Viðskipti innlent

Halda til loðnu­veiða í kvöld

Árni Sæberg skrifar
Frá loðnuveiðum um borð í Beiti NK fyrir fimm árum.
Frá loðnuveiðum um borð í Beiti NK fyrir fimm árum. Vísir/Sigurjón

Reiknað er með því að tvö skip haldi til loðnuveiða frá Neskaupstað í kvöld, Barði NK frá Síldarvinnslunni og grænlenska skipið Polar Amaroq. Polar Amaroq kom með fyrstu loðnu vertíðarinnar til Neskaupstaðar síðastliðinn þriðjudag.

Í tilkynningu þess efnis á vef Síldarvinnslunnar segir að frá því í upphafi síðustu viku hafi fimm skip leitað loðnu við landið og að loðna hafi fundist á stóru svæði. 

Hafrannsóknastofnun hafi sent frá sér tilkynningu um nýliðna helgi þar sem fram hafi komið að nú yrði farið yfir gögnin sem aflað var í leitinni og í kjölfar þess birt ráðgjöf fyrir vertíðina. 

„Gera má ráð fyrir að niðurstaða Hafrannsóknastofnunar liggi fyrir á næstu dögum. Óhætt er að segja að fréttir af loðnuleitinni hafi skapað verulega bjartsýni.“

Tvö skip muni væntanlega halda til loðnuveiða frá Neskaupstað í kvöld. Það séu Barði NK og grænlenska skipið Polar Amaroq. Polar Amaroq hafi komið með fyrstu loðnu vertíðarinnar til Neskaupstaðar síðastliðinn þriðjudag. 

Sú loðna hafi verið veidd í flotvörpu en nú hafi bæði grunnnót og djúpnót verið tekin um borð í skipið. Barði hafi verið eitt þeirra þriggja veiðsikipa sem tók þátt í loðnuleitinni og á vef Síldarvinnslunnar er haft eftir Theodóri Haraldssyni skipstjóra að leitin hafi gengið vel. 

„Við vorum að leita frá Kolbeinseyjarhrygg og suður í Reyðarfjarðardýpi. Leitin gekk vel en við urðum varir við mest af fiski austur af landinu. Barði er klár til trollveiða og nú er einnig verið að undirbúa skipið fyrir nótaveiðar. Þetta er allt virkilega áhugavert og það verður spennandi að fá fréttir af ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar síðar í vikunni.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×