóna til heilbrigðiskerfisins.

Lífið er þó auðvitað ekki bara vinna. Enda er Halli þessa dagana staddur með fjölskyldunni í New York.

Að nýta vetrarfríið.

Halli og Hanna eiga þrjú börn:

„Kolbrún Sara sem er fædd árið 2002 og á fjórða ári í læknanámi. Hún er má segja okkar framlag til heilbrigðiskerfisins,“ segir Haraldur og brosir.

„Síðan eru það Guðmundur Ágúst sem heitir eftir afa sínum heitnum og er í menntaskóla og loks Jón Helgi, fæddur 2010 og því á sínu síðasta ári í grunnskóla.“

Sá sem heldur fjölskyldunni hins vegar við efnið heitir Brúnó.

„Hann er hress Tíbet Terrier sem heldur okkur við efnið og dregur okkur út.“

Ekki er ólíklegt að innan fárra ára geti Halli skellt sér í golf og sent persónulegan gervigreindarfulltrúa sinn á vinnufund á meðan. Þó með auðkenni sem hægt er að treysta og eins þarf hann að passa að persónulegi gervigreindarfulltrúinn vinni samkvæmt heimildum. En bjóði til dæmis ekki í partí heim til Halla að loknum fundi.Gervigreindin bjó til þessa myndaseríu

Aftur berst þó talið að Auðkenni og aldarfjórðungnum sem nú er liðinn frá stofnun félagsins. Svo margt sem hefur gerst síðan þá.

„Þróun er samt alltaf svo löngu á undan í undirbúning. Hjá Auðkenni var til dæmis verið að tala um rafræn skilríki fljótlega eftir aldamót þótt fólk færi ekki að heyra um þau fyrr en löngu síðar.“

Í auðkennismálum segir Haraldur málin líka snúast um fleiri atriði en tækniframfarir.

„Því í þessum efnum þarf líka að skoða lagalega umgjörð, staðlaða sem þarf þá að innleiða alls staðar og svo framvegis.“

Þá segir Haraldur að í senn þurfi að hlaupa hratt en líka að fylgjast með allri annarri þróun. Hvernig rafræn auðkenni þurfa að þróast í samræmi við aðrar framfarir og nýja tækni.

„Ímyndum okkur til dæmis að ég myndi auðkenna persónulega gervigreindarfulltrúann – þjarkann – sem myndi sitja fundinn á meðan ég færi í golf. Ef ég er ekki skýr með þær heimildir sem gervigreindarfulltrúinn hefur sem minn fulltrúi, geta alls kyns hlutir gerst,“ segir Haraldur og bætir við:

Fulltrúinn minn gæti til dæmis sagt í lok fundar: 

Jæja, við klárum þetta með góðu partíi heima hjá mér í kvöld. 

Og hvað gerist þá? 

Ég mæti heim til mín eftir golfið og mæti þá fullu húsi af fólki sem gervigreindin hafði enga heimild til að bjóða heim til mín.“


Tengdar fréttir

Ólafur Ingi: „Ég er kostuð eiginkona“

„Það er gott að eiga góða konu til dæmis,“ segir Ólafur Ingi Ólafsson sem þrátt fyrir fullan skilning á ritstjórnarvaldi blaðamannsins, getur ekki setið á sér að stinga upp á nokkrum góðum fyrirsögnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×