Sport

Norskur ólympíumedalíuhafi látinn eftir að eldingu laust í höfuð honum

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Hann var aðeins 49 ára gamall.
Hann var aðeins 49 ára gamall. Wikipedia

Audun Grønvold, norskur ólympíumedalíuhafi á skíðum, lést í nótt af sárum sínum eftir að hafa orðið fyrir eldingu við sumarbústað sinn á laugardaginn sem leið. Hann var 49 ára gamall.

Audun Grønvold vann bronsverðlaun á Ólympíuleikunum 2010. Hann var í sumarfríi með fjölskyldu sinni í sumarbústað í Noregi þegar eldingu laust niður í höfuðið á honum.

Kristin Tandberg Haugsjå eiginkona hans greinir frá sorgartíðindunum.

„Audun, ástin í lífi mínu og besti vinur til tuttugu ára, í dag fórst þú frá okkur. Það sem hófst sem notalegt sumarfrí endaði á laugardaginn síðasta með því að þú varðst fyrir eldingu á meðan við vorum úti við bústaðinn okkar. Þrátt fyrir að hafa fengið snögga meðhöndlun og varst fluttur á sjúkrahús, lést þú af sárum þínum í nótt. Sanna, Selma, William og ég munum bera þig í hjörtum okkar. Söknuðurinn eftir þér er mikill,“ skrifar hún í færslu á samfélagsmiðlum.

Audun átti þrjú börn, þau fyrrnefndu Sanna, Selma og William. Audun átti glæstan feril í skíðamennsku og var Noregsmeistari á skíðum árin 2003 og 2004 en breytti um stefnu árið 2004. Þá hóf hann að iðka svokallað skicross og varð fljótt í hópi þeirra bestu í heimi.

Árið 2010 fór hann á Ólympíuleikana í Vancouver í Kanada og þar vann hann til bronsverðlauna í greininni. Sama ár vann hann jafnframt Noregsmeistaraverðlaun í sömu grein.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×