Komir þú á Grænlands grund Gunnar Pálsson skrifar 9. apríl 2025 07:31 Tæplega hefur nokkur Íslendingur lýst þeim taugum sem hann bar til Grænlands betur en rímnaskáldið Sigurður Breiðfjörð. Kannski rann honum blóðið til skyldunnar, minnugur þess að annar Breiðfirðingur, Eiríkur rauði, hafði byggt landið forðum. Á heimsiglingu suður fyrir Hvarf árið 1834, að loknum fjórum árum með Grænlendingum, leit hann til baka með söknuði: Það væri vert ég væti brá að viðskilnaði okkrum, því ég undi yður hjá öðrum betur en nokkrum. Tveimur öldum síðar hefur viðskilnaður við Grænland aftur komið róti á íslenskt hugarfar. Að þessu sinni eiga þó aðrir í hlut. Eftir margendurteknar yfirlýsingar Bandaríkjaforseta um að hann hyggist yfirtaka þessa stærstu eyju veraldar, er það danska konungsveldið sem nú óttast að verða viðskila við Grænland. Einnig það gæti þó augljóslega komið við Ísland. Hætti Bandaríkin að virða fullveldi ríkja og alþjóðalög er enginn öruggur og allra síst óvopnaður nágranni. Eða svo er látið í veðri vaka. Fáum blandast hugur um að ummæli Bandaríkjaforseta stingi í stúf við þær siðvenjur sem lengst af hafa verið í heiðri hafðar í vestrænu varnarsamstarfi. Svona gerir maður ekki, var haft eftir dönskum ráðherra og lái honum hver sem vill. En þótt viðbrögðin séu skiljanleg, er ekki öll sagan þar með sögð. Hneykslun bandamanna má ekki verða til þess að athyglin beinist að umbúðunum frekar en innihaldinu og að birtingarmynd þeirra breytinga sem nú eru að eiga sér stað verði aðalatriðið en ekki ástæðurnar fyrir þeim. Festu Bandaríkin sér Grænland væri það ekki í fyrsta sinn sem eignarhald eyjarinnar skipti um hendur í trássi við fyrri eigendur. Þegar Noregur varð hluti danska konungdæmisins með stofnun Kalmarsambandsins á 14. öld, hafði Grænland lengi verið norsk hjálenda, líkt og Ísland. Í kjölfar Napóleonsstríðanna 1814 voru Danir neyddir til að láta Noreg af hendi við Svíþjóð, en héldu eftir hjálendum Noregs. Ein afleiðingin varð sú að fullveldi Noregs yfir Grænlandi færðist yfir til Danmerkur, án þess að Norðmenn, hvað þá sjálfir innbyggjar Grænlands, fengju um það ráðið. Hér var það ólán Noregs, líkt og Danmerkur, að hafa veðjað á rangan hest í Napóleonsstríðunum og þurft fyrir vikið að sætta sig við réttvísi sigurvegaranna. Eins og oft vill verða, réðu valdahlutföll því að stríðunum loknum hvernig skipaðist til um friðinn, en tilraunir Norðmanna til að endurvekja kröfu sína til hluta Grænlands fyrir dómstólum á tuttugustu öld reyndust árangurslausar. Hvort sem Bandaríkjaforseti tekur lagalegt tilkall Danmerkur til Grænlands alvarlega eða ekki, hefur áhugi Bandaríkjanna á Grænlandi frá upphafi lotið öðrum rökum. Hann er heldur ekki nýr af nálinni. Frá árinu 1867 hefur það gerst í embættistíð a.m.k. fjögurra forseta að rætt hafi verið um kaup á Grænlandi í Bandaríkjunum, áður en Trump tók upp þráðinn á fyrra tímabili sínu í embætti 2019. Bandaríkin höfðu raunar ekki látið við það sitja að falast eftir Grænlandi, heldur höfðu þau hernumið það 1940 í því skyni að verða fyrri til en Þjóðverjar sem þá höfðu þegar ruðst til