Handbolti

Segir Dag hafa beðist af­sökunar

Aron Guðmundsson skrifar
Dagur lét evrópska handknattleikssambandið heyra það á blaðamannafundi á fimmtudaginn síðastliðinn
Dagur lét evrópska handknattleikssambandið heyra það á blaðamannafundi á fimmtudaginn síðastliðinn

Forseti Evrópska handknattleikssambandsins segir Dag Sigurðsson, landsliðsþjálfara Króatíu hafa beðist afsökunar á því hvernig hann orðaði gagnrýni sína á keppnisfyrirkomulagi og skipulagi sambandsins á blaðamannafundi fyrir úrslitahelgi EM í Herning.

Forsetinn, Michael Wiederer, sat blaðamannafund í Herning í dag þar sem hann var spurður út í gagnrýni Dags sem fór mikinn á blaðamannafundi í aðdraganda undanúrslitaleiks Króata við Þýskaland á EM.

Dagur sagði EHF þar bera litla sem enga virðingu fyrir leikmönnum og starfsfólki liðanna á EM og benti á skekkju í hvíldartíma liða fyrir undanúrslitin.Dagur líkti svo evrópska sambandinu við skyndibitakeðju og liði sínu líkti hann við frosinn kjúkling.

„Þau eru eins og skyndibitastaður, þeim er alveg sama um gæðin, þau vilja bara selja. Eða reyndar, þau eru eins og viðburðarfyrirtæki, sem pantar bara einhverja listamenn til að setja upp sýningu og flottan blaðamannafund. Það skiptir þau engu máli að við hefðum þurft að keyra í fjóra tíma frá Malmö í morgun, það skiptir þau engu máli.“

Út í akkúrat þessa líkingu var forseti EHF spurður á blaðamannafundi þar sem að hann sagði strax að Dagur hefði beðist afsökunar á þessu orðavali sínu.

Í samtali við Vísi fyrr í dag sagðist Dagur, sem stýrir liði sínu í leiknum um bronsið á EM gegn Íslandi á morgun, að hann hefði sæst við framkvæmdastjóra EHF, góðan vin sinn. Það hafi legið fyrir að Dagur myndi láta sambandið heyra það fyrir blaðamannafundinn umrædda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×