Handbolti

Ómar Ingi skyggði á Gidsel

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon skoraði níu mörk í dag.
Ómar Ingi Magnússon skoraði níu mörk í dag. getty/Marco Wolf

Íslendingarnir í liði Magdeburg skoruðu samtals tuttugu mörk þegar liðið vann öruggan sigur á meisturum Füchse Berlin í þýsku úrvalsdeildinni í dag, 32-39.

Mikið hefur gengið á hjá Füchse Berlin undanfarna daga. Íþróttastjórinn Stefan Kretzschmar hætti og svo var þjálfaranum Jaron Siewert sagt upp störfum. Daninn Nicolej Krickau tók við og stýrði Berlínarrefunum í fyrsta sinn í dag.

Ómar Ingi Magnússon hefur byrjað tímabilið af gríðarlegum krafti og skoraði níu mörk í dag. Hann hefur gert 32 mörk í fyrstu þremur deildarleikjum Magdeburg.

Elvar Örn Jónsson skoraði sex mörk úr sex skotum í dag og Gísli Þorgeir Kristjánsson var með fimm mörk og fimm stoðsendingar.

Lasse Andersson var markahæstur hjá Füchse Berlin með níu mörk. Mathias Gidsel skoraði sjö mörk.

Magdeburg er með sex stig eftir fyrstu þrjá leiki sína í þýsku úrvalsdeildinni en Füchse Berlin fjögur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×