Menning

Geislandi Vig­dís og gat á skónum sem mátti ekki sjást

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Ljósmyndarinn rifjar upp nokkrar eftirminnilegar ljósmyndir sem hann tók af fyrirmennum.
Ljósmyndarinn rifjar upp nokkrar eftirminnilegar ljósmyndir sem hann tók af fyrirmennum. Vísir/Rax

Rax fékk á árum sínum hjá Morgunblaðinu oft það verkefni að taka portrettmyndir af ráðamönnum og öðrum fyrirmennum þjóðarinnar. Hann rifjar nú upp eftirminnilegar myndir af Vigdísi Finnbogadóttur, Davíð Oddsyni og öðrum.

„Ég hef alltaf lagt mig fram, sama hver það er, að gera myndina eins flotta og ég get. Ein af þeim flottari sem maður tók mynd af var Vigdís forseti,“ segir ljósmyndarinn Ragnar Axelsson, betur þekktur sem Rax, um Vigdísi Finnbogadóttur.

Ein eftirminnilegasta myndin sem Rax tók að eigin sögn var þessi af Vigdísi Finnbogadóttur.

„Það var falleg morgunbirta sem kom inn og hún var eins og einn af geislunum, glæsileg og þessi mynd kom bara af sjálfri sér,“ segir hann.

Rax fylgdi Vigdísi líka á ýmsa viðburði og segir að alls staðar sem hún kom hafi hún heillað fólk.

„Þú sérð það á leiðtogafundi Reagan og Gorbachev að þeir voru bara eins og litlir feimnir strákar við hliðina á henni. Hún hafði svo flotta útgeislun,“ segir RAX.

Ungir jafnt sem aldnir horfðu með aðdáun og hlýhug til Vigdísar.

„Þú þarft að laga þessa mynd af borgarstjóranum“

RAX tók myndir af fleiri fyrirmönnum, Ólaf Ragnar Grímsson í forsetatíð hans, Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra þegar hann viðurkenndi sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna og Jóhannes Nordal seðlabankastjóra. 

RAX myndaði líka Davíð Oddson á árum hans sem borgarstjóri við ýmis tilefni. Davíð tók á móti Elísabetu Englandsdrottningu við Höfða í heimsókn hennar og Filippusar til landsins árið 1990.

Borgarstjórahjónin taka á móti Elísabetu Englandsdrottningu og Filippusi við Höfða árið 1990.Vísir/Rax

Myndin sem RAX heldur mest uppá af Davíð er portrettmynd sem hann tók af honum á skrifstofu borgarstjóra. Sú mynd birtist í fyrsta sinn í upprunalegri útgáfu í sögu dagsins.

„Þá kem ég að mynda hann á skrifstofunni. Hann tekur á móti mér glaðhlakkalegur og spyr hvernig mynd ég vilji. Ég horfi í augun á honum og segi: ,Ég hefði nú helst viljað fá þig á skyrtunni, með lappirnar upp á borð í símanum eins og Kennedy',“ segir Rax.

„Ég var einmitt að hugsa um eitthvað svona,“ svaraði Davíð, setti lappirnar upp á borð og svaraði símanum sem hringdi einmitt.

Óbreytt ljósmyndin sem Rax tók af Davíð Oddssyni fyrir Morgunblaðið.Vísir/Rax

„Ég tek þessa mynd og tek eftir því að það er gat á skónum hans og sé strax að þetta er flottur punktur við myndina,“ segir Rax en þegar hann var búinn að senda myndina til Ragnars Jörgensen, yfirhönnuðar blaðsins, fékk hann símhringingu frá Styrmi Gunnarssyni.

„Þú þarft að laga þessa mynd af borgarstjóranum,“ sagði Styrmir í símann.

„Ókei, hvað þarf ég að gera?“ spurði Rax.

„Þú þarft að dekkja skósólann, þú getur ekki haft borgarstjórann með gat á skónum,“ svaraði Styrmir.

„Nei, þetta er það flotta við hann, það er að hann er eins og við hin, með gat á skónum,“ sagði Rax þá og naut stuðnings yfirhönnuðarins.

Styrmir stóð hins vegar fastur á sínu og skósólinn var lagaður fyrir blaðið en nú birtist myndin af Davíð í fyrsta sinn í upprunalegri útgáfu með útslitnum skónum.

Söguna af portrettmyndunum má sjá í spilaranum hér að neðan:

Hér fyrir neðan má sjá fleiri sögur úr smiðju RAX:

Vigdís og Reagan

RAX segir söguna af því þegar Vigdís Finnbogadóttir og Ronald Reagan Bandaríkjaforseti hittust. Vel fór á með þeim og náði RAX ógleymanlegum myndum.

Sjálfstæðisbarátta Eystrasaltsríkjanna

Árið 1990 lýstu Eystrasaltsríkin yfir sjálfstæði frá Sovétríkjunum og í janúar 1991 hélt Jón Baldvin Hannibalsson, þáverandi utanríkisráðherra, utan til þess að viðurkenna sjálfstæði þeirra fyrir hönd Íslands, fyrst ríkja heims. RAX fylgdi honum út ásamt öðru fjölmiðlafólki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.