ríkis í Danmörku. Þessa hernaðaraðgerð sína réttlættu Bandaríkin með vísan til svokallaðrar Monroe-kenningar, en undir yfirskyni hennar hafa Bandaríkin áskilið sér rétt til að bregðast við afskiptum erlendra ríkja af amerísku áhrifasvæði og var þetta í fyrsta skipti sem kenningin kom til framkvæmda innan landsvæðis Evrópu. Til að deyfa höggið var Dönum, sem ekki höfðu samþykkt landtökuna, boðið að gera tvíhliða samkomulag um varnir Grænlands og var það undirritað 1941. Tíu árum síðar leysti varnarsamningur ríkjanna samkomulagið af hólmi, en þá höfðu Danir gefist upp á tilraunum sínum til að fá Bandaríkin til að yfirgefa Grænland. Það er á grundvelli þessa varnarsamnings sem Bandaríkin hafa lengst af staðið skil á hinni raunverulegu baktryggingu fyrir vörnum Grænlands, en samkvæmt samningnum geta Bandaríkin, þegar svo ber undir, óskað eftir því að fjölga í herliði sínu á eynni eða koma þar fyrir auknum búnaði. Lengi vel höfðu Bandaríkin þúsundir liðsmanna á Grænlandi og a.m.k. sautján bækistöðvar, en hafa hin síðustu ár rekið þar eina herstöð, geimstöðina í Pituffik, með 200 manna starfsliði. Hefur stöðin gegnt mikilvægu loftvarna- og eftirlitshlutverki fyrir Bandaríkin og önnur ríki á Atlantshafssvæðinu. Í ljósi þessarar löngu sögu, er eðlilegt að spurt sé af hverju Bandaríkin hafi einmitt nú ákveðið að ganga skrefinu lengra en þeir hafa áður gert gagnvart dönskum og grænlenskum bandamönnum. Svarið við þeirri spurningu er tvíþætt. Með þeim breytingum sem orðið hafa á svæðinu í kjölfar loftslagsbreytinga - samdrætti ísþekjunnar og aukinni skipaumferð og auðlindanýtingu - beinist kastljósið nú sem aldrei fyrr að norðurslóðum. Jafnvel þótt landafræðileg lega Grænlands hafi lengi skipt Bandaríkin máli af þjóðaröryggisástæðum, liggur Grænland nú á krossgötum hervelda sem áskilja vilja sér aukið svigrúm til athafna á svæðinu. Ásælist keppinautar Bandaríkjanna Grænland, er þeim til efs að danska konungsríkið, með innan við sex milljón íbúa, hafi þá hernaðarlegu burði sem þarf til að hrinda ásókninni. Að þessu leyti mætti halda því fram að staða Grænlands endurspegli í hnotskurn þær breytingar sem nú eru að verða á stóra sviðinu. Ólíkt því sem við átti eftir hrun Sovétríkjanna, þegar Bandaríkin stóðu eftir sem eina risaveldið, deila þau nú sviðinu með öðrum, ekki síst Kína og Rússlandi. Það sem meira er, þessi tvö stórveldi hafa á undanförnum árum tekið höndum saman um að veita Vesturlöndum vaxandi hernaðarlegt og viðskiptalegt viðnám. Eftir að átökin hófust í Úkraínu, hafa Rússar beint sjónum sínum frá Evrópu til Asíu, einkum Kína og Indlands, sem þeir selja bæði orku og jarðefni sem unnin eru á norðurslóðum. Á móti hafa Kínverjar fært sér tækifærið í nyt og sóst eftir fótfestu, m.a. meðfram ströndum Íshafsins og á Grænlandi, þar sem þeir hafa sýnt bæði mannvirkjagerð og námavinnslu vaxandi áhuga, en talið er að Grænland hafi yfir að ráða 25 af 34 eftirsóttustu jarðefnum veraldar. Engan skyldi undra ef Bandaríkjamenn vildu bregða fæti fyrir þessa tangarsókn Kínverja og helst fá aðgang að auðlindum Grænlands fyrir sig