Innlent

Verka­lýðs­hreyfingin úti á túni með sitt tal?

Jakob Bjarnar skrifar
Brynjar vildi vita hvað Ragnari Þór ráðherra þyki um gagnrýni verkalýðshreyfingarinnar um væntanlegt afnám ríkisstjórnarinnar á áminningarskyldu opinberra starfsmanna.
Brynjar vildi vita hvað Ragnari Þór ráðherra þyki um gagnrýni verkalýðshreyfingarinnar um væntanlegt afnám ríkisstjórnarinnar á áminningarskyldu opinberra starfsmanna. vísir/vilhelm

Brynjar Níelsson lögmaður kom inn sem varaþingmaður á Alþingi í dag, þá fyrir Guðlaug Þór Þórðarson, og lét ekki bjóða sér það tvisvar; hann henti sér umsvifalaust í óundirbúnar fyrirspurnir. Brynjar átti erindi við Ragnar Þór Ingólfsson félags- og húsnæðismálaráðherra og þá með vísan til fortíðar hans hjá verkalýðshreyfingunni en Ragnar var formaður VR.

„Virðulegi forseti. Hæstvirtur fjármála- og efnahagsráðherra hefur boðað framlagningu frumvarps um afnám áminningarskyldu opinberra starfsmanna í lok næsta mánaðar samkvæmt uppfærðri þingmálaskrá.“

Þannig hóf Brynjar mál sitt og sagði það fagnaðarefni að ráðherrann hefði tekið upp málflutning þeirra Sjálfstæðismanna í þessum efnum, en frumvarp um afnám áminningarskyldunnar frá Diljá Mist Einarsdóttur, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, liggur einmitt fyrir þinginu og hefur gert frá því í september síðastliðnum.

Hvað finnst Ragnari um gagnrýni verkalýðshreyfingarinnar?

„Fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar hafa hins vegar sætt harðri gagnrýni frá verkalýðshreyfingunni og í sameiginlegri yfirlýsingu stærstu verkalýðsfélaga landsins kemur fram að „íslensk verkalýðshreyfing hafnar þessum vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar og leggst alfarið gegn áformum hennar.“

Brynjar rifjaði upp að í umsögn BSRB um frumvarpið segi að vinnubrögð ríkisstjórnarinnar séu óásættanleg og „ekki til þess fallin að stuðla að sátt á vinnumarkaði“. Og þá kom spurningin:

„Því vil ég spyrja hæstvirtan félags- og húsnæðismálaráðherra hvort hann sé ekki sammála okkur Sjálfstæðismönnum, og þá væntanlega fjármála- og efnahagsráðherra, um að frumvarpið sé hið besta mál og að verkalýðshreyfingin sé úti á túni í sinni gagnrýni?“

Ragnar Þór Ingólfsson þakkaði spurninguna. Hann sagði verkalýðshreyfinguna helst hafa gagnrýnt samráðsleysi ef lesnar eru helstu umsagnir við væntanlegt frumvarp.

„Varðandi persónulega skoðun mína á frumvarpinu sem slíku held ég að hollt sé að endurskoða lög og regluverk um vinnumarkaðinn. Æskilegt sé að það sé gert í góðu samráði, sú hefur verið venjan. Ég skil þessa gagnrýni, hún á rétt á sér en að öðru leyti get ég ekki svarað fyrir frumvarp fjármálaráðherra.“

Ragnar ósammála öllum ráðherrum ríkisstjórnarinnar

Brynjar steig þá í pontu og sagðist skilja þetta svar Ragnars svo að hann væri ósammála Daða Má Kristóferssyni fjármála- og efnahagsráðherra um að þetta væri ótækt eins og verkalýðshreyfingin heldur fram.

Langt er um liðið síðan Brynjar var á þingi en hann virtist engu hafa gleymt.vísir/vilhelm

„Félags- og húsnæðismálaráðherra hefur ekki verið sammála ráðherra í neinu og ég geri ráð fyrir því að hann sé ekki sammála neinum ráðherra. Er Ragnar sammála því að eitthvað þurfi að gera í þessum málum, að ótækt sé að það sé svona mikill munur í opinbera- og einkageiranum?“

Ragnar sagði Brynjar túlka svör sín frjálslega. Það hlyti að vera fínt að skoða lög um vinnumarkað reglulega og fínt að gera það í samráði við alla aðila. Fjármálaráðherra hafi verið sammála því að koma í veg fyrir frekari kjaragliðnun hjá elli- og lífeyrisþegum. Þá sé ríkisstjórnin sammála því að farin sé þessi leið. „Fjármálaráðherra verður að svara fyrir sitt eigið frumvarp en ég tel að skoða þurfi þessar reglur reglulega.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×