Handbolti

Fjölga stór­mótum lands­liða í hand­boltanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslensku landsliðsmennirnir þurfa að koma íslenska landsliðinu meðal átta bestu þjóða Evrópu ef þeir ætla að vera með á nýja stórmótinu.
Íslensku landsliðsmennirnir þurfa að koma íslenska landsliðinu meðal átta bestu þjóða Evrópu ef þeir ætla að vera með á nýja stórmótinu. Vísir/Vilhelm

Á tímum þegar flestum þykir löngu kominn tími til að fækka stórmótum í handbolta og minnka álagið á besta handboltafólk heims þá fer evrópska handboltasambandið í þveröfuga hátt.

HM og EM fara fram á tveggja ára fresti og svo bætast Ólympíuleikar við á fjögurra ára fresti. Nú munu Evrópuleikar landsliða bætast við.

Átta bestu landslið Evrópu munu taka þátt í Evrópuleikum landsliða í handbolta frá og með árinu 2030. EHF gaf þetta út í dag.

Átta bestu evrópsku landsliðin á hverjum tíma munu taka þátt í þessu nýja stórmóti.

Liðið sem stendur sig best í mótinu verður verðlaunað með sæti á næsta Ólympíumóti sem árið 2032. Markmiðið er að mótið verði skipulagt í haust og að það verði síðan í framhaldinu hluti af landsliðsgluggunum.

„Ólympíuleikarnir verða í Los Angeles árið 2028 sem og Brisbane árið 2032. Þeir verða haldnir utan Evrópu. Með tilkomu „Evrópuleikanna í handbolta“ tryggir Evrópska handboltasambandið að handbolti á ólympísku gæðastigi verði einnig spilaður í Evrópu í þessari lotu. Rétt eins og með félagsmótin viljum við einnig taka næsta skref fyrir landsliðið. Næsta stig. Sérhver leikur – þetta er mottó okkar,“ sagði Michael Wiederer, forseti EHF.

„Evrópuleikarnir í handbolta verða haldnir á fjögurra ára fresti, helst í september og sem hluti af landsliðsviku. Þetta verður þó samræmt við hagsmunaaðila og ferlið í þeim efnum er þegar hafið, byrjað með fundunum sem fóru fram á mánudag og þriðjudag í þessari viku í Vín,“ bætti Wiederer við.

Til að ryðja brautina fyrir Evrópuleikana í handbolta þá þarf að koma á öðru sniði fyrir undankeppni heimsmeistaramótsins í handbolta. Sú undankeppni fer fram undir verndarvæng EHF, eins og gildir um öll önnur álfusambönd.

EHF segir að allir áhugasamir muni hafa fá sitt tækifæri til að segja sitt álit á þessum nýju Evrópuleikum áður en allt verður endanlega ákveðið.

„Nánari upplýsingar verða unnar og síðan tilkynntar sem hluti af næsta fundi framkvæmdastjórnar EHF í desember á þessu ári,“ segir á síðu EHF.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×