Menning

Enginn for­maður Sjalla, Kaffi Vest-samsærið og vinir skoðana­bræðra

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Áramótaskaupið 2025 innihélt ýmsa góða sketsa og ýmislegt vakti þar athygli.
Áramótaskaupið 2025 innihélt ýmsa góða sketsa og ýmislegt vakti þar athygli.

Áramótaskaupið 2025 vakti mikla lukku landsmanna en þar kenndi ýmissa grasa. Vísir hefur týnt til ýmsa forvitnilega mola sem vöktu athygli, svo sem sögulega fjarveru formanns Sjálfstæðisflokksins, skemmtilegar tengingar höfunda Skaupsins við viðföng þess og meint samsæri Rúv, Samfylkingar og Kaffi Vest gegn sitjandi borgarstjóra.

Áramótaskaupið var á sínum stað á gamlársdagskvöld eins og síðustu sextíu ár. Skaupin í gegnum árin hafa verið jafn misjöfn og þau eru mörg, mispólitísk og misfyndin. 

Það er aldrei hægt að gera öllum til geðs en af samfélagsmiðlum að dæma virðist nokkuð almenn ánægja með skaupið 2025, sjaldan hefur maður séð jafnfáa kvarta yfir Skaupinu og að sama skapi voru óvenjumargir jákvæðir.

Fyrir utan það var ýmislegt áhugavert við Skaupið, bæði það sem var tekið fyrir og það sem rataði ekki á skjáinn.

Enginn formaður Sjálfstæðisflokksins

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið burðarstólpi í íslenskum stjórnmálum frá stofnun, setið í meirihluta ríkisstjórna landsins og langoftast farið með forystu þar. Hann hefur því skiljanlega átt stórt hlutverk í áramótaskaupum gegnum tíðina og formenn á borð við Davíð Oddsson, Bjarna Benediktsson og Geir H. Harde fengið að kenna á því. 

Hver þekkir það ekki að horfa á Skaupið með grautfúlum Sjálfstæðismanni sem finnst illa vegið að sínu fólki?

Guðrún Hafsteinsdóttir mætti í sína fyrstu Kryddsíld á gamlársdag.Vísi/Anton

En nú er Sjálfstæðisflokkurinn ekki í ríkisstjórn og Bjarni Benediktsson, næstþaulsetnasti formaður flokksins á eftir Ólafi Thors og einn fyrirferðamesti pólitíkus samtímans, hætti sem formaður í mars. Guðrún Hafsteinsdóttir tók við formennsku og hefur gengið illa að stimpla sig inn, fylgið minnkar með hverri skoðanakönnuninni sem birtist og hún nýtur lítilla vinsælda. Hvað getur Sjálfstæðisflokkurinn minnkað mikið er spurning sem margir eru að velta fyrir sér.

Lengi getur vont versnað og mögulega var botninum náð á gamlárskvöld. Formaður Sjálfstæðisflokksins var nefnilega hvergi sjáanlegur í Skaupinu og flokkurinn sjálfur kom sömuleiðis nánast ekkert við sögu. Eini fulltrúi flokksins sem fékk rullu í Skaupinu var Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, sem tapaði með litlum mun fyrir Guðrún í formannsslagnum í vor. (Svo birtist Hildur Sverris reyndar í bakgrunni í einu atriði).

Katrín Halldóra í hlutverki Áslaugar Örnu.

Áslaug birtist þar blindfull í pólitískri útgáfu af Bannað að hlæja en grínið þar virtist tengjast háværri umræðu í sumar um að Áslaug hefði verið slompuð þegar hún fór þvoglumælt með ræðu í pontu Alþingis.

Bæði Guðrún og Áslaug hafa þó lýst yfir ánægju með Skaupið síðustu tvo daga. Og kannski eru Sjálfstæðismenn bara fegnir að losna aðeins við sviðsljósið til Valkyrjanna. Sjálfstæðismannaleysið er samt undarlegt og kannski til marks um breytta tíma. 

Sjálfstæðismenn voru þó ekki þeir einu sem voru fjarverandi, þeirra traustasti félagi í Framsóknarflokknum sást hreinlega ekki neitt. Þar blasir líka við töluvert dekkri sýn í könnunum.

