Innlent

Reyndust hafa þýfi úr fleiri inn­brotum í fórum sínum

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í dag.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í dag. Vísir/Vilhelm

Tilkynnt var um innbrot í fyrirtæki í Kópavogi og lögregla kom auga á tvo einstaklinga sem pössuðu við lýsingu á meintum þjófum. Þegar lögregla gaf sig á tal við parið kom í ljós mikið magn af þýfi úr fleiri innbrotum.

Fram kemur í dagbók Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu að þýfið sem þau höfðu í fórum sínum hefði verið úr fyrrnefndu innbroti en einnig öðrum innbrotum. Þau voru bæði handtekin og vistuð í fangaklefa fyrir rannsókn málsins.

Lögregla hafði einnig eftirlit með atvinnuréttindum í miðborg Reykjavíkur ásamt eftirlitsaðilum. Við frekari skoðun kom í ljós að einstaklingur sem þau höfðu eftirlit með starfaði án þess að hafa til þess heimild. Hann var handtekinn og fluttur á lögreglustöð.

Í Árbænum var tilkynnt um umferðarslys þar sem ekið var á gangandi vegfarandi. Betur fór en á horfðist og engin slys reyndust á fólki þegar lögreglu bar að garði, aðeins minniháttar eignatjón.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×