Handbolti

„Mér finnst þetta bara ömur­legt“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Katrín Anna skorar eitt af fjórum mörkum síinum í kvöld
Katrín Anna skorar eitt af fjórum mörkum síinum í kvöld Vísir/Anton

Katrín Anna Ásmundsdóttir var á meðal fárra í íslenska landsliðinu sem átti ágætan dag í slæmu tapi fyrir Færeyjum í undankeppni EM 2026 í Úlfarsárdal. Hún var ósátt eftir leik.

„Mér finnst þetta bara ömurlegt og þetta er ekki það sem við ætluðum okkur. Það vantar að slútta betur skotunum okkar, þær verja alltof mikið. Of mikið framhjá og eitthvað svona rugl,“ segir Katrín sem var eðlilega ósátt eftir úrslit kvöldsins.

Íslenska liðinu gekk illa að finna lausnir sóknarlega þegar árásir á vörnina voru stöðvaðar ítrekað. Færeyska vörnin var þétt, vann vel saman sem gerði að verkum að íslenska liðið skoraði aðeins 22 mörk og tapaði boltanum 13 sinnum.

„Þær eru mjög þéttar og með góðar lausnir. Elínarnar báðar áttu erfitt með að komast í gegn, eins góðar og þær eru. Þær leystu allt vel og við náðum ekki að bregðast við,“ segir Katrín.

Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari, sagði leikmenn hafa tapað of oft stöðunni einn á einn, beggja megin vallar. Hvað veldur?

„Það vantaði meiri fæting. Að klára sitt og ekki treysta á að hjálpin komi alltaf. Við þurfum að klára okkar mann og gera það betur,“ segir Katrín sem segir ljóst að laga þurfi grundvallaratriði fyrir næsta leik við Portúgal ytra á sunnudag.

„Við þurfum að láta boltann svolítið flæða og fá opnanir þannig. Og að þétta vörnina.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×