Innlent

Þrettán kærðir fyrir ölvunar­akstur og hundruð stöðvuð vegna hraðaksturs

Agnar Már Másson og Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifa
Umferðin hefur verið þung um helgina.
Umferðin hefur verið þung um helgina. Vísir

Þyrluáhöfn Landhelgsisgæslunnar hefur sinnt umferðareftirliti í dag í samstarfi við lögregluna á Vesturlandi. Þrettán voru í dag sektaðir fyrir ölvunarakstur á Suðurlandi og um tvö hundruð stöðvaðir vegna hraðaksturs á Austurlandi. Umferðin um helgina hefur gengið stórslysalaust fyrir sig.

„Þetta er umferðareftirlit með lögreglu,“ segir Ásgeir Erlendsson upplýsingafulltrúi gæslunnar í samtali við Vísi. Þyrlan hefur helst verið við eftirlit á Vesturlandi í dag en

Ein stærsta ferðahelgi ársins er senn á enda en verslunarmannahelgin hefur verið annasöm hjá lögreglu víða um land. Mikil umferð er um landið og lögregluembætti í öllum landshlutum hafa haft afskipti af fólki í umferðinni í dag.

Engum ökumanni var hleypt út í umferðina við Landeyjarhöfn án þess að blása en þaðan streyma nú Þjóðhátíðargestir frá Vestmannaeyjum. Þrettán ökumenn hafa verið kærðir fyrir ölvunarakstur á Suðurlandi samkvæmt upplýsingum lögreglu.

Á Austurlandi voru 200 stöðvaðir fyrir of hraðan akstur samkvæmt upplýsingum frá lögregluembættinu þar.

Verslunarmannahelgin hófst með hvelli en veðurviðvaranir með tilheyrandi hvassviðri og rigningu gengu yfir landið og léku gesti útihátíða sums staðar grátt, einkum á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Veðrið skánaði þegar leið á helgina en Þjóðhátíð náði hámarki með brekkusöng í gærkvöldi.

Umferðin um helgina hefur gengið stórslysalaust fyrir sig, að því er fréttastofa kemst næst, en til að svo verði enn er mikilvægt að fara varlega í umferðinni og flýta sér heim svo allir komist heilir heim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×