sjálfa. E.t.v. veldur þó meiru, að Bandaríkin telja sér ógn standa af Kína og hefur varnarmálaráðherrann sagt þau þurfa að búa sig undir mögulegt stríð við Kínverja á næstu árum. Ef það er rétt, hníga flest rök að því að Bandaríkin líti svo á að þeirra eigin varnir verði ekki með góðu móti aðskildar vörnum Grænlands. Á sama hátt og varnarsamningur Íslands við Bandaríkin hefur gert íslensku þjóðinni kleift að standa vörð um fullveldi sitt, virðist lítil ástæða, hvað sem öllum væringum líður, til að ætla annað en að hinn jafngamli varnarsamningur Danmerkur við Bandaríkin muni enn um sinn þjóna hlutverki sínu. Svo lengi sem það ekki breytist, verður líkast til einhver bið á því að Danir væti brá yfir viðskilnaði við Grænland, landinu sem Eiríkur gaf nafn og þar sem Íslendinga öldruð bein, svo aftur sé vitnað til rímnaskáldsins, áfram í grjóti sofa. Höfundur er fyrrverandi sendiherra Íslands, m.a. hjá NATO, Sameinuðu þjóðunum, CSCE og ESB. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Grænland Mest lesið Þorgerður í sömu vörn og varðstjórinn Tómas Þór Þórðarson Skoðun Láttu ekki svindla á þér við jólainnkaupin Inga María Backman Skoðun Duga aðgerðir ríkistjórnarinnar til að rífa fjölda eldri borgara úr fátæktargildrunni? Björn Snæbjörnsson Skoðun Þegar stórútgerðin gleypir allt – er kominn tími á norskar lausnir? Kjartan Sveinsson Skoðun Mamma fékk fjórar milljónir fyrir að eignast þig í apríl Guðfinna Kristín Björnsdóttir Skoðun Horfir barnið þitt á klám? Lísa Margrét Gunnarsdóttir Skoðun Óstaðsettir í hús Guðmunda G. Guðmundsdóttir Skoðun Túlkun gagna er ábyrgð Joanna Marcinkowska Skoðun 34 milljónir fyrir póstnúmerið Elliði Vignisson Skoðun „Hugsanleg áhrif“ Íslands innan ESB Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Skoðun Skoðun Jákvæð áhrif millilandaflugs til Akureyrar eru miklu meiri en þú heldur Lára Halldóra Eiríksdóttir skrifar Skoðun Fögnum degi sjúkraliða og störfum þeirra alla daga Alma D. Möller skrifar Skoðun Þegar stórútgerðin gleypir allt – er kominn tími á norskar lausnir? Kjartan Sveinsson skrifar Skoðun Óstaðsettir í hús Guðmunda G. Guðmundsdóttir skrifar Skoðun Flokkur fólksins hefur bætt hag aldraðra og öryrkja Sigurður Helgi Pálmason skrifar Skoðun Láttu ekki svindla á þér við jólainnkaupin Inga María Backman skrifar Skoðun Duga aðgerðir ríkistjórnarinnar til að rífa fjölda eldri borgara úr fátæktargildrunni? Björn Snæbjörnsson skrifar Skoðun Túlkun gagna er ábyrgð Joanna Marcinkowska skrifar Skoðun Lífsstílshljómkviðan: öndun í köldum potti Gunnar Salvarsson skrifar Skoðun Bandaríkjaher, upphaf og innleiðing vatnsúðakerfa Snæbjörn R Rafnsson skrifar Skoðun Sameinumst í að enda stafrænt ofbeldi gegn fötluðum konum Anna Lára Steindal skrifar Skoðun Er munur á trú og trúarbrögðum? Árni Gunnarsson skrifar Skoðun Hvaða einkennir góðan stjórnmálamann? Berglind Guðmundsdóttir skrifar Skoðun Samstarf og samhæfing á breiðum grunni þjóðaröryggis Víðir Reynisson skrifar Skoðun 10 tonn af textíl á dag Birgitta Stefánsdóttir,Freyja Pétursdóttir skrifar Skoðun Sjúkraliðar er fólkið sem skiptir máli Sandra