Sigurður Ingi lætur brátt af formennsku Framsóknarflokksins sem hefur mælst hrikalega illa í könnunum.Vísir/Vilhelm

Borgarstjóri fékk á baukinn

Einn stjórnmálamaður sem fékk þó nóg pláss í Skaupinu og vel á baukinn var Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjóri og oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík. Hún kom fyrir í þremur senum en í tveimur þeirra gekk grínið út á að enginn þekkti hana.

Sjá einnig: Tvö prósent vilja Heiðu sem borgarstjóra

Kveikjan að því gríni er hugsanlega skoðanakönnun sem birtist í byrjun desember þar sem aðeins 2,1 prósent vildu hana sem borgarstjóra, færri en vildu Guðlaug Þór, Hildi Björns, Einars Þorsteins, Sönnu eða Dag B. Eggertsson.

Hvað heitir borgarstjóri?Rúv

Heiða birtist fyrst í Skaupinu í spurningaþættinum Quiz Show (afbrigði af Kvissi) þar sem spurt var um nafn hennar. Enginn þátttakenda vissi hvað hún hét, ekki spyrillinn Björn Bragi heldur og spurningahöfundurinn hafði sjálfur gleymt því. Meira að segja frændi borgarstjóra sem sat fyrir aftan myndavélina hafði gleymt nafni hennar.

Hún kom síðan næst við sögu í gríni um myndun nýjan borgarstjórnarmeirihlutans og upphaf nafnsins Kryddpíanna. Grínið snerist þar að því bæði ensku kryddpíurnar og þær íslensku í borgarstjórn voru allar hvítar nema ein og þá óþægindin við að útnefna Sönnu sjálfkrafa sem ógnarkryddið Mel B.

Loks kom Heiða fyrir í málþófssketsi þar sem Anna Svava lék hana með stór sólgleraugu og í appelsínugulri dragt. Veitti borgarstjórinn þar ónefndum Íslandsmeistara í málþófi (Jón Pétur Zimsen mögulega) viðurkenningu en sá kannaðist ekki við Heiðu og hélt að Sanna væri borgarstjóri.

Málþófsmaður og Heiða.Rúv

Síðustu vikur var mikið spáð og spekúlerað um mögulegt mótframboð gegn Heiðu í prófkjöri Samfylkingarinnar í vor og hafði Pétur Marteinsson, rekstrarmaður og fyrrverandi fótboltakempa, verið nefndur þar á nafn. Kristrún Frostadóttir sagðist á ríkisráðsfundi 30. desember hafa rætt við Pétur og talaði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, ítrekað um bandalag Rúv, Samfó og Kaffi Vest í Kryddsíldinni.

Á nýársdag mætti Pétur Marteins svo í viðtal til Ríkisútvarpsins þar sem hann tilkynnti að hann byði sig fram gegn Heiðu í prófkjörinu í vor. Síðan þá hafa Miðflokksmenn farið mikinn á samfélagsmiðlum um að Sigmundur Davíð hafi þar haft rétt fyrir sér um bandalag.

Sjá einnig: Vinum hans ekki litist á blikuna

„Bandalag Samfó, RÚV og Kaffi Vest vill skipta um borgarstjóra og koma sínum manni að. Þess vegna var borgarstjórinn ítrekað tekinn fyrir í gærkvöldi,“ skrifaði Björn Ingi Hrafnsson, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs, á Twitter í gær.

Heiða Björg tjáði sig líka um Skaupið, var ánægð með það og þakkaði fyrir auglýsinguna. Sagðist hún sjálf nýlega hafa talað við sitt fólk um hvernig hún gæti komið sér og nafni sínu betur á framfæri.


Óvænt endurkoma

Líkt og hefur verið venjan á síðustu árum endaði Skaupið á lokalagi en þar kom óvæntur gestur við sögu. Ágústa Eva Erlendsdóttir endurvakti sinn gamla karakter, Silvíu Nótt, í lokalaginu, birtist með Væb-bræður í þröngri ól og söng með.

Silvía Nótt tók þátt í Eurovision í Aþenu árið 2006 og vakti þar mikið umtal og skandalíseraði. Silvía gaf síðan út plötuna Goldmine vorið 2007 en hefur lítið sem ekkert sést síðan þá.

Síðustu tuttugu ár hefur Ágústa Eva þó brallað ýmislegt. Hún lék Línu Langsokk í samnefndri sýningu Þjóðleikhússins árið 2014, lék Evu appelsínu í Ávaxtakörfunni árið 2021, hefur talsett ógrynni barnaefnis, hefur samið og sungið tónlist með hljómsveitinni Sycamore Tree og var dugleg að tjá sig um aðgerðir yfirvalda í Covid-faraldrinum.

