Sport

Næst yngsti leik­maður í sögu ensku úr­vals­deildarinnar

Siggeir Ævarsson skrifar
Max Dowman fagnar vítaspyrnunni sem hann fiskaði með Ethan Nwaneri en þeir eru yngstu tveir leikmenn í sögu deildarinnar
Max Dowman fagnar vítaspyrnunni sem hann fiskaði með Ethan Nwaneri en þeir eru yngstu tveir leikmenn í sögu deildarinnar EPA/ANDY RAIN

Hinn 15 ára gamli Max Dowman skráði sig í sögubækurnar í dag þegar hann kom inn á sem varamaður í leik Arsenal og Leeds en Dowman varð þar með annar yngsti leikmaður í sögu deildarinnar og jafnframt aðeins sá þriðji sem þreytir frumraun sína 15 ára gamall.

Dowman, sem er 15 ára og 235 daga, kom inn á í stöðunni 4-0 á 64. mínútu og átti í fullu tré við fullorðna karlmenn í liði Leeds. Hann var hársbreidd frá því að skora með langskoti þegar boltinn barst til hans rétt fyrir utan teiginn og fiskaði síðan vítaspyrnu undir lokin og varð þar með yngsti leikmaðurinn í sögunni til að krækja í víti.

Liðsfélagi Dowman, Ethan Nwaneri, er yngsti leikmaður í sögu deildarinnar, en hann var 54 dögum yngri þegar hann kom fyrst við sögu í deildarleik með Arsenal. Þeir félagar komu báðir inn á sem varamenn í dag í lið Arsenal.

Dowman verður 16 ára þann 31. desember næstkomandi sem er merkilegt út af fyrir sig en undanfarin ár hafa leikmenn sem fæddir eru snemma á árinu hlotið meiri framgang í yngri flokkum en Dowman gæti bókstaflega ekki verið fæddur seinna á árinu.

Hér að neðan má sjá lista yfir tíu yngstu leikmenn í sögu deildarinnar. Þegar rennt er yfir listann má glöggt sjá að það er ekki endilega samasemmerki á milli þess að hljóta eldskírn í deildinni ungur og að ná langt á ferlinum sem atvinnumaður.

Tíu yngstu leikmenn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar

  • Ethan Nwaneri (Arsenal) – 15 ára og 181 dags.
  • Max Dowman (Arsenal) – 15 ára og 235 daga.
  • Jeremy Monga (Leicester City) – 15 ára og 271 daga.
  • Harvey Elliott (Fulham) – 16 ára og 30 daga.
  • Matthew Briggs (Fulham) – 16 ára og 68 daga.
  • Izzy Brown (West Bromwich Albion) – 16 ára og 117 daga.
  • Aaron Lennon (Leeds Utd) – 16 ára og 129 daga.
  • Jose Baxter (Everton) – 16 ára og 191 dags.
  • Rushian Hepburn-Murphy (Aston Villa) – 16 ára og 198 daga.
  • Gary McSheffrey (Coventry City) – 16 ára og 198 daga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×