Erlent

Trump segir „al­vöru hungur­sneyð“ ríkja á Gasa

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Starmer sótti Trump heim á golfvöll hans í Skotlandi.
Starmer sótti Trump heim á golfvöll hans í Skotlandi. epa/Chris Ratcliffe

Donald Trump Bandaríkjaforseti virðist hafa gengist við því að hungursneyð ríki nú á Gasa og sent þau skilaboð til Ísraelsstjórnar að hleypa hjálpargögnum óhindrað inn á svæðið.

Þetta kom fram á blaðamannafundi þegar Trump fundaði með Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands í gær, en síðarnefndi er sagður hafa lagt nokkurn þrýsting á Trump varðandi Gasa.

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, hafði neitað því fyrr um daginn að Ísraelar væru að stuðla að hungursneyð á Gasa og vildi raunar ekki viðurkenna að hungursneyð ríkti á svæðinu yfir höfuð.

Trump sagði Ísrael hins vegar „bera mikla ábyrgð“ á stöðu mála.

Trump og Starmer ræddu meðal annars Gasa og Úkraínu.epa/Tolga Akmen

„Ég veit það ekki,“ svaraði forsetinn, spurður að því hvort hann væri sammála afstöðu Netanyahu. „Ekki sérstaklega, miðað við það sem ég sé í sjónvarpinu, því þessi börn virðast mjög hungruð.“

Þá bætti hann síðar við: „Við getum bjargað mikið af fólki, einhverjum af þessum börnum. Þetta er alvöru hungursneyð; ég sé það og þú getur ekki feikað þetta. Þannig að við ætlum að blanda okkur meira í málið.“

Trump sagðist myndu ræða það við Netanyahu, næst þegar þær ættu samtal, að Ísraelsmenn ættu að hleypa öllum þeim matvælum sem til væru inn á svæðið.

Forsetinn gagnrýndi einnig Hamas fyrir að hafa ekki sleppt þeim gíslum sem enn eru í haldi samtakanna og sagði þau hafa verið afar erfið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×