Innlent

Grunaður um að hafa brotið á fleiri en tíu börnum

Kolbeinn Tumi Daðason og Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifa
Leikskólinn Múlaborg er í Ármúla.
Leikskólinn Múlaborg er í Ármúla. Vísir/Anton Brink

Starfsmaður á leikskólanum Múlaborg í Reykjavík er grunaður um að hafa brotið á fleiri en tíu börnum. Hann hefur sætt gæsluvarðhaldi síðan um miðjan ágúst.

RÚV greindi fyrst frá en Bylgja Hrönn Baldursdóttir, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglu, staðfestir í samtali við Vísi að grunur sé uppi um brot á yfir tíu börnum.

Þá greinir RÚV frá því að meint kynferðisbrot á öðrum leikskóla í borginni sé til rannsóknar. Starfsmaður þar hafi verið handtekinn en sleppt að lokinni yfirheyrslu. Bylgja Hrönn segir í samtali við Vísi að ekki hafi verið talið tilefni til að fara fram á gæsluvarðhald yfir manninum. Rannsókn málsins sé á viðkvæmu stigi. 

Starfsmaður Múlaborg hefur sætt varðhaldi frá handtöku þann 12. ágúst. Málið kom upp þegar barn á leikskólanum sem varð fyrir meintu kynferðisbroti, greindi foreldrum sínum sjálft frá atvikinu. Starfsmaðurinn er á þrítugsaldri.

Samkvæmt lögum um meðferð sakamála er hámarkstími gæsluvarðhalds tólf vikur, nema mál hafi verið höfðað gegn sakborningi eða brýnir rannsóknarhagsmunir krefjist þess.


Tengdar fréttir

Leiðbeinandinn á Múlaborg í gæsluvarðhaldi í mánuð í viðbót

Leiðbeinandi á leikskólanum Múlaborg, sem grunaður er um kynferðisbrot gegn barni, hefur verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til 21. október næstkomandi, á grundvelli almannahagsmuna. Þá mun hann hafa mátt dúsa í varðhaldi í tíu vikur.

Framlengja gæsluvarðhald yfir leiðbeinandanum um fjórar vikur

Gæsluvarðhaldið yfir leiðbeinandanum á Múlaborg sem grunaður er um kynferðisbrot í starfi hefur verið framlengt um fjórar vikur, til 24. september, á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Grunur um brot gegn fleiri börnum

Foreldri annars barns á leikskólanum Múlaborg hefur tilkynnt grun um kynferðisbrot gegn barni sínu til lögreglu. Þetta herma heimildir fréttastofu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×