B. Franks skrifar Skoðun Hversu ört getur höfuðborgin stefnt að breyttum ferðavenjum? Samúel Torfi Pétursson skrifar Skoðun Horfir barnið þitt á klám? Lísa Margrét Gunnarsdóttir skrifar Skoðun Frá friðarsjálfsblekkingu til raunverulegs öryggis Daði Freyr Ólafsson skrifar Skoðun Lestrarkunnátta barna batnar ekki með einni bók á hverja fimmtán nemendur Eydís Inga Valsdóttir skrifar Skoðun Þorgerður í sömu vörn og varðstjórinn Tómas Þór Þórðarson skrifar Skoðun Hver er staða fæðuöryggis á Íslandi? Hanna Katrín Friðriksson skrifar Skoðun „Hugsanleg áhrif“ Íslands innan ESB Hjörtur J. Guðmundsson skrifar Skoðun Frá friði til vígvæðingar: Höfnum nýrri varnar- og öryggisstefnu utanríkisráðherra Steinunn Þóra Árnadóttir,Einar Ólafsson skrifar Skoðun Þungaflutningar og vegakerfið okkar Haraldur Þór Jónsson skrifar Skoðun Stærsta öryggismál barna í dag eru samskipti, mörk og viðbrögð við grun um ofbeldi Arnrún María Magnúsdóttir skrifar Skoðun Stöðvum ólöglegan flutning barna Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir skrifar Skoðun Þegar Inga Sæland sendir reikninginn á næsta borð Einar Þorsteinsson skrifar Skoðun Erlendar rætur: Hornsteinn framfara, ekki ógn Nichole Leigh Mosty skrifar Skoðun Virðingarleysið meiðir Sigurbjörg Ottesen skrifar Sjá meira
Tæplega hefur nokkur Íslendingur lýst þeim taugum sem hann bar til Grænlands betur en rímnaskáldið Sigurður Breiðfjörð. Kannski rann honum blóðið til skyldunnar, minnugur þess að annar Breiðfirðingur, Eiríkur rauði, hafði byggt landið forðum. Á heimsiglingu suður fyrir Hvarf árið 1834, að loknum fjórum árum með Grænlendingum, leit hann til baka með söknuði: Það væri vert ég væti brá að viðskilnaði okkrum, því ég undi yður hjá öðrum betur en nokkrum. Tveimur öldum síðar hefur viðskilnaður við Grænland aftur komið róti á íslenskt hugarfar. Að þessu sinni eiga þó aðrir í hlut. Eftir margendurteknar yfirlýsingar Bandaríkjaforseta um að hann hyggist yfirtaka þessa stærstu eyju veraldar, er það danska konungsveldið sem nú óttast að verða viðskila við Grænland. Einnig það gæti þó augljóslega komið við Ísland. Hætti Bandaríkin að virða fullveldi ríkja og alþjóðalög er enginn öruggur og allra síst óvopnaður nágranni. Eða svo er látið í veðri vaka. Fáum blandast hugur um að ummæli Bandaríkjaforseta stingi í stúf við þær siðvenjur sem lengst af hafa verið í heiðri hafðar í vestrænu varnarsamstarfi. Svona gerir maður ekki, var haft eftir dönskum ráðherra og lái honum hver sem vill. En þótt viðbrögðin séu skiljanleg, er ekki öll sagan þar með sögð. Hneykslun bandamanna má ekki verða til þess að athyglin beinist að umbúðunum frekar en innihaldinu og að birtingarmynd þeirra breytinga sem nú eru að eiga sér stað verði aðalatriðið en ekki ástæðurnar fyrir þeim. Festu Bandaríkin sér Grænland væri það ekki í fyrsta sinn sem eignarhald eyjarinnar skipti um hendur í trássi við fyrri eigendur. Þegar Noregur varð hluti danska konungdæmisins með stofnun Kalmarsambandsins á 14. öld, hafði Grænland lengi verið norsk hjálenda, líkt og Ísland. Í kjölfar Napóleonsstríðanna 1814 voru Danir neyddir til