Spurning hvort Skaupið var bara „one-time-thing“ eða hvort Íslendingar eigi von á meiri Silvíu Nótt. Það er aldrei að vita.

Silvía Nótt með comeback.Rúv

IceGuys-skaupið?

Skaupið í ár var framleitt af framleiðslufyrirtækinu Atlavík og því leikstýrt af tveimur aðalsprautunum þar, Hannesi Þór Arasyni og Allan Sigurðssyni. Þeir félagar eru þekktastir fyrir leikstjórn og framleiðslu sjónvarpsseríanna IceGuys og Bannað að hlæja með Auðunni Blöndal. Þá var Jón Jónsson, einn meðlima IceGuys, einmitt í handritsteymi Skaupsins í ár.

Sannarlega má því segja að um IceGuys-skaup hafi verið að ræða. Fyrir utan að vera í handritsteyminu birtist Jón á skjánum sem Björn Skúlason og í nokkrum öðrum senum, Sandra Barilli, sem leikur IceGuys-umboðsmanninn Mollý, skaut upp í kollinum í einum sketsi og það sama á við um Rúrik Gíslason og Þórhall Sverrisson. Sóli Hólm sem skrifaði allar seríurnar af IceGuys fékk síðan stórt hlutverk sem Inga Sæland eftir að Ólafía Hrönn hafði leikið hana undanfarin ár.

Þórhallur Sverris, Sandra Barilli, Rúrik Gísla og Jón Jónsson komu öll fyrir í Skaupinu.Rúv

Það er ekki óvanalegt að höfundar Skaupsins leiki líka í því og að leikstjórar Skaupsins kalli til fólk sem þeir hafa unnið mikið með. Nærtækt dæmi er að þegar Jón Gnarr leikstýrði Skaupinu árið 2016 þá var meginþorri leikarahópsins úr Fóstbræðrum.

En það voru ekki bara kunnuglegir leikarar úr Skaupinu heldur tóku þeir félagar líka fyrir afbakaða útgáfu af sínum eigin þætti, Bannað að hlæja, og svo birtist Björn Bragi, sem var líka í handritsteyminu, í afbrigði af spurningaþættinum sínum, Kviss. Af einhverjum ástæðum vildu þeir þó ekki nota sjálft Kviss-nafnið og úr varð hið undarlega Quiz Show. Forsvarsmenn Sýnar hljóta að vera ánægðir með umfjöllunina.


Mássynir leiknir af vinum sínum

Snorri Másson, skoðanabróðir og varaformaður Miðflokksins, var kannski ekki valinn maður ársins neins staðar en hann átti sannarlega viðburðaríkt ár. Hann var stöðugt á milli tannanna á fólki vegna skoðana sinna, sigraði örugglega varaformannsslag í Miðflokknum og vakti athygli fyrir framgöngu sína í Kastljósi í september.

Sá skets sem vakti einna mesta athygli í Skaupinu var paródía af sjónvarpsþáttunum Severance sem hafa verið gríðarvinsælir undanfarin ár. Í sketsinum undirgengst Snorri sundrunaraðgerð þar sem hann sundrast í tvennt, hinn venjulega Snorra og þann pólitíska. 

Leikarinn Sigurður Ingvarsson leikur Snorra í sketsinum en hann og Snorri hafa verið nánir vinir síðan í menntaskóla. Snorri er þar að auki náinn vinur Allans, annars leikstjóranna, sem söng einmitt í brúðkaupi Snorra og Nadine á Siglufirði sumarið 2024.

Snorri Másson heilsar upp á Pál Óskar.Rúv

Snorri var ekki eini Mássonurinn sem var tekinn fyrir í Skaupinu. Bróðir hans Bergþór Másson var augljós fyrirmynd í grínatriði um mann sem hefur selt aleigu sína fyrir Bitcoin, býr í tunnu og er til viðtals hjá Gísla Einarssyni í Landanum.

Sjá einnig: Alveg sama þótt hann tapi mörgum milljónum

Tónlistarmaðurinn og leikarinn Jóhann Kristófer Stefánsson lék þar Bitcoin-manninn en hann og Bergþór eru miklir vinir.

Jóhann Kristófer og Sóli Hólm í skets um Landa-viðtal.Rúv





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.