Enski boltinn

Hve­nær fær Lammens sénsinn hjá Man. Utd?

Sindri Sverrisson skrifar
Senne Lammens hefur verið á varamannabekknum eftir komuna til Manchester United.
Senne Lammens hefur verið á varamannabekknum eftir komuna til Manchester United. Getty/Jan Kruger

Þó að liðnar séu rúmar þrjár vikur síðan belgíski markvörðurinn Senne Lammens gekk í raðir Manchester United, á lokadegi félagaskiptagluggans, bíður hann enn eftir fyrsta tækifærinu til að sýna sig og sanna í búningi félagsins.

BBC veltir upp þeirri spurningu í grein í dag hvenær Lammens fái eiginlega að spila sinn fyrsta leik fyrir United. Ljóst er að ef það á ekki að vera í ensku úrvalsdeildinni mun Lammens þurfa að bíða þar til í bikarkeppninni í janúar, þar sem United er dottið úr leik í deildabikarnum og komst ekki í neina Evrópukeppni.

Þessi 23 ára leikmaður, sem varði mark U21-landsliðs Belgíu og hefur verið valinn í A-landsliðshóp á þessu ári, var keyptur frá Antwerpen fyrir 18,1 milljón punda. Í kjölfarið var André Onana lánaður til Trabzonspor í Tyrklandi en það dugði þó ekki til að opna dyrnar fyrir Lammens inn í byrjunarlið United alveg strax.

Tyrkinn Altay Bayindir hefur haldið áfram að verja mark United, eða reyna það, í 3-0 tapinu gegn Manchester City og svo 2-1 sigrinum gegn Chelsea þar sem eina tilraun Chelsea á rammann var óverjandi skalli Trevoh Chalobah.

Altay Bayindir hefur gert slæm mistök í leikjum gegn Arsenal og Burnley í byrjun tímabilsins en haldið sæti sínu í marki United.Getty/Jan Kruger

Ekki gert neitt rangt og litið vel út á æfingum

BBC hefur eftir heimildum sínum að ljóst sé að Lammens hafi ekki gert neitt rangt hingað til. Hann hafi litið vel út á æfingum og almenn ánægja sé með hann.

Lammens er lýst sem yfirveguðum og þroskuðum manni sem virðist ætla að verða fljótur að aðlagast lífinu í Manchester og hefur þegar komist í sitt eigið húsnæði í stað þess að búa á hóteli.

Tölfræðin sem hann bauð upp á síðasta vetur, á sínu eina heila tímabili í belgísku úrvalsdeildinni, var stórkostleg en samkvæmt BBC hélt hann sjö sinnum hreinu í 30 leikjum, varði 173 skot eða 20 fleiri en nokkur markvörður í 10 bestu deildum Evrópu, og fjögur víti. Samkvæmt Opta varði hann 77,4% skota og átti 71,5% heppnaðar sendingar.

„Senne er ungur og með stóran ramma. Hann mun passa fullkomlega í enska boltann,“ sagði Toby Alderweireld, fyrrverandi leikmaður Tottenham og belgíska landsliðsins.

Senne Lammens átti frábæra leiktíð með Antwerpen síðasta vetur en það var hans fyrsta heila tímabil í efstu deild.Getty/Joris Verwijst

Engu að síður bíður Lammens eftir sínu tækifæri. Það kom ekki gegn City og ekki gegn Chelsea en nú taka við tveir leikir gegn lægra skrifuðum mótherjum, fyrir næsta landsleikjahlé. United mætir Brentford í hádeginu á laugardaginn og svo Sunderland eftir rúma viku.

Ef að Rúben Amorim heldur sig við að tefla Bayindir fram vonast hann eflaust eftir bættri tölfræði hjá Tyrkjanum sem er aðeins í 16. sæti í deildinni yfir hlutfallslega markvörslu, með 50%, í 17. sæti yfir heppnaðar sendingar og í 18. sæti yfir langar, heppnaðar sendingar.

Hvetur fólk til að gefa Lammens tíma

Norður-Írinn Roy Carroll, fyrrverandi markvörður United, varar hins vegar United-fólk við því að ætlast til of mikils af Lammens sem lék fyrir framan 6.456 áhorfendur í síðasta leik sínum fyrir Antwerpen.

„Hann er bara 23 ára svo viljið þið vinsamlegast gefa honum tíma til að þróast sem markvörður Manchester United. Við gerðum það með David de Gea þegar hann kom. Hann var mjög ungur markvörður og hafði líka heillað mikið þegar hann kom til Manchester United. Tími er dýrmætur en við verðum að veita hann. Það gera allir markmenn mistök, lykilatriðið er að gera ekki of mörg,“ sagði Carroll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×