Handbolti

Al­freð enn kóngurinn en „jarðaður út og suður“

Aron Guðmundsson skrifar
Alfreð Gíslason kann leikinn betur en flestir aðrir
Alfreð Gíslason kann leikinn betur en flestir aðrir Vísir/Getty

Alfreð Gíslason er búinn að koma þýska landsliðinu í úrslitaleik EM í handbolta. Undir mikilli pressu og gagnrýni framan af sýndi Íslendingurinn að hann er ótvíræður kóngur í Þýskalandi að mæti sérfræðinga Besta sætisins. Þjóðverjar nái engum árangri nú til dags nema með Íslending í brúnni.

Þjóðverjar lögðu Króata að velli í undanúrslitunum í gær á móti þar sem að þýska liðið hefur farið stigvaxandi eftir því sem líður á það.

Mikil pressa var sett á Alfreð fyrir mót þar sem að Andreas Michelmann, formaður þýska handknattleikssambandsins, sagði stöðu Alfreðs sem landsliðsþjálfara ekki örugga þó svo að  samningur hans gildir yfir HM í Þýskalandi 2027.

Eftir stór mistök Alfreðs í öðrum leik Þýskalands á EM gegn Serbum í leik sem endaði með jafntefli fóru strax að heyrast háværar kröfur um að Alfreð yrði rekinn úr starfi. 

Síðan þá hefur Þýskaland unnið lið á borð við Spán, Portúgal, Noreg, Frakkland og nú síðast Króatíu og mætir Dönum í úrslitaleiknum á morgun. 

„Númer eitt. Alfreð Gíslason þarf ekki að sanna sig í Þýskalandi. Þar er hann kóngurinn,“ sagði Rúnar Kárason um afrek Alfreðs í Besta sætinu. „Hann er algjör kóngur í handboltanum þar. Alfreð kemur sjálfur fyrir mót og segir að þetta þýska landslið sem hann er með í höndunum núna sé besta landslið sem hann hefur þjálfað. Langbesti hópurinn. Það eru risa orð. Það er svo mikil vigt í því sem að Alfreð segir því hann er með einhverja svakalegustu metorðaskrá í heimi. Það eru fáir þjálfarar sem skákað honum þar.“

Alfreð í stöðu þar sem að hann getur ekki tapa.

„Annað hvort er hann bara rekinn ef það gengur illa og þá fer hann hlægjandi í bankann á óuppsegjanlegum samningi og allt það. Eða þá að hann heldur áfram að vera kóngurinn sem hann er, fer alla leið og getur sagt mönnum að þetta hafi hann vitað allan tímann. Það er bara að raungerast núna. Það er ekkert búið að breytast, Alfreð Gíslason er enn kóngurinn í Þýskalandi.“

Einar Jónsson, þjálfari ríkjandi Íslands- og bikarmeistara Fram, tók undir orð Rúnars. 

„Hann tekur eitthvað eitt leikhlé á vitlausum tíma og það verður allt vitlaust. Alfreð er kóngurinn í Þýskalandi en það er endalaust verið að taka hann í gegn. Hann er jarðaður út og suður, ein mistök og hann er jarðaður. Þetta er ógeðslega erfitt umhverfi. Einhverjir hafa sagt það vera mjög tvískipt. Það eru sumir sem eru á því að það megi ekki útlendingur þjálfa þýska landsliðið, þeir bara hata það, en það bara er ekki til þýskur þjálfari sem getur þjálfað þá. Jú Heiner Brand en það eru einhver áttatíu ár síðan,“ sagði Einar kíminn. „Hann var flottur á sínum tíma en svo eru þetta bara Dagur Sigurðsson og Alfreð Gíslason sem hafa náð einhverjum árangri með þýska landsliðið. Það er búið að reyna einhverja þýska þjálfara en það er bara katastrófa.“

Nánari umræðu um Alfreð, þýska landsliðið og horfurnar fyrir úrslitaleikinn gegn Dönum má heyra í Besta sætinu í spilaranum hér fyrir ofan eða í gegnum hlaðvarpsveitur hér fyrir neðan: 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×