Handbolti

„Gífur­lega tilfinningaþrungið“ fyrir sænsku stjörnuna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jim Gottfridsson er lykilmaður hjá sænska landsliðinu sem mætir því íslenska í dag.
Jim Gottfridsson er lykilmaður hjá sænska landsliðinu sem mætir því íslenska í dag. EPA/Beate Oma Dahle

Ísland mætir Svíþjóð í dag á Evrópumótinu í handbolta en Svíar eru á heimavelli og ætla sér langt. Á sama tíma berst ein stærsta handboltagoðsögn Svía við krabbamein.

Sænski landsliðsmaðurinn öflugi Jim Gottfridsson horfði á heimildarmyndina um Per Carlén á meðan á Evrópumótinu stóð. Carlén berst við ólæknandi krabbamein.

Skömmu fyrir leikinn gegn Slóveníu á EM var hinni 65 ára gömlu goðsögn heiður sýndur á vellinum með standandi lófaklappi.

Pelle hefur skipt svo ótrúlega miklu máli

„Þetta var fallegt og gífurlega tilfinningaþrungið. Pelle hefur skipt svo ótrúlega miklu máli fyrir sænskan handbolta,“ segir Jim Gottfridsson

@sportbladet

„Maður fær allt aðra sýn og annað sjónarhorn á lífið þegar svona hlutir koma nær manni. Maður á að hlúa að sínum nánustu,“ sagði Gottfridsson en hann horfði á heimildarmyndina á leikmannahótelinu, á milli eigin EM-leikja.

„Ég varð mjög, mjög snortinn“

„Ég varð mjög, mjög snortinn. Þetta var rosalega fallegt með börnin líka. Pelle er algjör baráttukappi. Ég sendi Per SMS-skilaboð um hvað mér fannst um myndina og fékk rosalega fallegt SMS-skilaboð til baka.“

„Ég skrifaði að ný tegund af baráttukappa hefði fæðst í Svíþjóð. Baráttan og viljinn hefðu fengið nýtt andlit,“ sagði Gottfridsson sem er fæddur og uppalinn í Ystad, þar sem Per Carlén hefur haft bækistöðvar sínar í yfir þrjátíu ár.

„Hann hefur séð mig síðan ég var lítill snáði og hljóp um í Österporthallen og hann þjálfaði unglingaliðið þar sem sonur hans, Oscar, og bróðir minn, spiluðu. Þannig að ég þekki hann vel og það var gífurlega tilfinningaþrungið að sjá myndina.“

Fékk skilaboð til baka

Hvað svaraði Carlén SMS-skilaboðunum?

„Að honum þætti mjög vænt um að fá SMS frá svona „stórum persónuleika“ og að það hefði yljað honum mikið. Svo voru nokkrir persónulegir hlutir í viðbót,“ segir Gottfridsson.

Per Carlen lék 327 landsleiki og skoraði 1026 mörk fyrir sænska landsliðið á árunum 1982–1996. Þegar hann lauk ferli sínum með landsliðinu átti hann metið yfir bæði flesta landsleiki og flest mörk fyrir Svíþjóð frá upphafi, en þau met voru síðar slegin af nokkrum samherjum hans úr landsliðinu frá hinu sigursæla „Bengan Boys“-tímabili á tíunda áratugnum.

Fyrirliðinn þegar Svíagrýlan varð til

Carlén lék sinn fyrsta landsleik fyrir Svíþjóð árið 1982. Hann varð síðar fyrirliði liðsins og var ásamt mönnum eins og Magnus Wislander, Staffan Olsson, Erik Hajas og Björn Jilsén einn af lykilmönnunum í sigursælu landsliði, fyrst undir stjórn Rogers „Ragge“ Carlssons og síðan Bengts „Bengan“ Johanssons á níunda og tíunda áratugnum.

Carlén tók þátt í fjórum Ólympíuleikum: Los Angeles 1984, Seúl 1988, Barcelona 1992 og Atlanta 1996. Hann lauk landsliðsferli sínum með úrslitaleiknum á Ólympíuleikunum 1996, þar sem hann skildi skóna sína eftir á verðlaunapallinum í Atlanta.

Hann varð bæði heimsmeistari (1990) og Evrópumeistari (1994) með sænska landsliðinu og fékk auk þess tvenn silfurlaun á Ólympíuleikunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×