Erlent

Gerðu hús­leit á heimili fyrr­verandi þjóðaröryggisráðgjafa Trump

Kjartan Kjartansson skrifar
John Bolton var þjóðaröryggisráðgjafi Trump í sautján mánuði á fyrra kjörtímabili hans. Trump hefur beitt völdum sínum til þess að ná sér niður á Bolton eftir að hann náði endurkjöri sem forseti.
John Bolton var þjóðaröryggisráðgjafi Trump í sautján mánuði á fyrra kjörtímabili hans. Trump hefur beitt völdum sínum til þess að ná sér niður á Bolton eftir að hann náði endurkjöri sem forseti. AP/Carolyn Kaster

Útsendarar bandarísku alríkislögreglunnar gerðu húsleit á heimili Johns Bolton, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa Donalds Trump forseta, í dag. Húsleitin er sögð tengjast rannsókn á meðferð leynilegra skjala. Trump hefur notað völd sín til þess að ná sér niðri á gagnrýnendum eins og Bolton eftir að hann tók aftur við sem forseti.

Bolton var ekki handtekinn í húsleitinni á heimili hans í Maryland-ríki og hefur ekki verið ákærður, samkvæmt heimildum AP-fréttastofunnar.

Eftir að Bolton lét af störfum sem þjóðaröryggisráðgjafi Trump gagnrýndi hann forsetann harðlega fyrir stefnu hans í utanríkismálum. Bolton skrifaði síðan bók um þau sautján mánuði sem hann starfaði með Trump í skugga ásakana um að hann hefði upplýst um leynilegar upplýsingar í henni.

Dómsmálaráðuneytið er sagt hafa fallið frá lögsókn gegn Bolton og látið rannsókn niður falla árið 2021.

Bolton var á meðal tuga fyrrverandi leyniþjónustumanna og embættismanna sem Trump svipti öryggisheimild á fyrsta degi sínum sem forseti í janúar. Þá afturkallaði Trump öryggisgæslu sem Bolton naut frá alríkisstjórninni eins og hann hefur gert við fleiri sem hann lítur á sem pólitíska andstæðinga sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×