Erlent

Starmer og Selenskí funda í dag

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Starmer og Selenskí funda núna fyrir hádegi.
Starmer og Selenskí funda núna fyrir hádegi. Getty/Leon Neal

Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, og Vólódimír Selenskí Úkraínuforseti munu funda í Downing-stræti nú fyrir hádegi, í aðdraganda fundar Donald Trump Bandaríkjaforseta og Vladimir Pútín Rússlandsforseta á morgun.

Starmer hefur sagt Breta reiðubúna til að auka þrýstinginn á Rússa ef til þess kemur og þá sagði Trump í gær að það myndi hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér ef Rússar sýndu ekki sáttarvilja.

Forsætisráðherrann breski hefur hælt Bandaríkjaforseta fyrir viðleitni sína í því að halda opnum „raunhæfum“ möguleika á því að binda enda á átökin í Úkraínu. Starmer sagði í gær að fundurinn á morgun væri afar mikilvægur; um væri að ræða fyrsta mögulega tækifærið á því að knýja fram frið.

Starmer er meðal þeirra Evrópuleiðtoga sem hafa lagt áherslu á það, bæði opinberlega og í samtölum við Trump, að ekki sé hægt að semja um neitt um Úkraínu án aðkomu þarlendra stjórnvalda.

Úkraínumenn hafa lýst sig óviljuga til að gefa nokkuð landsvæði eftir og afar ólíklegt að Rússar gangi frá borði án þess að halda eftir einhverjum  af landvinningum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×