Skoðun

Seðla­banka­stjóri rann­sakar sjálfan sig

Einar Steingrímsson skrifar

Konan K stýrir fjárfestingasjóði. Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með starfsemi slíkra sjóða, meðal annars til að minnka líkur á markaðsmisnotkun, svo sem misnotkun innherjaupplýsinga. Fjármálaeftirlitið heyrir undir Seðlabankann. Æðsti yfirmaður bankans er bankastjórinn. Bankastjórinn er unnusti konunnar K.

Innan seðlabankans var talin ástæða til að taka til "umfjöllunar og skoðunar" hvort yfirmenn og aðrir starfsmenn bankans væru hæfir til að sinna þessu eftirliti, og alveg sérstaklega hvort um hugsanlegan hagsmunaárekstur gæti verið að ræða í tilfelli bankastjórans og unnustu hans, enda bankastjórinn með ýmsar trúnaðarupplýsingar sem gætu gagnast unnustunni. Niðurstaðan var að ekki væri ástæða til að hafa neinar áhyggjur, því "Engar vísbendingar eru um að sá trúnaður hafi verið rofinn ..."

Það er svo sem ekkert nýtt að jafnvel æðsta valdafólk á Íslandi skilji ekki hvað hagsmunaárekstur er, en slíkur árekstur er sjálfkrafa til staðar í þessu tilfell. Enda merkir hagsmunaárekstur ekki að brot hafi verið framið, heldur að hætta sé á að ákvarðanir séu teknar á hlutdrægan hátt, til dæmis vegna náinna tengsla þess sem ákvörðun tekur og þess sem ákvörðunin hefur áhrif á.

En hér er á ferðinni ennþá alvarlegra mál en bara hagsmunaárekstur sem fólk í stjórnvaldsstöðum þarf alltaf að forðast. Það er beinlínis skýrt í 3. grein stjórnsýslulaga, sem fjallar um vanhæfisástæður, að starfsmenn Seðlabankans eru formlega vanhæfir til að rannsaka mál sem tengjast bankastjóranum. Enda eiga þeir starf sitt undir honum.

Það er forsætisráðherra sem skipar seðlabankastjóra, og ber að víkja honum verði hann uppvís að brotum í starfi. Það er því líka forsætisráðherra sem þarf að taka á þessu máli, sem augljóslega er ástæða til að rannsaka, eins og eftirlitsaðilar Seðlabankans töldu greinilega sjálfir, þótt þeim hafi yfirsést vanhæfi sitt í þeim efnum.

Það er auðvitað spurning hvort bankastjórinn ætti ekki að segja af sér einfaldlega vegna þess að staðan sem hann er í gerir það ómögulegt fyrir almenning að treysta því að ekki leki upplýsingar sem leynt eigi að fara frá honum til unnustu hans. Hitt er alveg augljóst, að forsætisráðherra hlýtur að minnsta kosti að þurfa að víkja bankastjóranum tímabundið meðan málið er rannsakað af til þess bærum aðilum, en þá er ekki að finna innan bankans.

Höfundur er ekkert sérstakt.




Skoðun

Sjá meira


×