Skoðun

Kvennabarátta á tímum bakslags

Tatjana Latinovic skrifar

Konur á Íslandi lögðu niður störf 24. október 1975, settu samfélagið á hliðina og sameinuðust á útifundi á Lækjartorgi þar sem þær kröfðust kvenfrelsis og kjarajafnréttis. Fimmtíu ár eru liðin frá þessum tímamótafundi, og síðan þá höfum við náð langt (en alls ekki nógu langt) í að skapa samfélag þar sem jafnrétti kynjanna er í heiðrum haft.

Í dag blása kaldir vindar beggja vegna Atlantshafsins í átt að ströndum okkar, heiftarlegt bakslag í mannréttindum og kvenréttindum, og bera með sér pólitíska strauma sem íslenskt samfélag ætti ekki að kæra sig um að þrífist hér.

Bakslag í kvenréttindum á Íslandi og á heimsvísu

Sumum kann að finnast að jafnrétti á Íslandi hafi verið náð en það er tálsýn. Vissulega njótum við góðs af þrotlausri og aldalangri baráttu kvenna fyrir betri heimi, og heimurinn hefur batnað, en stórir hópar samfélagsins eru enn jaðarsettir.

Margt fólk í samfélaginu nýtur ekki góðs af árangri jafnréttisbaráttunar, þrátt fyrir að hafa svo sannarlega tekið þátt í henni í gegnum árin. Bakslagið bitnar fyrst og mest á konum af erlendum uppruna, hinsegin konum, fötluðum konum og láglaunakonum. Kynjamisrétti gengur á heilsu og velferð kvenna, launamunur kynjanna er enn til staðar og faraldur kynbundins ofbeldis geisar ennþá í samfélaginu.

Ungt fólk upplifir sig berskjaldað og er að kljást við allt aðrar ógnir en við sem eldri erum. Við skuldum yngri kynslóðum að á þær sé hlustað og að þær njóti meiri jafnréttis og lífsgæða en formæður þeirra. Ábyrgðin er okkar allra, alls samfélags, en stjórnvöld verða að tryggja að traust ungs fólks á stofnunum samfélagsins minnki ekki á tímum upplýsingaóreiðu og sjálfskipaðra áhrifavalda með vafasamar skoðanir.

Stjórnvöld á Íslandi þurfa að gera betur

Fyrir tveimur árum, 24. október 2023, safnaðist fjórðungur þjóðarinnar saman á baráttufundum á 20 stöðum um allt land og krafðist breytinga. Lesnar voru upp kröfur Kvennaverkfallsins og þær sendar á stjórnvöld. Krafist var leiðréttingar á vanmati kvennastarfa, að launamisrétti og mismunun verði útrýmt, sem og kynbundnu ofbeldi. Krafist var að stjórnvöld gerðu kröfur Kvennaverkfalls að forgangsmáli.

Í dag hafa stjórnvöld enn ekki orðið við þessum kröfum. 50 árum eftir kvennafrídaginn 1975, eru augun heimsins aftur á Íslandi og landinu enn og aftur hampað sem jafnréttisparadís. Og vissulega erum við jafnréttisparadís þegar við berum okkur saman við flest önnur ríki í heiminum, en við sem búum hér vitum betur. Jafnrétti kynjanna er ekki náð og þrátt fyrir fögur loforð stjórnmálafólks í kosningabaráttu er skortur á raunverulegri fjárfestingu og áþreifanlegum framförum í jafnréttismálum.

Í ljósi þess bakslags í jafnréttis- og mannréttindamálum á heimsvísu, er það skýlaus krafa okkar í Kvenréttindafélagi Íslands að íslensk stjórnvöld, íslenskt atvinnulíf og íslenskt samfélag sameinist um að tryggja kvenréttindi og mannréttindi hér á landi og séu sterkir málsvarar jafnréttis á alþjóðavettvangi.

Höfundur er formaður Kvenréttindafélags Íslands




Skoðun

Sjá meira


×