að láta Noreg af hendi við Svíþjóð, en héldu eftir hjálendum Noregs. Ein afleiðingin varð sú að fullveldi Noregs yfir Grænlandi færðist yfir til Danmerkur, án þess að Norðmenn, hvað þá sjálfir innbyggjar Grænlands, fengju um það ráðið. Hér var það ólán Noregs, líkt og Danmerkur, að hafa veðjað á rangan hest í Napóleonsstríðunum og þurft fyrir vikið að sætta sig við réttvísi sigurvegaranna. Eins og oft vill verða, réðu valdahlutföll því að stríðunum loknum hvernig skipaðist til um friðinn, en tilraunir Norðmanna til að endurvekja kröfu sína til hluta Grænlands fyrir dómstólum á tuttugustu öld reyndust árangurslausar. Hvort sem Bandaríkjaforseti tekur lagalegt tilkall Danmerkur til Grænlands alvarlega eða ekki, hefur áhugi Bandaríkjanna á Grænlandi frá upphafi lotið öðrum rökum. Hann er heldur ekki nýr af nálinni. Frá árinu 1867 hefur það gerst í embættistíð a.m.k. fjögurra forseta að rætt hafi verið um kaup á Grænlandi í Bandaríkjunum, áður en Trump tók upp þráðinn á fyrra tímabili sínu í embætti 2019. Bandaríkin höfðu raunar ekki látið við það sitja að falast eftir Grænlandi, heldur höfðu þau hernumið það 1940 í því skyni að verða fyrri til en Þjóðverjar sem þá höfðu þegar ruðst til ríkis í Danmörku. Þessa hernaðaraðgerð sína réttlættu Bandaríkin með vísan til svokallaðrar Monroe-kenningar, en undir yfirskyni hennar hafa Bandaríkin áskilið sér rétt til að bregðast við afskiptum erlendra ríkja af amerísku áhrifasvæði og var þetta í fyrsta skipti sem kenningin kom til framkvæmda innan landsvæðis Evrópu. Til að deyfa höggið var Dönum, sem ekki höfðu samþykkt landtökuna, boðið að gera tvíhliða samkomulag um varnir Grænlands og var það undirritað 1941. Tíu árum síðar leysti varnarsamningur ríkjanna samkomulagið af hólmi, en þá höfðu Danir gefist upp á tilraunum sínum til að fá Bandaríkin til að yfirgefa Grænland. Það er á grundvelli þessa varnarsamnings sem Bandaríkin hafa lengst af staðið skil á hinni raunverulegu baktryggingu fyrir vörnum Grænlands, en samkvæmt samningnum geta Bandaríkin, þegar svo ber undir, óskað eftir því að fjölga í herliði sínu á eynni eða koma þar fyrir auknum búnaði. Lengi vel höfðu Bandaríkin þúsundir liðsmanna á Grænlandi og a.m.k. sautján bækistöðvar, en hafa hin síðustu ár rekið þar eina herstöð, geimstöðina í Pituffik, með 200 manna starfsliði. Hefur stöðin gegnt mikilvægu loftvarna- og eftirlitshlutverki fyrir Bandaríkin og önnur ríki á Atlantshafssvæðinu. Í ljósi þessarar löngu sögu, er eðlilegt að spurt sé af hverju Bandaríkin hafi einmitt nú ákveðið að ganga skrefinu lengra en þeir hafa áður gert gagnvart dönskum og grænlenskum bandamönnum. Svarið við þeirri spurningu er tvíþætt. Með þeim breytingum sem orðið hafa á svæðinu í kjölfar loftslagsbreytinga - samdrætti ísþekjunnar og aukinni skipaumferð og auðlindanýtingu - beinist kastljósið nú sem aldrei fyrr að norðurslóðum. Jafnvel þótt landafræðileg lega Grænlands hafi lengi skipt Bandaríkin máli af þjóðaröryggisástæðum, liggur Grænland nú á krossgötum hervelda sem áskilja vilja sér aukið svigrúm til athafna á svæðinu. Ásælist keppinautar