Að flokka hver vinnur og hver tapar Tryggvi Rúnar Brynjarsson skrifar 7. júlí 2025 12:03 Fyrir helgi rakst ég á frétt um langhlaupara sem varð fyrir því óláni að taka þrjú skref út fyrir keppnisbrautina og vera af þeim sökum dæmdur úr leik. Ákvörðunin að dæma hann úr leik vakti sýnilega hörð viðbrögð – bæði frá hlauparanum sjálfum og öðrum. Eitthvað annarlegt hlýtur að hafa legið þar að baki, er okkur sagt. Sá sem hér átti í hlut mun vera 68-faldur Íslandsmeistari í langhlaupum. Ekki er ég hlaupari sjálfur og þekki ekki þennan margfalda meistara. Þó varð mér hugsað: Hvers vegna skiptir máli að hafa tapað einu sinni? Þrátt fyrir það vita allir sem vilja vita að hann er sá allra besti í sinni grein. Hvaða máli skiptir þá þessi eini „dómur“? Þar sem ég íhugaði þetta rifjaðist upp fyrir mér ein elsta frásögn sem mannkynið á um íþróttakeppni – og nú bið ég lesendur að sýna mér þolinmæli – en það mun vera atriði úr Ilíonskviðu Hómers um kappreiðar, haldnar til heiðurs Patróklosi, elskhuga Akkilesar sem fallið hafði í bardaga. Í þeirri sögu hlutast guðirnir til í keppninni, skakka leikinn, ýta meira að segja keppanda út af brautinni – bókstaflega. En það sem veldur uppnámi er ekki íhlutun guðanna – sem gera auðvitað það sem þeim sýnist – heldur framganga mannanna. Antílokkus, sem er í þriðja sæti, keyrir svo nærri hestavagni Menelásar, þá í öðru sæti, að sá síðarnefndi neyðist til að hægja á sér. Antílokkus kemst þannig fram úr Menelási og heldur forskoti sínu til loka keppninnar, þrátt fyrir að hans hestar séu hægari, eins og Hómer segir okkur, en hestar Menelásar. Loks kemur að því að keppendurnir sækja sín verðlaun. Fyrir fyrsta sætið átti að fást þræll, meri fyrir annað, en fyrir það þriðja einhvers konar ketill. Þegar hér er komið sögu lætur Menelás í ljós vanþóknun sína á niðurstöðunum og sakar Antílokkus um óheiðarleika. Akkiles – skipuleggjandi leikanna – biður Antílokkus í kjölfarið um að sverja þess eið að hafa ekki svindlað. Antílokkus skautar framhjá beiðni Akkilesar, en lýsir auðmjúklega yfir: „Þú ert vissulega eldri og betri, Menelás. Ég er ungur. Æskan gerir mistök. Taktu hana“ – merina semsagt – „og jafnvel meira til.“ Síst af öllu vill Antílokkus glata virðingu og „ást“ Menelásar, segir hann. Lesendur verða að afsaka öll þessi smáatriði. Ég get illa hamið mig þegar jafn merkileg heimild er annars vegar. Mér hefur einfaldlega ekki tekist betur en svo að klippa hana til þannig að tengingin við okkar samtíma verði nægilega glögg. Fræðimenn hafa bent á að það sé verðlaunaafhendingin sem í raun myndar kjarnann í frásögn Hómers um kappreiðarnar. Keppnin sjálf er aðeins leikrit, sviðsetning á þeirri röð og reglu, þeim sannleika, sem liggur fyrir frá upphafi. Við vitum raunar allt sem máli skiptir áður en vagnarnir taka á rás. Hvers kyns truflanir – hvort sem er frá keppendum sjálfum eða guðunum – eru því ekki annað en tilraunir til að hylja sannleikann sem öllum er þó ljós. Eftirfarandi spurning verður því áleitin: Hvernig á að endurreisa sannleikann – hina raunverulegu goggunarröð keppendanna – þegar henni hefur verið raskað með