Innlent

Sund­laugar borgarinnar verði bættar fyrir ung­barna­fjöl­skyldur

Atli Ísleifsson skrifar
Laugardalslaug er ein af átta sundlaugum Reykjavíkurborgar.
Laugardalslaug er ein af átta sundlaugum Reykjavíkurborgar. Vísir/Vilhelm

Menningar- og íþróttaráð Reykjavíkurborgar hefur samþykkt að skipa sérstakan spretthóp til að móta tillögur hvernig megi bæta aðstöðu, búnað og umhverfi fyrir ung börn og fjölskyldur þeirra í sundlaugum borgarinnar.

Þetta var ákveðið á fundi ráðsins síðastliðinn föstudag. Forstöðumenn sundlauga munu skipa spretthópinn sem taki til starfa þegar til starfa og á að skila endanlegum niðurstöðum fyrir 1. desember næstkomandi.

Í greinargerð í samstarfssáttmála meirihlutaflokkanna í borgarstjórn er að finna ákvæði um að skoða bætta aðstöðu ungra barna og fjölskyldna þeirra í sundlaugum borgarinnar.

„Sundlaugar borgarinnar eru átta talsins: Laugardalslaug, Vesturbæjarlaug, Grafarvogslaug, Breiðholtslaug, Klébergslaug, Árbæjarlaug, Sundhöllin og Dalslaug. Þær hafa allar að geyma sérstaka aðstöðu fyrir börn og fjölskyldur þeirra en mikilvægt er að rýna hvaða tækifæri eru til úrbóta í þeim efnum, varðandi m.a. aðbúnað, leiktæki, þjónustustig og umhverfi,“ segir í tillögunni.

Fram kemur að þjónustustefna Reykjavíkurborgar verði leiðarljósið í vinnunni og að stuðst verði við aðferðafræði þjónustuhönnunar og samráð haft við ungbarnafjölskyldur eftir föngum.

„Nú þegar er til mikið af umbótahugmyndum og í forsögn að endurbótum á útisvæði Laugardalslaugar var víðtækt samráð haft við mismunandi hópa gesta sem m.a. lúta að bættri aðstöðu ungra barna og fjölskyldna þeirra sem nýta má í þessari vinnu,“ segir í tillögunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×