Innlent

Mat­vöru­verslanir kattslakar en lyfjarisi fylgist grannt með

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Teva á Íslandi fylgist með því hvaða þýðingu aðgerðir ráðherra hafa í för með sér fyrir fyrirtækið.
Teva á Íslandi fylgist með því hvaða þýðingu aðgerðir ráðherra hafa í för með sér fyrir fyrirtækið. Vísir

Ákvörðun íslenskra stjórnvalda um að uppfæra ekki fríverslunarsamning við Ísrael hefur lítil sem engin áhrif á stærstu matvöruverslanir landsins. Forsvarsmenn lyfjafyrirtækisins Teva á Íslandi fylgjast hins vegar grannt með málinu. Talskona sniðgönguhreyfingarinnar BDS á Íslandi segir ekki nógu langt gengið.

Utanríkisráðherra tilkynnti í gær að fríverslunarsamningur Íslands og annarra EFTA-ríkja við Ísrael verði ekki uppfærður. Það þýðir að nýjar vörur og þjónusta frá Ísrael falla ekki undir samninginn. Tilefnið er hernaður Ísraela á Gasa en auk þess verður tveimur ráðherrum meinað að ferðast til Íslands og vörur frá hernumdum svæðum í Ísrael sérstaklega merktar. Auk þess tilkynnti ráðherra að farið yrði í aðrar aðgerðir. 

Samkvæmt upplýsingum frá forsvarsmönnum Bónus, Krónunnar og Prís eru engar ísraelskar vörur til sölu í verslununum. Ekki náðist í forsvarsmenn Samkaupa við gerð fréttarinnar. Tölur yfir innflutning grænmetis og ávaxta frá Ísrael ríma við þetta, en þær sýna að hann hefur hríðfallið undanfarin ár. 

Tölurnar eru frá Hagstofunni en meðal þess sem í gegnum tíðina hefur verið flutt inn til Íslands frá Ísrael eru ávextir á borð við avókadó, en líka raftæki á borð við SodaStream og hárvörur úr línu Moroccan Oil. Samkvæmt upplýsingum frá Elko eru slík raftæki flutt inn frá Evrópu en ekki Ísrael.

Viðskiptin enn mikil

Ragnhildur Hólmgeirsdóttir talskona sniðgönguhreyfingar BDS á Íslandi segir viðskiptin þó enn mikil á milli landanna. 

„Það eru ekki vörur sem almenningur kaupir heldur stórir tölvuhlutir, dýrir tölvuhlutir fyrir gagnaver. Stærsti lyfjaframleiðandi sem við kaupum frá á Íslandi er Teva frá Ísrael.“

Forsvarsmenn lyfjafyrirtækisins Teva á Íslandi segjast í svörum til fréttastofu nú meta hvort yfirlýsing ráðherra feli í sér breytingar fyrir fyrirtækið. Metið sé hvort aðgerðirnar feli í sér formlegar breytingar á þátttöku Íslands í fríverslunarsamningi EFTA og Ísraels eða hvort hún feli í sér nýjar viðskiptahömlur.

„Ef einhverjar breytingar verða formlega kynntar sem hafa áhrif á vöruflæði eða tollafyrirkomulag munum við fara vandlega yfir þær til að meta hugsanleg áhrif þeirra - bæði fyrir starfsemi okkar og sjúklinga á Íslandi.“

Bregðast þurfi við áhrifum stórfyrirtækja

Ragnhildur hefði viljað sjá íslensk yfirvöld ganga lengra í táknrænum aðgerðum. „Við getum horft á það sem Slóvenía gerði fyrir mánuði held ég þar sem var lagt blátt bann við öllum vopnaflutningi til Ísraels í gegnum Slóveníu.“

Skoða þurfi langtímaaðgerðir til að bregðast við áhrifum stórfyrirtækja hér á landi með tengsl við Ísrael. „Því Ísrael í dag, sérstaklega í dag eftir árásina á Katar. Þetta er mjög hættulegt ríki sem er ekki gott að hafi mikla aðkomu að íslensku samfélagi.“


Tengdar fréttir

„Er þetta allt sem Ísland getur gert?“

Yfirlýsing utanríkisráðherra um að fríverslunarsamningur við Ísrael verði ekki uppfærður er sýndaraðgerð, að mati talskonu sniðgönguhreyfingarinnar BDS á Íslandi. Hún segir ekki nógu langt gengið, íslensk stjórnvöld gætu haft raunveruleg áhrif til að stöðva árásir Ísraela á Gasa, lágmark væri að rifta samningnum.

Ísraelar gera loftárásir á Katar

Ísraelski herinn gerði loftárásir á Dóha, höfuðborg Katar, á öðrum tímanum í dag. Herinn segir árásirnar beinast að pólitískum leiðtogum Hamas sem hafa notað Dóha sem höfuðstöðvar utan Gasa um árabil.

Óvíst hvort Ísland verði með í Eurovision

Stjórn Rúv hefur gert fyrirvara um þátttöku Íslands í Eurovision á næsta ári og ekki liggur fyrir hvort Ísland verði með líkt og staðan er núna. Þetta staðfestir stjórnarformaður Rúv í samtali við Vísi. Ástæðan er sú að nú stendur yfir samráðsvinna á vettvangi EBU hvað lýtur að þátttöku Ísraels í keppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×