Viðskipti innlent

Óskar úr fjar­skiptum í fiskinn

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Óskar hefur verið ráðinn fjármálastjóri First Water.
Óskar hefur verið ráðinn fjármálastjóri First Water. Síminn

Óskar Hauksson hefur verið ráðinn fjármálastjóri landeldisfyrirtækisins First Water. Greint var frá því í gær að hann hefði óskað eftir starfslokum sem fjármálastjóri Símans eftir fjórtán ára starf. 

„Óskar hefur yfirgripsmikla reynslu af fjármálum, fjármögnun og rekstri. Óskar kemur frá Símanum þar sem hann hefur gengt stöðu fjármálastjóra frá 2011 en hann hóf störf hjá félaginu árið 2005,“ segir í fréttatilkynningu.

Í kauphallartilkynningu Símans í gær kom fram að hann muni láta af störfum þann 1. október næstkomandi og verður forstjóra innan handar þar til ráðið hefur verið í starfið.

Samhliða ráðningu Óskars tekur Helgi Þór Logason, fráfarandi fjármálastjóri, við stöðu yfirmanns viðskiptaþróunar First Water.

Óskar starfaði áður hjá bandaríska fjárfestingabankanum Bear Stearns, Landsbankanum og Spron. Óskar er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands.

„Ég hef fylgst með þróun First Water af áhuga og tel fyrirtækið vera á mjög spennandi stað. Framundan er áframhaldandi uppbygging á háttæknilandeldi í Þorlákshöfn og sókn á erlenda markaði. Ég hlakka til að leggja mitt af mörkum í þessu einstaka verkefni sem er stærsta einkaframkvæmd Íslandssögunnar,“ er haft eftir Óskari í fréttatilkynningu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×