Erlent

Neyðar­fundur verði boðaður í Öryggis­ráði SÞ

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Frá fundi Öryggisráðs SÞ í ágúst á þessu ári. 
Frá fundi Öryggisráðs SÞ í ágúst á þessu ári.  Getty/Selcuk Acar/

Boðað verður til neyðarfundar í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, að beiðni Pólverja, aðgerða Rússa innan pólskar lofthelgi. Enn stendur yfir rannsókn vegna rússnesku drónanna sem sendir voru inn fyrir pólska lofthelgi í fyrrinótt, en nokkrir þeirra voru skotnir niður.

Pólska utanríkisráðuneytið greinir frá því á samfélagsmiðlinum X í morgun að Öryggisráð SÞ hafi fallist á beiðni Pólverja um neyðarfund vegna málsins. Ekki liggur fyrir hvenær fundurinn á að fara fram, en þegar þetta er skrifað er fundurinn ekki verið birtur í dagskrá öryggisráðsins.

Forsætisráðherra Póllands sagði í gær að landið hafi ekki verið nær því að lenda í opnum stríðsátökum frá því í síðari heimsstyrjöldinni eftir að rússneskir drónar voru skotnir niður þar í fyrrinótt. Rússar hafi farið yfir strikið.

Herþotur frá Póllandi og bandamönnum þess í Atlantshafsbandalaginu skutu niður allt að fjóra af nítján rússneskum drónum sem rufu lofthelgi landsins í nótt, að sögn Donalds Tusk, forsætisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×