óheiðarlegum hætti? Michel Foucault, sem sannarlega telst ofarlega í goggunarröð fræðimanna 20. aldarinnar, gengur enn lengra. Hann leggur til að það sé nákvæmlega þessi dramatík – þar sem sannleikurinn um það hver er sterkastur og mestur er fyrirfram gefinn, en þarf að vera staðfestur í formi einhvers konar keppni eða einvígis – sem liggur við rætur sjálfs réttarfars Vesturlanda. Þarna fyrst finnur hann hugmyndina um að andstæðingar etji kappi frammi fyrir dómara ekki til að komast að sannleikanum, heldur til að sviðsetja hann. Ef við snúum okkur aftur að hlaupabrautinni í Reykjavík þá er augljóst að þeim mesta og besta var þar synjað um staðfestingu þess efnis. Þar með má segja að sjálfum sannleikanum hafi verið hafnað, á vafasömum grundvelli í þokkabót, og við sitjum uppi með úrslit sem endurspegla afbakaða mynd af veruleikanum. Við vitum hver átti að fá merina – en hún fór annað. Þetta, hugsa ég, hlýtur að útskýra það mikla uppnám sem uppátæki dómarans á hlaupabrautinni olli. Þannig speglar líka hið smáa mál hlauparans að vissu leyti stærri veruleika sem blasir við samfélaginu. Ég er að hugsa um þann gríðarstóra sess sem fjárhættuspila- og veðmálaiðnaðurinn hefur tekið sér í vestrænum samfélögum – þvert á aldur, stéttir og búsetu (en þó síður kyn). Getspárnar eru orðnar hinar nýju véfréttir; þær tjá okkur hvað muni gerast áður en það gerist – gjarnan á grundvelli þess hversu miklir peningar hafa verið lagðir undir tiltekna sviðsmynd. Þeim mun meiri peningar sem eru í spilinu, þeim mun nákvæmari mun spáin vera. Þannig endurspeglar veðmálamarkaðurinn ekki bara skoðanir fólks – hann framleiðir ákveðna tilfinningu um hvað er satt og rétt. Enda má ætla að fólk leggi ekki peninginn sinn að baki bara hverju sem er. Það telur sig væntanlega búa yfir einhverri vitneskju um það sem veðjað er á. (Að þessu leyti sker getspáin sig frá systur sinni, spilakassanum.) Líkurnar á að 68-faldur Íslandsmeistari í langhlaupum sigri í næsta hlaupi hljóta t.d. að teljast mjög miklar – svo miklar í raun að þær mætti kalla skýlausan sannleika. Þegar mannskepnan er annars vegar breytist ekkert á sama tíma og öll umgjörð breytist. Nú er það markaðurinn sem við treystum á til að segja okkur hver er sterkastur og bestur. Þegar niðurstöður stríða svo gegn væntingum, þegar hlutirnir fara ekki eins og þeir áttu að fara, er ekki skrýtið að fólk upplifi það sem ranglæti og missi stjórn á skapi sínu. Lífið verður ein rússíbanareið og alls óvíst hvort menn komast af vagninum í heilu lagi. Skuggahliðar íþróttanna eru þannig ekki bara innbyggðar í fjárhættuspilaiðnaðinn; þar finna þær sínar ýktustu og alvarlegustu myndir. Þrátt fyrir að sú sé raunin krefjast ríkisbatterí á borð við Happdrætti Háskóla Íslands þess að fá til sín enn stærri sneiðar af þessum eitraða iðnaði. Á þeim bæjum er takmörkuð samfélagssýn. Viljinn til gróða er það eina sem sést. Utan þeirra sjálfra er aldrei spurt hverjir raunverulega tapa og til hvaða ráða mætti grípa áður en menn verða fyrir óafturkræfum skaða. Samfélagið er þannig sjálft bersýnilega farið langt út af brautinni. Það er kominn tími til