Handbolti

Mættur heim í Hauka eftir erfið ár í Frakk­landi

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Andri Már Ólafsson formaður handknattleiksdeildar Hauka og Darri Aronsson handsala samninginn.
Andri Már Ólafsson formaður handknattleiksdeildar Hauka og Darri Aronsson handsala samninginn.

Darri Aronsson er snúinn aftur heim í Hauka eftir þrjú ár í Frakklandi án þess að spila leik. Hann er loks farinn að æfa á ný og stefnir á að spila með liðinu í Olís deild karla í vetur.

„Það hefur verið langt og krefjandi ferðalag, en ég er þakklátur fyrir að vera kominn aftur á gólfið og hlakka til að taka af alvöru þátt í æfingum með strákunum,“ segir Darri í tilkynningu Hauka.

Samningur Darra við lið Ivry í París rann út í sumar en hann gekk í raðir liðsins haustið 2022. Hann kom þá meiddur út til liðsins, álagsbrot í rist gerði vart við sig. En þegar samningur hans þar ytra rann út nú í vor hafði hann ekki enn spilað fyrir franska félagið, vegna ítrekaðra meiðsla sem hafa elt hann á röndum síðan.

Darri hafði leikið með Haukum allan sinn meistaraflokksferil áður en hann fór út. Hann varð deildarmeistari með Haukum tímabilið 2020-21 og fór í úrslitaeinvígi um Íslandsmeistaratitilinn. Á sínu síðasta tímabili í Olís deildinni var hann þriðji markahæsti leikmaður deildarinnar.

Hjá Haukum hittir hann yngri bræður sína, Jakob og Frey Aronssyni.

Þeir eiga hæfileikana ekki langt að sækja en foreldrar þeirra eru Aron Kristjánsson og Hulda Bjarnadóttir, fyrrverandi landsliðsfólk í handbolta líkt og fleiri skyldmenni þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×