Innlent

Eftir­minni­legasta augna­blikið á ferlinum: „Hann sat á móti mér nokkuð rauður og þrútinn og hvæsti“

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Markaðurinn helgarefni Seðlabanki Íslands óvænt stýrivaxtahækkun Davíð Oddsson Eiríkur Guðnason Ingimundur Friðrikss Arnór Hrunið siðvæðing stjórnmálanna
Markaðurinn helgarefni Seðlabanki Íslands óvænt stýrivaxtahækkun Davíð Oddsson Eiríkur Guðnason Ingimundur Friðrikss Arnór Hrunið siðvæðing stjórnmálanna

Það líður varla mánuður án þess að fólk nálgist Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi leiðtoga Jafnaðarmanna, og rifji upp með honum bráðfyndið augnablik í Kryddsíldinni árið 2002 þegar þeim Össuri og Davíð Oddssyni, fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins, lenti saman og ásakanir um að vera dóni gengu á víxl við mikla kátínu hinna við háborðið.

Í tilefni þess að fréttastofan fagnar í ár 35 ára sjónvarpsafmæli þá var brugðið á það ráð að leita til nokkurra vel valinna gesta Kryddsíldar í gegnum árin til að rifja upp bestu og eftirminnilegustu atriði þáttanna í áranna rás. Þess skal getið að Kryddsíld er eldri en 35 ára því hún hóf göngu sína í útvarpinu á Bylgjunni árið 1986. Össur Skarphéðinsson var einn þeirra sem þáði boð um að deila með áhorfendum Íslands í dag sínu eftirminnilegasta augnabliki frá því hann var fastagestur í Kryddsíld og það stóð ekki á svörum.

„Það var líkast til Kryddsíldin þar sem við Davíð næstum því slógumst, allavega okkur lenti saman í orðaglammi út af köpuryrðum sem hann hafði látið falla um fjarstadda konu sem var reyndar upp úr standandi í mínum flokki og svilkona mín, og ég svaraði í sömu mynt og lét hann ekkert eiga inni hjá mér og það endaði með því að hann sat á móti mér, nokkuð rauður og þrútinn og hvæsti þú ert dóni Össur! Og ég auðvitað svaraði beint á móti, þú ert sjálfur dóni Davíð. Þetta var eftirminnilegasta augnablikið, ekki bara á mínum ferli heldur í sögu Kryddsíldarinnar. Enn í dag líður ekki sá mánuður að það komi ekki eitthvað fólk og rifji þetta upp, einkum í kringum áramótin.“

Vígamaðurinn að vestan þolir engann moðreyk

Össur rifjar upp að enginn hafi komist upp með neinn moðreyk í settinu hjá Heimi Má þegar hann var þáttastjórnandi Kryddsíldar og kallar hann „vígamanninn að vestan.“Vísir/Vilhelm

Össuri fannst mikilvægt að ákveðið samhengi kæmi fram á meðan við rifjum upp gamla tíma í Kryddsíld en hann segir að þáttastjórnendur á hverjum tíma hafi haft mikið um það að segja hvers konar andrúmsloft ríkti við borðið. Þannig hafi Kryddsíld farið í gegnum nokkra fasa, allt eftir því hver stjórnaði á hverjum tíma.

„Þetta byrjaði með Heimi Má, sem var auðvitað vígamaður að vestan og vildi brauð og leika og spurði mjög hvassra spurninga og menn komust ekkert upp með neinn moðreyk. Þá voru þetta svona alvöru umræður.“

Honum fannst þá Kryddsíldin breytast í hálfgert jólaboð þegar hún var við stjórnvölinn í þættinum.

„Menn voru mikið spurðir út í það hvernig þeir væru á jólunum, hvað þeir gerðu, hvort þeir bökuðu og hvað þeir borðuðu og allir voru frekar huggulegir hver við annan.“

Bjórinn flæddi og hákarlinn kynntur til leiks

Loks var það Sigmundur Ernir. „Sá góði drengur, og undir hans stjórn þá breyttist þetta eiginlega í áramótapartí. Bjórinn, sem hafði sést örlítið, flæddi stríðum straumum og svo var kominn hákarl og menn borða náttúrulega ekki hákarl án þess að hafa brennivin með þannig að það var staup fyrir þá sem vildu. Góðir starfsmenn stöðvarinnar gengu um beina þegar myndavélin var ekki á þeim og fylltu í staup hjá þeim sem vildu fá sér svolítið af brennivíni.“

Hann segir að þátturinn þar sem þeir Davíð lentu saman hafi verið mjög í anda Kryddsíldar Sigmundar Ernis.

„Við vorum báðir kannski búnir að fá okkur svolítið af hákarli og með því, og rétt að segja það, eins og ég hef aldrei vikist undan að segja, auðvitað vorum við dálítið öls við pel þegar þetta gerðist og það markaði þessi samskipti okkar. Yfirleitt í þessum áramótapartíum Sigmundar Ernis þá kvöddust allir miklir vinir og föðmuðust en mig minnir að við Davíð höfum nú ekki faðmast mikið eftir þessa kryddsíld en þetta voru líka dálítið sérstakar aðstæður.“

Segir Davíð hafa verið úfinn í skapinu þennan dag

Gengi flokkanna í skoðanakönnunum á þessum tíma hafi mjög litað andrúmsloftið í þættinum.

„Ég var formaður Samfylkingarinnar og hún fór með himinskautum og var að rísa mjög hratt og Sjálfstæðisflokknum líkaði það auðvitað ekki og hann var hræddur við okkur og sjálfur vorum við í stöðugum útistöðum við Sjálfstæðisflokkinn því á þeim tíma hafði hann dálítið skýra stefnu, þeir voru nýfrjálshyggjumenn og miklir einkavæðingarsinnar þannig að við urðum að svara þeim mjög fast. Þetta leiddi til þess að Davíð þegar hann kom þarna inn í þennan þátt þá var hann úfinn í skapi, það hafði – held ég – nýlega komið skoðanakönnun sem sýndi að við vorum enn á uppleið, og sannarlega, eins og hans var háttur, hann ætlaði að reyna að setja þennan mann sem var foringi jafnaðarmanna „på plads“ með því að sýna að hann kæmist ekki upp með neinn moðreyk við hann en ég var náttúrulega ekki byrjandi á þeim vígvelli þannig að þannig fór þetta.“

Kryddsíld ársins 2025 verður í beinni útsendingu á Sýn á morgun á slaginu 14.00, ekki missa af henni.


Tengdar fréttir

Kryddsíld fagnar afmæli og öllum er boðið

Það styttist óðum í hina árlegu Kryddsíld á gamlársdag þangað sem formenn flokkanna á Alþingi mæta til að gera upp árið. Þátturinn er í beinni útsendingu á Sýn klukkan 14 og aðgengilegur öllum landsmönnum. Um er að ræða 35 ára afmæli þáttarins í sjónvarpi. Stiklan fyrir þáttinn í ár er komin í birtingu og má sjá neðst í fréttinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×