að girða hana af. Höfundur er doktorsnemi í sagnfræði við Háskóla Íslands Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Tryggvi Rúnar Brynjarsson Mest lesið Glæpur eða gjörningur? Sigfús Aðalsteinsson,Baldur Borgþórsson Skoðun Dýrkeypt vinavæðing á vakt lögreglustjórans Ólafur Hauksson Skoðun Börn í biðröð hjá Sýslumanni Helga Vala Helgadóttir Skoðun Svöng Eflingarbörn Guðmundur Ingi Þóroddsson Skoðun Úr myrkri í von – Saga Grindvíkinga Bryndís Gunnlaugsdóttir Skoðun COP30, Ísland, lífsskilyrði og loftslagsvá Kamma Thordarson Skoðun Orkuskiptin heima og að heiman Eiríkur Hjálmarsson Skoðun Þak yfir höfuðið er mannréttindi ekki forréttindi Kristján Þórður Snæbjarnarson Skoðun Annar í feðradegi…og ég leyfi mér að dreyma Ólafur Grétar Gunnarsson Skoðun Fúsk eða laumuspil? Eva Hauksdóttir Skoðun Skoðun Skoðun Pops áttu p? Benedikt S. Benediktsson skrifar Skoðun Ríkisstjórnin hækkar leigu stúdenta Arent Orri J. Claessen,Viktor Pétur Finnsson skrifar Skoðun Annar í feðradegi…og ég leyfi mér að dreyma Ólafur Grétar Gunnarsson skrifar Skoðun Orkuskiptin heima og að heiman Eiríkur Hjálmarsson skrifar Skoðun Fyrir hvað stöndum við? Brynja Hallgrímsdóttir skrifar Skoðun COP30, Ísland, lífsskilyrði og loftslagsvá Kamma Thordarson skrifar Skoðun Dýrkeypt vinavæðing á vakt lögreglustjórans Ólafur Hauksson skrifar Skoðun Svöng Eflingarbörn Guðmundur Ingi Þóroddsson skrifar Skoðun Úr myrkri í von – Saga Grindvíkinga Bryndís Gunnlaugsdóttir skrifar Skoðun Þak yfir höfuðið er mannréttindi ekki forréttindi Kristján Þórður Snæbjarnarson skrifar Skoðun Glæpur eða gjörningur? Sigfús Aðalsteinsson,Baldur Borgþórsson skrifar Skoðun Við erum að vinna fyrir þig Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir skrifar Skoðun Börn í biðröð hjá Sýslumanni Helga Vala Helgadóttir skrifar Skoðun Sofandaháttur Íslands í nýrri iðnbyltingu Sigvaldi Einarsson skrifar Skoðun Byggjum fyrir síðustu kaupendur Friðjón R. Friðjónsson skrifar Skoðun Það sem við segjum er það sem við erum Guðný Björk Pálmadóttir skrifar Skoðun Óásættanleg bið, fordómar og aðrar hindranir í kerfinu Helga F. Edwardsdóttir skrifar Skoðun Má bjóða þér einelti? Linda Hrönn Bakkmann Þórisdóttir skrifar Skoðun Fyrir hverja eru ákvarðanir teknar? Helga Þórisdóttir skrifar Skoðun Þá var „útlendingur“ ekki sá sem kom frá framandi heimsálfum Martha Árnadóttir skrifar Skoðun Kann barnið þitt að hjóla? Sara Björg Sigurðardóttir skrifar Skoðun Er ég Íslendingur? En þú? Jón Pétur Zimsen skrifar Skoðun Samkeppni um hagsæld Ríkarður Ríkarðsson skrifar Skoðun Inngilding – eða aðskilnaður? Jasmina Vajzović Crnac skrifar Skoðun Húsnæðispakki fyrir unga fólkið og framtíðina Anna María Jónsdóttir skrifar Skoðun Þegar úrvinnsla eineltismála klúðrast Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir skrifar Skoðun Virðum réttindi intersex fólks Daníel E. Arnarsson skrifar Skoðun Ha ég? Já þú! Ekki satt! Hver þá? Arna Sif Ásgeirsdóttir skrifar Skoðun Samfélagslegur spegill lögreglumannsins Sigurður Árni Reynisson skrifar Skoðun Rétt klukka síðan 1968: Höldum í síðdegisbirtuna Erlendur S. Þorsteinsson skrifar Sjá meira
