Skoðun

Bætum lífs­gæði þeirra sem lifa með krabba­meini

Sigríður Gunnarsdóttir skrifar

Það fer kannski ekki mikið fyrir Bleiku slaufunni þegar við nælum hana í okkur í byrjun október, en merkingu hennar þekkja flestir, ef ekki allir. Hún táknar samstöðu okkar með konum sem greinst hafa með krabbamein, minnir okkur á allt sem unnist hefur og hvetur okkur til að gera enn betur. Hún er í senn umhyggja, framfarir og von.

Á ári hverju greinast 997 konur með krabbamein á Íslandi og langflestar, eða 272, greinast með brjóstakrabbamein. Í árslok 2024 voru yfir 4.000 konur á lífi sem fengið höfðu þá greiningu. Árangur í snemmgreiningu og meðferð hefur stuðlað að því að nú er 5 ára hlutfallsleg lifun um 92% sem er á pari við það sem þekkist í nágrannalöndum okkar.

Þrátt fyrir að tölur um hlutfallslega lifun séu jákvæðar má ekki gleyma að myndin sem býr að baki er flóknari. Margar konur lifa með ólæknanlegu brjóstakrabbameini og þurfa á endurteknum meðferðum að halda. Tiltölulega lítið er vitað um stöðu þessara kvenna hér á landi, en mikilvægt skref í að auka skilning og stuðning við þær er að kanna langvinn og síðbúin áhrif krabbameins og meðferðar.

Krabbameinsfélag Íslands stendur nú ásamt Landspítala og Háskóla Íslands fyrir stórri rannsókn á lífsgæðum og langvinnum og síðbúnum áhrifum krabbameins hjá öllum sem greindust með krabbamein á árunum 2014-2024. Rannsóknin nær til allra tegunda krabbameina og bæði til einstaklinga sem hafa lokið meðferð og þeirra sem enn eru í meðferð, auk einstaklinga sem ekki hafa fengið krabbamein til samanburðar.

Það er óhætt að segja að viðtökur hafi verið góðar en í gagnasöfnun sem er nú nýlokið fór svarhlutfall fram úr björtustu vonum, sem eykur gæði niðurstaðnanna. Hæst var svarhlutfallið hjá þeim sem hafa greinst með brjóstakrabbamein, en um 65% þeirra tóku þátt í rannsókninni. Þátttaka þeirra mun gera okkur kleift að fá góða mynd af lífsgæðum þessara kvenna í samanburði við almenning. Úrvinnsla úr svörum er hafin og verða fyrstu niðurstöður birtar á næstu mánuðum.

Við hjá Krabbameinsfélaginu þökkum þátttökuna í þessari tímamótarannsókn sem mun vísa okkur veginn áfram, auka skilning okkar á reynslu þeirra sem takast á við sjúkdóminn og stuðla að uppbyggingu á þjónustu sem getur bætt lífsgæði þeirra.

Bleika slaufan heiðrar þær sem að tekist hafa á við krabbamein og nú í ár sérstaklega þær sem lifa með ólæknandi sjúkdómi. En hún er meira en það. Með kaupum á Bleiku slaufunni gerir þú Krabbameinsfélaginu mögulegt að gera rannsókn eins og þessa því allt starf Krabbameinsfélagsins, forvarnir, stuðningur og rannsóknir, er rekið fyrir stuðning almennings og fyrirtækja í landinu. Með því að bera Bleiku slaufuna sýnir þú samstöðu og gerir þitt til að auðvelda konum listina að lifa með krabbameini.

Höfundur er forstöðumaður Rannsóknaseturs – Krabbameinsskrár Krabbameinsfélagsins.




Skoðun

Sjá meira


×