Handbolti

Hafa unnið 31 af síðustu 33 leikjum í deild og Meistara­deild

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon skorar eitt fimm marka sinna gegn Pick Szeged í gær.
Ómar Ingi Magnússon skorar eitt fimm marka sinna gegn Pick Szeged í gær. epa/Robert Hegedus

Íslendingalið Magdeburg hefur unnið ellefu af síðustu tólf leikjum sínum í Meistaradeild Evrópu í handbolta.

Magdeburg, sem landsliðsmennirnir Gísli Þorgeir Kristjánsson, Ómar Ingi Magnússon og Elvar Örn Jónsson leika með, gerði góða ferð til Ungverjalands og vann fjögurra marka sigur á Pick Szeged, 30-34, í Meistaradeildinni í gær.

Magdeburg hefur unnið alla fimm leiki sína í B-riðli Meistaradeildarinnar á tímabilinu. Liðið vann keppnina á síðasta tímabili og hefur unnið átta leiki í röð í henni. 

Í síðustu tólf leikjum sínum í keppninni hefur Magdeburg unnið ellefu og gert eitt jafntefli, gegn Veszprém, 26-26, í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum á síðasta tímabili.

Síðasta tap Magdeburg í Meistaradeildinni kom gegn Kolstad í Noregi, 31-27, 27. febrúar.

Magdeburg hefur unnið Meistaradeild Evrópu tvisvar sinnum á síðustu þremur árum.epa/Christopher Neundorf

Síðan þá hefur Magdeburg unnið Pick Szeged (tvisvar sinnum), Barcelona (tvisvar sinnum), Dinamo Búkarest (tvisvar sinnum), Paris Saint-Germain, Veszprém, Füchse Berlin, Wisla Plock og GOG.

Magdeburg hefur unnið sex af fyrstu sjö leikjum sínum í þýsku úrvalsdeildinni og gert eitt jafntefli. Liðið vann síðustu fjórtán deildarleiki sína á síðasta tímabili og er því ósigrað í 21 leik í þýsku úrvalsdeildinni í röð.

Í síðustu 33 leikjum í þýsku úrvalsdeildinni og Meistaradeildinni hefur Magdeburg því unnið 31 leik og gert tvö jafntefli.

Eina tap Magdeburg á tímabilinu kom gegn Veszprém í undanúrslitum HM félagsliða, 23-20, 30. september.

Ómar Ingi er markahæsti leikmaður þýsku úrvalsdeildarinnar með 71 mark. Þá er hann fjórði markahæstur í Meistaradeildinni með 39 mörk.

Elvar Örn Jónsson reynir að brjótast í gegnum Pick Szeged. Hann kom til Magdeburg frá Melsungen í sumar.epa/Robert Hegedus

Gísli hefur skorað 28 mörk í þýsku deildinni og átján í Meistaradeildinni og Elvar, sem er á sínu fyrsta tímabili hjá Magdeburg, er með átján mörk í þýsku deildinni og fjögur í Meistaradeildinni.

Næsti leikur Magdeburg er gegn Blæ Hinrikssyni og félögum í Leipzig í þýsku úrvalsdeildinni á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×