Skoðun

Dýrin skilin eftir í náttúruvá

Linda Karen Gunnarsdóttir skrifar

Í lögum um almannavarnir fer verðmætabjörgun á hættusvæði út frá forgangsröðun á verðmætum eigna. Í lögunum eru dýr ekki skilgreind sérstaklega heldur teljast þau til verðmæta. Dýr hafa því ítrekað verið skilin eftir á hættusvæðum í viðbragði almannavarna á meðan dauðum hlutum hefur verið forðað sem er óásættanlegt og ekki í samræmi við lög um velferð dýra.

Gæludýr og búfénaður skilinn eftir

Þegar eldgos hófst norðan við Grindavík í nóvember 2023 varð mikill fjöldi dýra eftir við rýmingu og aftur þegar gos hófst á svæðinu í janúar og maí 2024. Björgun dýra var ekki í forgangi þegar fólki hafði verið komið í öruggt skjól heldur björgun dauðra hluta. Þurfti samhent átak fjölda dýraverndarsamtaka að þrýsta á yfirvöld að koma dýrunum, bæði gæludýrum og búfénaði, til bjargar. Samtökin komu einnig að skipulagningu björgunar þar sem mikið skorti upp á verkferla.

Hross skilin eftir í dauðagildru í Neskaupsstað

Í Neskaupstað standa hesthús á svæði þar sem þekkt er að snjóflóðahætta geti verið mikil. Í mars 2023 voru hross skilin eftir í hesthúsi innan rýmingarsvæðis og voru þau þar í sjálfheldu án fóðurs í tvo daga. Í janúar á þessu ári voru hross skilin eftir í hesthúsi í Neskaupstað við rýmingu vegna snjóflóðahættu, en nægur tími hafði gefist til að flytja þau burt. Samkvæmt heimildum Dýraverndarsambandsins féll snjóflóð sem stöðvaðist skammt ofan við hesthúsin, bæði í mars 2023 og í janúar á þessu ári. Ljóst er að þessi hross voru í mikilli hættu.

Ekki í samræmi við dýravelferðarlög

Dýr eru skyni gæddar verur sem eiga að hafa vernd frá þjáningu samkvæmt lögum um velferð dýra og gildir hjálparskylda þegar vart verður við að dýr sé sjúkt, sært, í sjálfheldu eða sé bjargarlaust.

Við setningu nýrra dýravelferðarlaga árið 2013 voru engar breytingar gerðar á lögum um almannavarnir, en þau viðbrögð yfirvalda að bjarga dauðum hlutum á undan dýrum í náttúruvá er ekki í samræmi við dýravelferðarlög.

Nú er unnið að heildarendurskoðun laga um almannavarnir og hefur Dýraverndarsambandið kallað eftir nauðsynlegum breytingum á lögunum svo staða dýra verði bætt í almannavarnaástandi. Brýnt er dýr verði skilgreind sérstaklega í lögum um almannavarnir og að skýrir verkferlar séu fyrir hendi um björgun þeirra í náttúruvá.

Höfundur er formaður Dýraverndarsambands Íslands.




Skoðun

Sjá meira


×