Skoðun

0,0

Inga Sæland skrifar

Í nýrri fjár­mála­áætl­un rík­is­stjórn­ar­inn­ar fyr­ir árin 2024-2028 seg­ir fjár­málaráðherra, Bjarni Bene­dikts­son, að fel­ist skýr mark­mið. Meðal ann­ars sé eitt mark­miðanna að styðja við Seðlabank­ann í því verk­efni að tempra verðbólgu. Því­líkt froðusnakk! Það fer ekki fram hjá nein­um að þetta er inn­an­tómt blaður. Við get­um kinn­roðalaust skrifað ófremd­ar­ástand ok­ur­vaxta og him­in­hárr­ar verðbólgu bein­ustu leið á stjórn­völd. Stjórn­völd sem hafa troðið fingr­un­um í eyr­un og sett leppa fyr­ir bæði aug­un, svo ein­beitt eru þau í að hunsa hjálp­ar­köll­in sem ber­ast frá Svörtu­loft­um, um aðstoð í bar­átt­unni við verðbólgu­draug­inn. Stjórn­völd eru harðákveðin í því að vaxta­hækk­un­ar­sveðjunni verði áfram höggvið af full­um þunga þar sem þegar hafa verið opnuð svöðusár.

Í lönd­un­um í kring­um okk­ur sjá­um við hvernig þjóðirn­ar tak­ast með mis­mun­andi hætti á við verðbólg­una. Á Spáni sem dæmi lækkaði verðbólg­an um heil tvö pró­sentu­stig á milli mánaðanna fe­brú­ar og mars. Hvernig fóru Spán­verj­ar að því? Spænsk stjórn­völd lækkuðu álög­ur á bens­ín. Á sama tíma ákvað rík­is­stjórn Íslands að hækka hvern ein­asta bens­ín­lítra um níu krón­ur. Spænsk stjórn­völd drógu úr öll­um álög­um hvaða nöfn­um sem þær kunna að nefn­ast á meðan ís­lensk stjórn­völd réðust af afli á sam­fé­lagið með krónu­tölu­hækk­un­um. Skatta­hækk­an­irn­ar skiluðu sér svo beina leið út í verðlagið sem víta­mín­bætt fóður fyr­ir verðbólg­una. Hvarflaði að þeim að sækja þess­ar krón­ur í stór­út­gerðina sem græðir sem aldrei fyrr? Eða í bank­ana sem merg­sjúga sam­fé­lagið með ok­ur­vöxt­um og verðtrygg­ingu? Nei, að sjálf­sögðu hvarfl­ar ekki að þeim að sækja fjár­magn þar sem nóg er af því fyr­ir og all­ar hirsl­ur eru yf­ir­full­ar af pen­ing­um millj­arðamær­ing­anna sem þessi rík­is­stjórn vernd­ar með kjafti og klóm und­ir for­ystu VG. Ef ein­hver hef­ur velkst í vafa um að þetta sé rík­is­stjórn sér­hags­muna þá hlýt­ur sann­leik­ur­inn nú að blasa við. Rík­is­stjórn sér­hags­muna­afl­anna stend­ur aðgerðalaus hjá og horf­ir á hvernig þjóðinni blæðir á meðan hún fær­ir auðmagn­inu heilu pen­inga­hlöss­in á silf­urfati. Enn og aft­ur skal fórna þeim efnam­inni á alt­ari græðginn­ar.

Rík­is­stjórn­in tal­ar um að verja framúrsk­ar­andi lífs­kjör og kaup­mátt á meðan gjá­in á milli þeirra ríku og fá­tæku held­ur áfram að breikka og dýpka. Fá­tækt ís­lenskra barna hef­ur vaxið um heil 44% sl. sex ár. Öll út­gjöld heim­il­anna hafa auk­ist stjarn­fræðilega. Rík­is­stjórn­in reyn­ir að telja fá­tæku fólki trú um að það hafi það gott og hér drjúpi smjör af hverju strái. Því­lík ósann­indi, því­lík hræsni. Ef þetta er ekki van­hæf rík­is­stjorn þá er hún ekki til.

Ég gef bæði rík­is­stjórn­inni og fjár­mála­áætl­un henn­ar til næstu fjög­urra ára 0,0.

Höfundur er formaður Flokks fólksins




Skoðun

Skoðun

Þúsundir kusu Sönnu

Anna Bentína Hermansen Einarsdóttir,Ármann Hákon Gunnarsson,Baldvin Björgvinsson,Brynja Guðnadóttir,Haraldur Ingi Haraldsson,Jón Hallur Haraldsson,Kolbrún Erna Pétursdóttir,Ólafur H. Ólafsson,Rakel Hildardóttir,Sigrún Jónsdóttir skrifar

Sjá meira


×