Fyrir helgi rakst ég á frétt um langhlaupara sem varð fyrir því óláni að taka þrjú skref út fyrir keppnisbrautina og vera af þeim sökum dæmdur úr leik. Ákvörðunin að dæma hann úr leik vakti sýnilega hörð viðbrögð – bæði frá hlauparanum sjálfum og öðrum. Eitthvað annarlegt hlýtur að hafa legið þar að baki, er okkur sagt. Sá sem hér átti í hlut mun vera 68-faldur Íslandsmeistari í langhlaupum. Ekki er ég hlaupari sjálfur og þekki ekki þennan margfalda meistara. Þó varð mér hugsað: Hvers vegna skiptir máli að hafa tapað einu sinni? Þrátt fyrir það vita allir sem vilja vita að hann er sá allra besti í sinni grein. Hvaða máli skiptir þá þessi eini „dómur“? Þar sem ég íhugaði þetta rifjaðist upp fyrir mér ein elsta frásögn sem mannkynið á um íþróttakeppni – og nú bið ég lesendur að sýna mér þolinmæli – en það mun vera atriði úr Ilíonskviðu Hómers um kappreiðar, haldnar til heiðurs Patróklosi, elskhuga Akkilesar sem fallið hafði í bardaga. Í þeirri sögu hlutast guðirnir til í keppninni, skakka leikinn, ýta meira að segja keppanda út af brautinni – bókstaflega. En það sem veldur uppnámi er ekki íhlutun guðanna – sem gera auðvitað það sem þeim sýnist – heldur framganga mannanna. Antílokkus, sem er í þriðja sæti, keyrir svo nærri hestavagni Menelásar, þá í öðru sæti, að sá síðarnefndi neyðist til að hægja á sér. Antílokkus kemst þannig fram úr Menelási og heldur forskoti sínu til loka keppninnar, þrátt fyrir að hans hestar séu hægari, eins og Hómer segir okkur, en hestar Menelásar. Loks kemur að því að keppendurnir sækja sín verðlaun. Fyrir fyrsta sætið átti að fást þræll, meri fyrir annað, en fyrir það þriðja einhvers konar ketill. Þegar hér er komið sögu lætur Menelás í ljós vanþóknun sína á niðurstöðunum og sakar Antílokkus um óheiðarleika. Akkiles – skipuleggjandi leikanna – biður Antílokkus í kjölfarið um að sverja þess eið að hafa ekki svindlað. Antílokkus skautar framhjá beiðni Akkilesar, en lýsir auðmjúklega yfir: „Þú ert vissulega eldri og betri, Menelás. Ég er ungur. Æskan gerir mistök. Taktu hana“ – merina semsagt – „og jafnvel meira til.“ Síst af öllu vill Antílokkus glata virðingu og „ást“ Menelásar, segir hann. Lesendur verða að afsaka öll þessi smáatriði. Ég get illa hamið mig þegar jafn merkileg heimild er annars vegar. Mér hefur einfaldlega ekki tekist betur en svo að klippa hana til þannig að tengingin við okkar samtíma verði nægilega glögg. Fræðimenn hafa bent á að það sé verðlaunaafhendingin sem í raun myndar kjarnann í frásögn Hómers um kappreiðarnar. Keppnin sjálf er aðeins leikrit, sviðsetning á þeirri röð og reglu, þeim sannleika, sem liggur fyrir frá upphafi. Við vitum raunar allt sem máli skiptir áður en vagnarnir taka á rás. Hvers kyns truflanir – hvort sem er frá keppendum sjálfum eða guðunum – eru því ekki annað en tilraunir til að hylja sannleikann sem öllum er þó ljós. Eftirfarandi spurning verður því áleitin: Hvernig á að endurreisa sannleikann – hina raunverulegu goggunarröð keppendanna – þegar henni hefur verið raskað með óheiðarlegum hætti? Michel Foucault, sem sannarlega telst ofarlega í goggunarröð