Innlent

Enginn slasaðist al­var­lega þegar rútu hvolfdi á Snæ­fells­nesi

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Slysið varð í Seljafirði.
Slysið varð í Seljafirði. Grafík/Sara

Tveir farþegar í rútu sem valt í Seljafirði á norðanverðu Snæfellsnesi á sjötta tímanum í dag voru fluttir með þyrlu á Landspítalann í Reykjavík. Átta voru fluttir á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi. Enginn er talinn alvarlega slasaður.

Alls voru 42 erlendir ferðamenn auk fararstjóra og bílstjóra um borð í rútunni sem hvolfdi að sögn Ásmundar Kristins Ásmundssonar, yfirlögregluþjóns á Vesturlandi. Hópslysaáætlun og samhæfingarmiðstöð Almannavarna voru virkjaðar vegna slyssins en betur fór en á horfðist.

Ásmundur segir engan talinn alvarlega slasaðan og allir hafi verið við meðvitund. Aðrir farþegar hafi verið fluttir í fjöldahjálparstöð sem var opnuð á Grundarfirði. Lögreglan á Vesturlandi rannsaki slysið og þá geri Rannsóknarnefnd samgönguslysa sömuleiðis úttekt á orsökum slyssins.

Guðmundur Birkir Agnarsson, deildarstjóri siglingaöryggis- og sjómælingadeildar Landhelgisgæslu Íslands, segir að auk þyrlu Gæslunnar hafi varðskipið Þór siglt frá Breiðafirði og á Grundarfjörð. Það sé hlutverk Gæslunnar að senda bæði þyrlu og varðskip sé það nálægt slysstað. Þá voru björgunarsveitir ræstar út auk lögreglu, slökkviliðs og sjúkraliðs.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×