Handbolti

Tekur Ómar hlut­verki fyrir­liða Ís­lands of al­var­lega?

Aron Guðmundsson skrifar
Landsliðsfyrirliðinn Ómar Ingi Magnússon hefur ekki náð fram sínu allra besta á EM
Landsliðsfyrirliðinn Ómar Ingi Magnússon hefur ekki náð fram sínu allra besta á EM Vísir/Vilhelm

Ómar Ingi Magnússon, fyrirliði íslenska landsliðsins hefur ekki verið líkur sjálfum sér á yfirstandandi Evrópumóti handbolta. Frammistaða hans var til umræðu í Besta sætinu og sérfræðingur sem þekkir vel til Ómars segir það gilda spurningu hvort hann sé að taka hlutverki landsliðsfyrirliða of alvarlega.

Ísland gerði slæmt jafntefli gegn Sviss í milliriðlum EM í gær, lokatölur 38-38. Úrslit sem gerðu leið Strákanna okkar að undanúrslitum torfærari, örlögin ekki lengur aðeins í þeirra höndum. 

Landsliðsfyrirliðinn Ómar Ingi Magnússon átti ekki sérstakan leik og hefur þegar fleiri leikir eru skoðaðir á mótinu ekki komist í sinn takt og náð sínu besta fram.  

„Slakur í vörninni og var eins og svo oft áður hikandi í sókninni. Viggó varð meira ágengt í leiknum. Ómar átti ágætan kafla í seinni hálfleik en maður gerir meiri kröfur til hans. Það geislar svo ekki beint af fyrirliðanum í öllu hans fasi inni á vellinum,“ sagði í einkunnargjöf íþróttadeildar Vísis um Ómar.

Frammistaða landsliðsfyrirliðans var til umræðu í hlaðvarpsþættinum Besta sætinu.

„Þú sérð ekkert rosalega mikil svipbrigði hjá Ómari en ég veit að honum líður ekkert alltaf vel,“ sagði Sebastian Alexandersson, handboltaþjálfari, sem bætti því við að hann þekkti Ómar vel. „Þú sérð ekkert mun á honum þegar að hann er ánægður eða óánægður. Það má ekki dæma hann fyrir það en þú sérð það langar leiðir í dag að hann er ekkert líkur sér á þessu móti.“ 

„Hann tekur sárafá skot utan af velli og ég veit ekki hvort að hann þurfi bara tíma til þess að melta það að hann sé orðinn fyrirliði íslenska landsliðsins. Ég held að Ómar taki þetta hlutverk mun alvarlegra en nokkur annar í hópnum. Það er spurning hvort hann taki því of alvarlega?“

Hlusta má á Besta sætið í spilaranum hér fyrir ofan eða á streymisveitum í gegnum hlekkina hér fyrir neðan:




Fleiri fréttir

Sjá meira


×