Innlent

Starfs­leyfi skot­vallar á Álfs­nesi enn á ný fellt úr gildi

Kjartan Kjartansson skrifar
Skotíþróttamenn hafa lengi stundað æfingar á æfingasvæðinu við Álfsnes.
Skotíþróttamenn hafa lengi stundað æfingar á æfingasvæðinu við Álfsnes. AÐSEND/GUÐMUNDUR GÍSLASON

Úrskurðarnefnd hefur fellt úr gildi ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur að samþykkja starfsleyfi fyrir skotvelli á Álfsnesi sem lengi hefur verið deilt um. Heilbrigðiseftirlitið er sagt hafa átt að krefjast þess að hljóðmælingar færu fram á vellinum áður en það tók afstöðu til leyfisins.

Heilbrigðiseftirlitið samþykkti að veita Skotveiðifélagi Reykjavíkur og nágrennis starfsleyfi fyrir skotvellinum á Álfsnesi í febrúar. Skotvöllur hefur verið rekinn þar í á annan áratug. Því vildu nokkrir nágrannar svæðisins ekki una og kærðu leyfiveitinguna til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Kærendurnir voru fyrst og fremst ósáttir við hávaða frá skotæfingunum. Eigendur Stekks, handan Kollafjarðar ofan Vesturlandsvegar, sögðust þannig ekki geta notið þess er vera á eða utan við heimili sitt á meðan æfingum stæði vegna bergmáls frá Esjuklettum.

Þetta er fjarri því í fyrsta skipti sem skotsvæðið kemur til kasta úrskurðarnefndarinnar. Hún felldi í þrígang úr gildi ákvarðanir heilbrigðisyfirvalda í Reykjavík um starfsleyfi svæðiðins frá 2020 til 2023 á þeim forsendum að starfsemin þar samræmdist ekki gildandi landnotkun aðalskipulags. Heilbrigðiseftirlitið stöðvaði starfsemina vegna þess fyrir tveimur árum.

Skotsvæðið var skilgreint sem íþróttasvæði í aðalskipulagi í fyrra og var þá veitt heimild til þess að endurnýja starfsleyfi fyrir starfseminni þar allt til loka árs 2028. Í kjölfarið sótti skotveiðifélagið um leyfi til að halda starfseminni áfram sem heilbrigðiseftirlitið féllst á í febrúar.

Ákvörðunin ekki nógu vel undirbúin

Kærendurnir byggðu mál sitt meðal annars á því að þó að borgaryfirvöld hefðu búið til heimild til að endurnýja starfsleyfi skotfélaganna með aðalskipulagi til 20240 í fyrra. Það hafi hins vegar ekki falið í sér útgáfu nýrra starfsleyfa. Í ljósi þess að eldri leyfi skotveiðifélaganna hefðu verið fallin úr gildi og endurnýjun á þeim síðan felld úr gildi hjá úrskurðarnefndinni þá væri ekki um endurnýjun leyfis að ræða nú.

Kröfðust nágrannarnir þess að frekari rannsóknir væru gerðar á hávaða frá skotsvæðinu til að fá raunsanna mynd af honum. Þær mælingar sem hefðu verið gerðar til þessa væru ekki fullnægjandi þar sem heilbrigðiseftirlitið hefi aðeins mælt hávaða á völdum stöðum. Fleiri en tuttugu brautir væru á skotsvæðinu og ekki væri nóg að velja tvær af handahófi.

Úrskurðarnefndin taldi að rétt hefði verið af heilbrigðiseftirlitinu að krefjast þess að hljóðmælingar færu fram frá starfsemi skotvallarins áður en hún tók endanlega afstöðu til starfsleyfisins. Sérstakt tilefni hefði verið til þess þar sem gert var ráð fyrir því í aðalskipulagi að eftirlitið gerði hávaðamælingar við undirbúning starfsleyfa.

Af þessari ástæðu taldi nefndin undirbúning ákvörðunar heilbrigðiseftirlitsins um starfsleyfi skotvallarins ekki fullnægjandi. Því yrði ekki hjá því komist að fella ákvörðunina um það úr gildi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×