Handbolti

Hófu titilvörnina með sigri og Sara með stór­leik á Ásvöllum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gleðin var mikil hjá ÍR-ingum eftir sigurinn á Haukum.
Gleðin var mikil hjá ÍR-ingum eftir sigurinn á Haukum. ír handbolti

Fyrstu tveir leikir tímabilsins í Olís deild kvenna unnust á útivelli. Íslandsmeistarar Vals sigruðu Selfoss, 25-28, á meðan ÍR vann nokkuð óvæntan sigur á Haukum, 27-30.

Lovísa Thompson skoraði sjö mörk fyrir Val á Selfossi og Þórey Anna Ásgeirsdóttir sex. Hafdís Renötudóttir varði fimmtán skot í marki Íslandsmeistaranna, eða 37,5 prósent þeirra skota sem hún fékk á sig.

Arna Kristín Einarsdóttir jafnaði fyrir Selfoss, 24-24, þegar rúmar tíu mínútur voru eftir. Selfyssingar skoruðu hins vegar aðeins eitt mark í viðbót það sem eftir lifði leiks á meðan Valskonur skoruðu fjögur.

Arna Kristín skoraði sex mörk fyrir Selfoss líkt og Mia Syverud. Ágústa Tanja Jóhannsdóttir varði tólf skot í marki heimakvenna (þrjátíu prósent).

Sara Dögg Hjaltadóttir fór á kostum þegar ÍR sótti sigur á Ásvelli. Hún skoraði tólf mörk og var markahæst á vellinum.

Jóhanna Margrét Sigurðardóttir skoraði tíu mörk fyrir Hauka og Rakel Oddný Guðmundsdóttir sjö en markverðir liðsins vörðu aðeins samtals fimm skot í leiknum.

Vaka Líf Kristinsdóttir og Anna María Aðalsteinsdóttir skoruðu báðar sex mörk fyrir ÍR sem komst í undanúrslit úrslitakeppninnar á síðasta tímabili. Á meðan töpuðu Haukar fyrir Val, 3-0, í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×