fræðimanna 20. aldarinnar, gengur enn lengra. Hann leggur til að það sé nákvæmlega þessi dramatík – þar sem sannleikurinn um það hver er sterkastur og mestur er fyrirfram gefinn, en þarf að vera staðfestur í formi einhvers konar keppni eða einvígis – sem liggur við rætur sjálfs réttarfars Vesturlanda. Þarna fyrst finnur hann hugmyndina um að andstæðingar etji kappi frammi fyrir dómara ekki til að komast að sannleikanum, heldur til að sviðsetja hann. Ef við snúum okkur aftur að hlaupabrautinni í Reykjavík þá er augljóst að þeim mesta og besta var þar synjað um staðfestingu þess efnis. Þar með má segja að sjálfum sannleikanum hafi verið hafnað, á vafasömum grundvelli í þokkabót, og við sitjum uppi með úrslit sem endurspegla afbakaða mynd af veruleikanum. Við vitum hver átti að fá merina – en hún fór annað. Þetta, hugsa ég, hlýtur að útskýra það mikla uppnám sem uppátæki dómarans á hlaupabrautinni olli. Þannig speglar líka hið smáa mál hlauparans að vissu leyti stærri veruleika sem blasir við samfélaginu. Ég er að hugsa um þann gríðarstóra sess sem fjárhættuspila- og veðmálaiðnaðurinn hefur tekið sér í vestrænum samfélögum – þvert á aldur, stéttir og búsetu (en þó síður kyn). Getspárnar eru orðnar hinar nýju véfréttir; þær tjá okkur hvað muni gerast áður en það gerist – gjarnan á grundvelli þess hversu miklir peningar hafa verið lagðir undir tiltekna sviðsmynd. Þeim mun meiri peningar sem eru í spilinu, þeim mun nákvæmari mun spáin vera. Þannig endurspeglar veðmálamarkaðurinn ekki bara skoðanir fólks – hann framleiðir ákveðna tilfinningu um hvað er satt og rétt. Enda má ætla að fólk leggi ekki peninginn sinn að baki bara hverju sem er. Það telur sig væntanlega búa yfir einhverri vitneskju um það sem veðjað er á. (Að þessu leyti sker getspáin sig frá systur sinni, spilakassanum.) Líkurnar á að 68-faldur Íslandsmeistari í langhlaupum sigri í næsta hlaupi hljóta t.d. að teljast mjög miklar – svo miklar í raun að þær mætti kalla skýlausan sannleika. Þegar mannskepnan er annars vegar breytist ekkert á sama tíma og öll umgjörð breytist. Nú er það markaðurinn sem við treystum á til að segja okkur hver er sterkastur og bestur. Þegar niðurstöður stríða svo gegn væntingum, þegar hlutirnir fara ekki eins og þeir áttu að fara, er ekki skrýtið að fólk upplifi það sem ranglæti og missi stjórn á skapi sínu. Lífið verður ein rússíbanareið og alls óvíst hvort menn komast af vagninum í heilu lagi. Skuggahliðar íþróttanna eru þannig ekki bara innbyggðar í fjárhættuspilaiðnaðinn; þar finna þær sínar ýktustu og alvarlegustu myndir. Þrátt fyrir að sú sé raunin krefjast ríkisbatterí á borð við Happdrætti Háskóla Íslands þess að fá til sín enn stærri sneiðar af þessum eitraða iðnaði. Á þeim bæjum er takmörkuð samfélagssýn. Viljinn til gróða er það eina sem sést. Utan þeirra sjálfra er aldrei spurt hverjir raunverulega tapa og til hvaða ráða mætti grípa áður en menn verða fyrir óafturkræfum skaða. Samfélagið er þannig sjálft bersýnilega farið langt út af brautinni. Það er kominn tími til að girða hana af. Höfundur er doktorsnemi í sagnfræði við Háskóla Íslands