Bandaríkjanna Grænland, er þeim til efs að danska konungsríkið, með innan við sex milljón íbúa, hafi þá hernaðarlegu burði sem þarf til að hrinda ásókninni. Að þessu leyti mætti halda því fram að staða Grænlands endurspegli í hnotskurn þær breytingar sem nú eru að verða á stóra sviðinu. Ólíkt því sem við átti eftir hrun Sovétríkjanna, þegar Bandaríkin stóðu eftir sem eina risaveldið, deila þau nú sviðinu með öðrum, ekki síst Kína og Rússlandi. Það sem meira er, þessi tvö stórveldi hafa á undanförnum árum tekið höndum saman um að veita Vesturlöndum vaxandi hernaðarlegt og viðskiptalegt viðnám. Eftir að átökin hófust í Úkraínu, hafa Rússar beint sjónum sínum frá Evrópu til Asíu, einkum Kína og Indlands, sem þeir selja bæði orku og jarðefni sem unnin eru á norðurslóðum. Á móti hafa Kínverjar fært sér tækifærið í nyt og sóst eftir fótfestu, m.a. meðfram ströndum Íshafsins og á Grænlandi, þar sem þeir hafa sýnt bæði mannvirkjagerð og námavinnslu vaxandi áhuga, en talið er að Grænland hafi yfir að ráða 25 af 34 eftirsóttustu jarðefnum veraldar. Engan skyldi undra ef Bandaríkjamenn vildu bregða fæti fyrir þessa tangarsókn Kínverja og helst fá aðgang að auðlindum Grænlands fyrir sig sjálfa. E.t.v. veldur þó meiru, að Bandaríkin telja sér ógn standa af Kína og hefur varnarmálaráðherrann sagt þau þurfa að búa sig undir mögulegt stríð við Kínverja á næstu árum. Ef það er rétt, hníga flest rök að því að Bandaríkin líti svo á að þeirra eigin varnir verði ekki með góðu móti aðskildar vörnum Grænlands. Á sama hátt og varnarsamningur Íslands við Bandaríkin hefur gert íslensku þjóðinni kleift að standa vörð um fullveldi sitt, virðist lítil ástæða, hvað sem öllum væringum líður, til að ætla annað en að hinn jafngamli varnarsamningur Danmerkur við Bandaríkin muni enn um sinn þjóna hlutverki sínu. Svo lengi sem það ekki breytist, verður líkast til einhver bið á því að Danir væti brá yfir viðskilnaði við Grænland, landinu sem Eiríkur gaf nafn og þar sem Íslendinga öldruð bein, svo aftur sé vitnað til rímnaskáldsins, áfram í grjóti sofa. Höfundur er fyrrverandi sendiherra Íslands, m.a. hjá NATO, Sameinuðu þjóðunum, CSCE og ESB.
Duga aðgerðir ríkistjórnarinnar til að rífa fjölda eldri borgara úr fátæktargildrunni? Björn Snæbjörnsson Skoðun
Skoðun Jákvæð áhrif millilandaflugs til Akureyrar eru miklu meiri en þú heldur Lára Halldóra Eiríksdóttir skrifar
Skoðun Þegar stórútgerðin gleypir allt – er kominn tími á norskar lausnir? Kjartan Sveinsson skrifar
Skoðun Duga aðgerðir ríkistjórnarinnar til að rífa fjölda eldri borgara úr fátæktargildrunni? Björn Snæbjörnsson skrifar
Skoðun Lestrarkunnátta barna batnar ekki með einni bók á hverja fimmtán nemendur Eydís Inga Valsdóttir skrifar
Skoðun Frá friði til vígvæðingar: Höfnum nýrri varnar- og öryggisstefnu utanríkisráðherra Steinunn Þóra Árnadóttir,Einar Ólafsson skrifar
Skoðun Stærsta öryggismál barna í dag eru samskipti, mörk og viðbrögð við grun um ofbeldi Arnrún María Magnúsdóttir skrifar
Duga aðgerðir ríkistjórnarinnar til að rífa fjölda eldri borgara úr fátæktargildrunni? Björn Snæbjörnsson Skoðun